25.03.1946
Efri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (5080)

102. mál, iðnskóli í sveitum

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þetta mál hefur legið lengi hjá iðnn., og stafar það nokkuð af því, að hún hefur verið að reyna að samræma það við iðnfræðslulöggjöfina. N. hélt 4 fundi um málið og sendi Teiknistofu landbúnaðarins og Landssambandi iðnaðarmanna frv. til umsagnar. Teiknistofan svaraði strax, en nokkuð dróst, að svar kæmi frá Landssambandinu, en þegar það kom, var það á sama veg, að vísu með nokkrum athugasemdum. Mæltu báðir aðilar með frv. Þrátt fyrir þetta gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n., hv. 9. landsk. og ég, höfum ekki getað fallizt á frv. Hv. 2. þm. N.-M. hefur skilað sínu áliti, og mun hann gera grein fyrir afstöðu sinni.

Grundvallarstefna frv. er sú að skapa eigi sveitum og þorpum verri aðstöðu til iðnfræðslu en öðrum landshlutum. Okkur er ljóst, að byggingar vantar í sveitum, en við teljum, að úr því megi bæta með því að byggja hús samkv. 1. nr. 7 frá 12. jan. 1945, um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum. Má vænta þess, að þessi verk verði falin fulllærðum iðnaðarmönnum, og jafnframt verði notaðar hraðvirkar vélar við byggingarnar. — Nú hefur Landssamband iðnaðarmanna fallizt á þessa till. Þykir meiri hl. iðnn. það mjög merkilegt, þar sem á bak við þetta frv. er allt annar hugsunarháttur en kemur fram í bréfi frá Landssambandinu varðandi það atriði, hvort réttara sé að kenna mönnum iðnina í skóla eða viðhafa þann hátt, sem nú er gert, að láta þá starfa sem iðnnema allt að 4 ár. Um það vildi meiri hl. iðnn. ekki taka neina sérstaka afstöðu á þessu stigi málsins. Það er atriði, sem vel er þess vert að vera athugað. En ef það væri gert, þá er það a. m. k. skoðun meiri hl. iðnn., að ekki beri að byrja með því að setja upp slíka kennslustofnun í strjálbýlli sveit, heldur fyrst og fremst þar, sem nægilega greiður aðgangur er að rafmagni, flutning á efni, er þarf til skólahaldsins, og nægilega greitt að markaði til þess að selja vöru þá, sem framleidd er á verkstæðinu. Það er að ýmsu leyti hagkvæmara að hafa slíka skóla í fjölmenni en í sveitum, því að það kostar mikið fé að flytja hráefnið fyrst á þennan stað og vöruna svo aftur á markað. Auk þess lítur meiri hl. n. svo á, að ekki beri að haga kennslunni eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Frv. gerir ekki ráð fyrir, að kennd sé til fulls hver grein út af fyrir sig, heldur skuli hrært saman lítið skyldum iðngreinum. Eins og ég gat um áðan, virðist Landssamband iðnaðarmanna álíta, að rétt sé að stefna að þessu marki almennt um iðnfræðslu, þegar fyrir Alþ. liggur frv. um iðnfræðslu, sem gengur í gagnstæða átt, en er þó undirbúið að mestu af þessum aðilum.

Ég skal nú fara út í það, hvað hugsað er að kenna í þessum skóla, eins og frv, liggur fyrir, og benda á nokkra galla, sem mér finnst á frv. vera, og hvers vegna ég tel ekki rétt að fara inn á þá braut, sem lagt er hér til. — Það er þá fyrst, að í 2. gr. er ákveðið, að þessi stofnun skuli heyra undir landbrh. Mér finnst, að ef skólinn er stofnaður, þá skuli hann heyra undir þann ráðh., sem fer með iðnaðarmál.

