03.12.1945
Efri deild: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (5108)

127. mál, lögreglustjóri á Dalvík

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli, en get að mestu látið nægja að vísa til grg. frv. Frv. fer fram á það, eins og menn sjá, að skipaður verði lögreglustjóri á Dalvík þegar skipt verður Svarfaðardalshreppi, en sú skipting er ákveðið, að fari fram frá næstu áramótum, þannig að Dalvík verði þá sérstakur hreppur. Það hefur áður komið fram ósk frá íbúum Dalvíkur um að fá skipaðan þarna sérstakan lögreglustjóra, og hefur það mál einu sinni verið flutt hér á Alþ., en náði þá ekki fram að ganga, og var a. m. k. af ýmsum litið svo á þá, að það ætti ekki við að skipa þarna sérstakan lögreglustjóra, meðan Dalvíkurkauptún væri í öðrum hreppi, en ekki sérstakur hreppur út af fyrir sig. En nú er hreppaskiptingin ákveðin um næstu áramót, og er það tilætlunin, að þá verði lögreglustjóri þar jafnframt skipaður.

Þegar svona mál voru borin fram fyrir nokkrum árum, þá var það nú vel séð að vera á móti fjölgun embætta, og þá var það vitanlega alltaf mótbáran gegn slíkum málum sem þessu, að þetta væri nýtt embætti og nýr kostnaður. Að vísu er hér ekki beinlínis um nýtt embætti að ræða, heldur breyt. á embætti. Það mundi að sjálfsögðu verða skipaður hreppstjóri í þeim nýja Dalvíkurhreppi, en hér er ætlazt til, að lögreglustjóri komi í staðinn fyrir hreppstjóra og jafnframt, að hann sé skyldur til að gegna oddvitastörfum, og má þá segja, að hér sé um að ræða að sameina tvö önnur störf í eitt. Vitanlega hef ég enga persónulega löngun til þess, að skipaður verði lögreglustjóri á Dalvík eða öðrum stöðum, heldur er það lífið sjálft, sem á þetta kallar. Það er fólkið, sem um þetta biður. Og það biður um þetta sökum þess, að það er þörf á því, til þess að málum kauptúnsins verði veitt sú forstaða, sem þörf er á. Hreppstjóra og oddvitastörf eru orðin svo umfangsmikil í kauptúnum, sem hafa allmiklar framkvæmdir með höndum, að það er hreint vandamál — og það hefur þegar mjög sýnt sig — að fá menn til þess að gegna þessum störfum í hjáverkum sínum, en um annað er ekki að ræða, ef skipa á einhvern borgara í kauptúninu fyrir hreppstjóra og kannske annan fyrir oddvita. Þessi störf taka svo mikinn tíma fyrir mönnum, að þeir eiga ákaflega bágt með, eftir að hafa tekizt slík störf á hendur, að gegna sínu eiginlega lífsstarfi, og þess vegna hefur þróunin verið sú, að þegar þorp vaxa, einkum þau, sem hafa töluverðar framkvæmdir með höndum, þá hefur fyrst verið skipaður þar lögreglustjóri, til þess að annast framkvæmdir kauptúnsins, og svo gjarnan eftir nokkur ár hafa þessi kauptún, ef þau hafa haldið áfram að vaxa, verið gerð að bæjum. Hvort svo kynni að fara hér, skal ég ekki um segja. En ég get vel meint, að þó að Dalvík verði einhvern tíma gerð að bæ, þá verði kominn tími til þess að skilja bæjarfógetaembættið á Akureyri frá sýslumannsembætti Eyjafjarðarsýslu, því að Akureyrarbær er nú í vexti, og þá gæti vel komið til mála, að bæjarfógeta á Dalvík, þegar að því kæmi, yrði gert að vera sýslumaður Eyjafjarðarsýslu, og mundi hann þá að sjálfsögðu losna við bæjarstjórastarf.

Ég hef sett það ákvæði í frv., að lögreglustjóri á Dalvík tæki laun samkv. launal., því að nú er það ákveðið í launal., hvaða laun lögreglustjórar í kauptúnum skuli hafa, en auk þess skuli hann fá laun fyrir oddvitastörf, eins og aðrir oddvitar. Ég var í nokkrum vafa um þetta atriði, og mér fyndist vel geta komið til mála, að ef hann gegnir oddvitastörfum, sem sjálfsagt er, að hann geri, þá dragist oddvitalaunin frá þeim launum, sem hann fær úr ríkissjóði, og er þetta að sjálfsögðu til athugunar í n. En að ég ekki setti þetta svona í frv., kom til af því, að ég vissi ekki nema það kæmi í bága við launal., sem ákveða, að lögreglustjórar í kauptúnum hafi ákveðin laun án tillits til þess, hvort þeir gegna þar oddvitastörfum eða ekki.

Ég vildi nú, að n. sú, sem fær þetta frv. til meðferðar, hraðaði heldur afgreiðslu þess. Það er nú komið fram í desember og frv. er ætlað að öðlast gildi 1. jan. n. k. Eins vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að ef ekki stendur á áliti frá n., þá dragi hann ekki að taka þetta mál á dagskrá. Náttúrlega væri auðvelt að breyta þessu ákvæði frv. um gildistöku l., ef frv. verður samþ., og hafa hana eitthvað seinna, ef afgreiðsla málsins kynni að dragast og þingið dregst fram yfir áramót.

Þetta mál er ákaflega einfalt, og getur ekki verið, að það þurfi mikillar athugunar við. Menn eru sjálfsagt annaðhvort með því að verða við þessum óskum Dalvíkur eða þeir eru á móti því, og geta þá gengið atkv. um það.

Að lokum ætla ég svo að segja, að þó að ég hafi borið þetta frv. fram, þá álít ég nú, að það þyrfti að koma fastara heildarskipulag á þessi mál. Ég álít, að skipting landsins í sýslur, bæi og hreppa sé orðin að ýmsu leyti úrelt. Það þyrfti að setja ný lagaákvæði um þetta og endurskoða alla þessa skiptingu, og í þeim lagaákvæðum þyrftu að vera ákvæði um stjórnarfyrirkomulag kauptúna, sem hafa vissan íbúafjölda, og það fyrirkomulag ætti að sjálfsögðu að koma til framkvæmda eftir þeim l. eftir vissum reglum, án þess að það þyrfti að bera fram lagafrv. um það í hvert sinn. Þetta ætti að vera auðvelt að láta ganga eftir ákveðnum reglum um það. En ég hafði nú ekki tækifæri til þess að bera fram frv. að neinni heildarlöggjöf um þetta efni, og hef því farið hér sömu leiðina og aðrir hafa gengið á undan mér, og skiptir náttúrlega ekki máli í því efni, þó að þetta frv. verði samþ., því að það ætti ekki að koma á nokkurn hátt í veg fyrir, að slík heildarlöggjöf yrði sett.

Ég legg til, að frv. verði vísað til allshn.umr. lokinni.