28.02.1946
Efri deild: 74. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (5100)

114. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Út af umr. um III. kafla frv. við 2. umr. málsins hefur n. athugað að nýju 22. gr. m. a. Hefur hún komizt að þeirri niðurstöðu, að heppilegt sé að breyta liðunum a, b og c í I til samræmis við önnur l. En þeim hefur verið breytt. Leggur n. því til, að enn verði gerðar breyt. til viðbótar breyt. á þskj. 439. Þessar nýju brtt. eru á þskj. 483. Hér er eigi um efnisbreyt. að ræða, heldur breyt. til þess að samræma frv. við önnur lög. N. hafði og til athugunar ábendingu frá hv. 3. landsk. varðandi II, hvort ekki væri rétt að breyta málsgr.: „Fyrir tryggingarbætur .... forráðamenn barnanna“. (Um barnatryggingu.) En n. taldi ekki þörf frekari breytingar á þessu en orðin var. Samkv. ákvæði frv. er þannig háttað, að falli aðili frá og barn hans eigi kröfu á bótum, þá ber að spyrja forráðamann barnsins, hvort greiða skuli allt út eða telja megi hagkvæmara að kaupa barnalífeyri hjá viðurkenndum tryggingafélögum. N. gat ekki fallizt á að breyta þessu. Ég vil taka það fram, að hv. 3. landsk. hélt, að þetta mundi snerta bætur, sem eru greiddar frá hinum almennu tryggingum, og stafar till. hans e. t. v. af því. En við álítum, að ekki verði með þessu dregið frá öðrum bótum og af þessum ákvæðum hlotist ekki nein skerðing annarra eftirlauna.

N. leggur því til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hún gerir till. um, en annars óbreytt, svo að hægt sé nú að afgreiða það til hv. Nd.