Í 3. gr. er talað um, að námstíminn skuli vera 2 ár. Það liggur engin rannsókn fyrir um það, hvort hægt er að kenna mönnum hverja grein á tveim árum, ef farið er inn á þessa braut að kenna mönnum í stað þess að láta þá nema með því að sjá aðra vinna. Ég tel það þurfi að rannsakast nánar, áður en því er slegið föstu, hvar slíkur skóli skuli standa. Ég vil benda á, að í Bretlandi var í stríðinu farið inn á þá braut að kenna mönnum, þ. á m. kvenfólki, störf í ýmsum iðnum, skipabyggingum, vélsmiðjum o. fl. Og þeir menn, sem ég hef átt tal við um þetta, upplýstu, að hægt hefði verið að kenna ákveðna iðngrein á 6 mánuðum. Hverjum nemanda var aðeins kennd mjög takmörkuð iðngrein. Það væri mjög athugandi, hvort ekki væri hægt að fara inn á þessa leið hér. Ég gæti trúað, að það mætti kenna einum að logsjóða, öðrum að hnoða, o. s. frv., svo að þeir gætu náð æfingu á 6 mánuðum. En þeir gætu ekki kennt eða stjórnað verki, nema þeir hefðu víðtækari menntun. Það mætti hafa þetta stig af stigi, þannig að menn gætu numið iðn sína í fleiri skólum og orðið nægilega góðir í sinni grein. En þá þarf annan undirbúning en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Í 4. gr. er ætlazt til þess, að inntökuskilyrði séu gagnfræðapróf eða einn vetur í héraðsskóla og nemandinn hafi fengið a. m. k. 2. einkunn eða sýni með sérstöku prófi, að hann hafi álíka þekkingu. Ég tel ekki þetta nauðsynlegt inntökuskilyrði í slíkan skóla, ef hann á að kenna það, sem talað er um í 6. gr., en um þetta má að sjálfsögðu deila. 4. gr. frv. þyrfti að breyta, ef frv. verður samþ., þar sem talað er um, að nemandi skuli hafa hlotið nokkra æfingu í meðferð venjulegustu smíðaáhalda og geta leitt að því líkur, að hann sé gott smiðsefni. Til þess að uppfylla þetta skilyrði, verður að vera búið að koma upp tilraunastofnun þeirri, sem gert er ráð fyrir í 8. gr. frv. um iðnfræðslu. Þar er um mjög mikið nýmæli að ræða, þar sem koma skal upp stofnun, sem sannprófi hæfileika manna til iðnnáms, áður en gengið er inn í iðnnám. Það má setja það hér að skilyrði, að nemendur hafi staðizt próf við þá stofnun, þear hún er komin á fót. Hér er talað um að skipta skólanum í tvær deildir, húsasmíðadeild og húsgagna- og búsáhaldasmíðadeild. Út af fyrir sig sé ég ekki ástæðu til, að skólinn þurfi að starfa í tveim deildum. Honum er fyrst og fremst ætlað að bæta úr þörf til að fá fullnuma húsasmiði. Ég sé ekki, að nauðsynlegt sé að setja upp 2 deildir, aðra fyrir húsgagnasmíði og hina fyrir húsasmíði. Ég tel miklu nær að skylda skólann til að kenna sérstaklega meðferð búvéla.

Í 6. gr. er talað um fræðikennsluna, og ætlazt til, að hún skuli vera með svipuðum hætti og í búnaðarskólunum og héraðsskólunum almennt. Virðist mér ekki nauðsynlegt að reisa sérstakan skóla til að kenna þau fög. — Í 7. gr. er gert ráð fyrir, að menn læri allt í graut. Þeir eiga að vera múrsmiðir, leggja járn í steypu, vatnsleiðslur og miðstöðvar. Þetta eru mjög óskyld verk. Það má kannske segja, að hver laghentur maður geti kastað leiðslum í hús. En ekki verður það gert af vandvirkni, nema menn hafi lært þá iðn. Og það verður ávallt dýrara í framkvæmd, þegar það er ekki gert af mönnum, sem hafa til þess sérþekkingu. Ég vil benda á, að venjulegir húsasmiðir munu leita aðstoðar sérfræðinga um að reikna út og fyrirskipa, hvernig styrktarjárn skuli vera í húsum. Og aðrir sérfræðingar segja fyrir um, hvernig leggja skuli miðstöðvar og vatnsleiðslur í hús. Það er því óviturlegt að ætlast til, að þessir menn verði við þessi verk. Sama er það með trésmíðina. Það er ætlazt til, að þeir læri einnig málningu og veggfóðrun. Það má kannske segja, að hægt sé á skömmum tíma að læra að klístra pappír á vegg, en þó er nú ætlazt til, að menn læri þetta á mörgum árum. En það margborgar sig, að þeir menn, sem fara með málningu, kunni sitt verk. Það er margfalt dýrara og verra, ef menn fúska við þá iðngrein. Þá tel ég óeðlilegt, að þessum mönnum skuli vera gefinn réttur til þess að standa fyrir húsasmíði allt að tveggja hæða og kjallara. Ef menn yfirleitt geta komið húsi upp á 3 hæðir, eins og hér er ætlazt til, þá eru menn líka færir um að koma upp 5 hæðum, og stærri hús eru ekki byggð yfirleitt hér á landi. Ég held, ef samþ. á þetta frv., að þá yrði 7. gr. að breytast mjög mikið. 9. gr. gerir ráð fyrir því, að kennsla fari fram í verkstæðum skólans. Nú er það vitanlegt, að ef kenna á 100 nemendum, eins og gert er ráð fyrir hér, þarf feikna verkstæði til þess að geta haft svo marga nemendur. Slíkt verkstæði kostaði hundruð þúsunda kr. eða á aðra millj., og sakaði það ekki, að gerð væri tilraun til að reikna, hvað það kostaði. Auk þess er viðbúið, að það verði miklum erfiðleikum bundið að hafa nægilegt verkefni fyrir þessa menn, ef skólinn er settur á afskekktan stað í landinu. Þá tel ég það mjög miklum erfiðleikum bundið að láta þessa nemendur ferðast um allar sveitir landsins til þess að bygga hús. Það er vafasamt, hvort þetta er framkvæmanlegt eins og gert er ráð fyrir.

