25.02.1946
Efri deild: 71. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (5098)

114. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil aðeins benda á það, að samkv. alþýðutryggingal. ber slysatryggingunni að greiða barnabætur, ef um dauðsföll er að ræða, 750 kr. á ári að frádreginni þeirri upphæð, sem barninu fellur til samkv. ákvæðum slysatryggingarlaga þessarar gr., sem hér um ræðir. Ef þessi upphæð er greidd út í einu lagi, þá lækkar lífeyrissjóðsgreiðslan, sem slysatryggingin greiðir tilsvarandi. Sú regla er á höfð, eins og hv. frsm. er kunnugt um, að slysatryggingin hefur tekið að sér að annast um þær lífeyrissjóðsgreiðslur, sem á slysatrygginguna hafa fallið til ekkna samkv. þessari gr. Síðan eru greiddar út 750 kr. á ári til hvers barns. Ég held, að yfirleitt megi telja þetta fyrirkomulag heppilegt, og mér er ekki kunnugt um, að ágreiningur hafi risið út af þessu. Ég held það sé til hins lakara að hverfa frá þessu. Ég vil beina því til hv. frsm., hvort ekki sé rétt að hafa regluna eins og hún er, en þó skuli mega, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, gera undanþágur. Það getur verið, að það muni ekki miklu í framkvæmd. Ég skal játa það, þar sem þetta er aðeins heimild fyrir tryggingarfélagið og bundið samþykki forráðamanna.