25.03.1946
Efri deild: 91. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (5081)

102. mál, iðnskóli í sveitum

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson) :

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. hefur nú í allýtarlegu máli lýst gangi frv. og efni þess, og þarf engu sérstöku að bæta við það. Það, sem ég vildi taka fram hér, er fyrst og fremst út af mismunandi skilningi og skoðun, sem meiri hl. og minni hl. hafa um þetta mál. Öllum hv. dm. er kunnugt, að undanfarið, eða síðan styrjöldin skall á, hefur verið lítið um húsabyggingar í sveitum og í mörgum þorpum og kauptúnum í landinu. Mönnum er kunnugt um, að ástæðan fyrir þessu er, að það hefur verið erfitt að fá byggingarefni og líka það, að þeir menn, sem helzt gátu unnið að þess háttar mannvirkjum hópuðust saman um nokkurt árabil þar, sem herinn var, og stunduðu vinnu sína þar fyrir geipikaup. Það er víst ekki neinn ágreiningur um það, að nú á næstu árum og áratugum þarf að byggja mikið í sveitum landsins, ef fólkið á að vera þar áfram. Það liggja fyrir skýrslur um það, að geysilegur fjöldi íbúðarhúsa manna í sveitum og þorpum eru varla íbúðarhæf, og þarf því að byggja þar bráðlega. Hitt ætla ég, að flestum sé kunnugt, að víða er svo ástatt í sveitum, að ekki er hægt að fá sæmilega lærða iðnaðarmenn til þess að standa fyrir byggingu húsa. Það lítið, sem byggt hefur verið, hefur sumt verið byggt af mönnum, sem engan veginn geta talizt til þess færir. Mönnum er jafnframt kunnugt um það, að fyrirhugaðar eru stórkostlegar byggingarframkvæmdir í Rvík og stærri kaupstöðum nú í næstu framtíð. Það er fjöldi bygginga, sem kosta margar millj., sem gert er ráð fyrir að byggja, áður en langt um líður. Auk þess er vitað, að í stærri kaupstöðum skortir húspláss fyrir fjölda fólks. Það er og vitað, að öll fólksfjölgunin í landinu á sér stað í stærstu kaupstöðunum. Fyrst um sinn verður svo mikið um byggingarframkvæmdir í Rvík og stærri kaupstöðum, að ekki verður betur séð en byggingarframkvæmdir í Rvík og stærri kaupstöðum hljóti að taka til sín meginið eða alla þá menn, sem eru lærðir til þess að reisa hús. Það er útlit fyrir, að ástandið verði eins og það er, og þá vantar þá menn, sem geta reist íbúðarhús. Frv., sem hér liggur fyrir, stingur upp á aðferð til þess að bæta úr þessari iðnaðarmannavöntun í sveitunum. Frsm. meiri hl. sagði eitthvað á þá leið, að grundvallarhugmynd þessa frv. væri að skapa sveitunum lakari iðnaðarmenn, og má vera, að frsm. meiri hl. hafi nokkuð til síns máls um það. En mér finnst, að megi orða þetta á annan veg, sem sé þann að telja, að tilgangur þessa frv. væri til þess að gera tilraun til að mennta iðnaðarmenn fyrir sveitir á styttri tíma en venja er með iðnaðarmenn, nota sem meðal til þess góða kennslukrafta, góðar námsaðstæður. Markmiðið ætti að vera að velja úr þá menn, sem eru frá náttúrunnar hendi smiðsefni, og gera þá færa um að standa fyrir byggingum í sveit. Það má gera ráð fyrir, að þeir verði ekki eins færir og þeir beztu. Hins vegar gæti ég hugsað, að sumir þeirra yrðu vel menntaðir, ef góðir kennslukraftar, góð námsskilyrði og nemendur væru fyrir hendi. Dreg ég af því þá ályktun, að sumir gætu orðið góðir smiðir með sjálfsnámi. Geng ég út frá því, að iðnir nemendur, sem þessi skóli leggur til, yrðu færir um að leysa af hendi önnur verk en þeir sérstaklega lærðu.