Að lokum vil ég benda á það, sem ég gat um í upphafi. Ég álít miklu eðlilegra, að skólinn sé undir því ráðuneyti, sem hefur með iðnaðarmál að gera í landinu. Nú er það svo, að það er rétt, sem flm. heldur fram, það þarf að bæta úr erfiðleikum, sem steðja að sveitunum um að koma upp byggingum. Spurningin er því sú: Hvernig er hægt að bæta úr þessu á sem fljótastan hátt og svo, að það kosti sem minnst fé? Ég hygg, að þetta verði bezt gert með húsagerðarsamþ. í sveitum og búnaðarsamböndin hafi forustuna og styðji að því, að sem flestir menn geti orðið búhagir, eins og kallað er í sveitum, bæði til þess að aðstoða við óvandaðri verk og ekki sízt til þess á þann hátt að geta fundið út, hvort ekki eru fleiri smíðsefni í sveitunum en menn almennt vita um, ef þeir ekki hafa neinn aðgang að skóla, þar sem þeir hafa getað fengið að æfa og læra smíðanám. Flm. benti á, að slíkur skóli væri að Laugum í Þingeyjarsýslu, með þeim árangri, að í þeirri sýslu séu miklu betri húsakynni en annars staðar. Telur flm. þetta vera strauma frá Laugaskóla, því að þar hefðu menn fengið undirstöðu við að fara með verkfæri. Mér þykir sennilegt, að ýmislegt sé rétt í þessu, þótt aðrir haldi því fram, að þetta standi meira í sambandi við fjárhagsaðstöðu íbúanna. Ég hygg það rétt, að þetta eigi hvort tveggja sinn þátt í þessu. Ég veit um aðra sveit, þar sem menn hafa fengið slíka æfingu frá kynslóð til kynslóðar t. d. í bátasmíðum. Og það er mjög mikils vert að koma upp stofnunum í sveitum, sem leiðbeina í þessum málum. Ég hef rætt um þetta við hv. 1. þm. N.-M., en hann hefur heldur lélegan árangur af þessu tagi við héraðsskóla, þar sem hann þekkir til. En það þarf ekki að vera dauðadómur fyrir hugmyndina. En það vill nú svo til, að í landinu eru aðrar stofnanir, sem gera ráð fyrir að taka að sér þetta atriði, það eru búnaðarskólarnir. Það er gert ráð fyrir því með l. nr. 51 frá 19. maí 1930, að bændaskólarnir starfi í tveim deildum, þar sem önnur kenni handavinnu, og eru teknar fram smíðar, steinsteypugerð, og jafnframt söngur, dráttlist o. fl. En þetta eru að heita sömu námsgreinarnar og gert er ráð fyrir, að kenndar verði í þessum skóla, sem reisa skal samkv. þessu frv. Ég tel eðlilegt, að aukinn verði húsakostur og kennslukraftar við bændaskólana til þess að uppfylla það, sem hér þarf að bæta úr. Og ég vil benda á, að það er nauðsynlegt, að við þessa skóla sé kennt meira um hirðingu landbúnaðarvéla og meðferð. Það er miklum fjármunum kastað á glæ vegna þess, hve menn kunna almennt lítið með þessi áhöld að fara, eins og menn kunnu lítið á sínum tíma að fara með mótorvélar í bátum. Landið sparaði tugi þúsunda kr., ef menn kynnu með þessi áhöld að fara. — N. mælir með því, að horfið verði að því í samráði við Búnaðarfélag Íslands og búnaðarmálastjóra að bæta svo húsakost landbúnaðarskólanna, að þeir eigi hægt með að koma upp vísi að þeirri skólahugmynd, sem hér er farið fram á. Reynslan sýnir þá, hvernig þeir reynast. Það er ódýrara fyrir ríkissjóð að gera þetta en að setja á stofn bákn, eins og hér er gert ráð fyrir. N. leggur til, að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, þar sem skorað er á ríkisstj. að láta gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að tekin verði upp iðnfræðsla við bændaskólana, eins og fyrir er mælt í 1. frá 19. maí 1930, og þar lögð áherzla á að kenna meðferð allra búvéla, viðhald og hirðingu þeirra og að nokkru leyti húsa- og húsgagnagerð, eftir því sem við verður komið. Mér er kunnugt um, að bændaskólinn á Hvanneyri hefur sótt fast á um að fá fé til þess að auka húsakost sinn til þess að koma upp slíkum skóla, en ekki hefur verið talið hægt að mæta þeim óskum. En meiri hl. n. álítur, að fyrst og fremst verði að stuðla að þessu, áður en reist er nýtt bákn, svo illa sem þetta er undirbúið.