21.12.1945
Sameinað þing: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir það, að hann hefur gert grein fyrir afstöðu viðskiptavaldanna í þessu máli. Mér skilst, að það eigi ekki að bæta úr þeim vandkvæðum, sem hér ríkja í þessum efnum, fyrir hátíðarnar, og verður maður þá að hafa það. En ég vil við þetta bæta því, að mér er það alveg óskiljanlegt, ef smjör er fáanlegt ytra, — og það held —ég að megi fá bæði í Ameríku og eins frá Danmörku, þá er mér alveg óskiljanlegt, hvers vegna á að leggja þessa refsingu á Íslendinga og leyfa þeim ekki að borða smjör. Okkur var birt það með mikilli gleði og miklum fögnuði fyrir nokkru, að nú væri búið að kippa mjólkurmálunum alveg í lag. Ekki hefur nú þetta enzt mínu heimili til heilbrigði, en það er staðreynd, sem ég þarf ekki annarra vitneskju um, því að ég hef þar mína eigin, að ég hef ekki getað fengið smjör að neinu ráði til heimilisins nema á svörtum markaði, fyrir 28–30 kr. kg, og þótti mér það þó gott, meðan ég gat fengið það, en nú er það ekki hægt lengur.

Ég vildi segja þetta, þó að ég ætli ekki að fara að deila við hæstv. ráðh., og það vantar greinargerð fyrir því, hvers vegna á að vera að halda fjölskyldum hér í smjörsvelti, ef smjör er fáanlegt frá útlöndum. Það geta ekki talizt gild rök, að þá muni eyðileggjast svartur markaður í landinú, sem ekki er hægt að komast að.

Ég ætla ekki að tefja þennan fundartíma með því að ræða þetta meira, en vildi fá greinargerð fyrir þessu og láta í ljós vanþóknun mína á þessu fyrirkomulagi.