Hv. frsm. benti réttilega á það í 7. gr. frv. þessa, að nemendur gætu leyst af hendi ýmsa vinnu utan sinnar sérgreinar, svo sem raflagnir, hitaleiðslur, vatnsleiðslur o. fl. Óneitanlega væri gott, ef einn og sami maður gæti unnið sem flest við byggingar í sveit, því að þungur baggi er að þurfa að fá 10 menn til einnar og sömu byggingar. Ég verð að segja, að ég er ekki fullkomlega fær um að segja, hvernig þessi tilraun tekst, en hana verður að gera. Í þessu sambandi má minna á, að smíðakennsla hefur farið fram við bændaskólana og alþýðu- og héraðsskólana, eins og við gagnfræðaskólana. Um árangur veit ég í sumum skólunum, en í öðrum minna, og þó fer því fjarri, að telja beri gagnslaust að kenna smíðar við þessa skóla. Geri ég ráð fyrir, að verulegur árangur hafi náðst af slíkri kennslu. Hef ég sannfærzt hvað viðvíkur smíðakennslu til þess að byggja hús, að betra væri að hafa hana í einum skóla og hefðu nemendur til byggingar lítil íbúðarhús á hverjum tíma til smíðanna.

Hvað við kemur smíðakennslu bænda, væri hún betur komin í einum skóla, og gera má ráð fyrir, að nemendur fengju þar mikla kennslu. Mundu þá nemendur fá lengri kennslutíma. Á einum stað yrðu betri kennslukraftar og betri áhöld, og nemendurnir yrðu þá færari.

Ég skal ekki vera langorður. Mér finnst votta fyrir tvískinnungi í áliti hv. meiri hluta. Í nál. segir meiri hl.: „Meiri hl. nefndarinnar telur, að stefna beri ótrautt að því, að sveitirnar verði engar hornrekur í byggingariðnaði eða þurfi að verða dæmdar til að nota hálflærða eða lítt lærða menn til byggingar mannvirkja.“ — Ég get verið sammála um þetta. Þeir iðnaðarmenn yrðu annars flokks til að reisa venjulegt íbúðarhús í sveit.

Hins vegar segir í dagskrártill., með leyfi hæstv. forseta: „Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti nú þegar gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að tekin verði upp iðnfræðsla í bændaskólum landsins, svo sem fyrir er mælt í lögum nr. 51 19. maí 1930, um bændaskóla, og verði sérstaklega lögð áherzla á, að hægt sé að kenna þar hirðingu og meðferð búvéla og viðhald þeirra, svo og húsa- og húsgagnasmíði, eftir því sem við verður komið, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“ — Eins og ég er sammála því, sem hv. meiri hl. heldur fram um, að það þurfi að fá menn, sem gætu leyst vel af hendi starf sitt, eins er ég ósammála um þá leið, sem segir í dagskrártill., og tel, að hún mundi ekki nægja. Þeir, sem fengju þá iðnfræðslu, yrðu búhagir aðstoðarmenn. En hvernig á svo að leggja til sæmilega góða iðnaðarmenn?

Það vita allir, að það tókst vel með þá menn, er námu í bændaskólunum, þótt þeir væru með minni æfingu en þeir, sem eiga að vera í þessum skóla. Bændaskólarnir eru 3 missira skólar, með almenn búfræði sem aðalnám. Um að auka þar námið skal ég ekki fjölyrða mikið, en ég geri mér betri vonir um árangur af þessum skóla en þeim skólum. — Hvort skóli þessi gæti lagt til menn, sem hæfir væru til bygginga í sveit, þá er það sitt hvað og orkar tvímælis, hvort skólinn þyrfti að vera svo stór og útskrifa 50 menn á ári. Það má vera, að það veitti ekki af, en það er álítamál, hvort lægri tala gerði ekki meira gagn.

Ég er sammála um það, að kenna verði húsasmíði og húsgagnasmíðin látin bíða, a. m. k. fyrst um sinn.

Ég hef ekki borið fram brtt., hef ekki viljað leggja vinnu í það, fyrr en ég vissi um afdrif frv. Nú, eins og 7. gr. frv. segir, þá má ganga út frá, að þessir menn gætu lagt í að leggja rafleiðslur og vatns- og hitaleiðslur ásamt hreinlætistækjum, málað o. s. frv. — Hvað við kemur 6. gr. frv., þá má geta þess, að fræðsla í stærðfræði mun vera nauðsynleg.

Ef svo færi, að frv. færi í gegnum 2. umr. og kæmist til 3. umr., mun ég bera fram brtt.