25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (5097)

114. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Þetta atriði var rætt sérstaklega í nefndinni. N. var þeirrar skoðunar, að það væri minni ástæða til að gera þetta vegna barnanna, en það gæti samt sem áður verið heppilegt fyrir börnin, meðan þau væru ung, að það væri einnig heimilt að greiða féð út. Um 15 ár gæti verið að ræða, og ef miðað er við 2% árlega rentu, þá mundu fjárhaldsmenn barnanna geta forvaxtað þá peninga betur en ef það væri gert með lífeyrisrentunni. Hins vegar er þetta aðeins heimild, sem forráðamaður barnsins ræður, hvort hann notar eða ekki. Hann sem sagt ræður því, hvort hann vill kaupa lífeyri hjá tryggingastofnun vegna barnsins eða ávaxta peningana á annan hátt. N. þótti rétt að halda sér við þessa tilhögun. Ég sé ekki ástæðu til að taka mál þetta til athugunar aftur í n., þar sem það hefur verið rætt. Legg ég til, að það verði samþ., en hins vegar ræður hv. d., hvort hún gengur inn á að samþ. brtt., sem kynnu að koma fram í sambandi við þetta mál.