12.03.1946
Efri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég býst við, að þetta verði aðeins fá orð, sem ég segi um þetta mál nú, og er það þó ekki fyrir það, að ég sé beinlínis sammála því, sem allir hv. dm., sem töluðu í þessu máli við 2. umr., virtust vera sammála um, að það þyrfti ekkert um málið að tala frekar. Skil ég það ekki vel, að þeir hv. þm., sem ekki höfðu framsögu fyrir n. eða voru á annan hátt sérstaklega við málið riðnir, skyldu þá vera að tala, úr því að þeir töldu, að um málið væri ekkert frekara að segja. Ég álít nú þvert á móti, að það sé ástæða til þess að tala mjög mikið um þetta mál nú, svo mikið, sem nægði til þess að sannfæra þá hv. þm., sem þessu máli fylgja, um það, hvað þeir eru virkilega að gera. Hvað mörg orð þyrfti til þess, skal ég ekki um segja, en vissulega væri þörf á því að segja svo mörg orð sem til þess þyrfti. Ég býst ekki við, að ég geri neina tilraun til þess samt sem áður, ég hef ekki þá mælsku til að bera, sem til þess mundi vera nauðsynleg, heldur voru það orð, sem hér féllu við 2. umr. málsins, sem mig langar til ekki beinlínis að gera aths. við, heldur öllu frekar að biðja um nánari skýringu á. Ekki þarf ég þó að biðja hv. frsm. meiri hl. um neina skýringu á hans ræðu, því að ég tók ekki eftir, að þar kæmi raunverulega neitt annað fram en það, að hann taldi málið sjálft útrætt og það væri ákveðið fyrirfram, að það yrði samþ., og þess vegna væri ekkert um málið að segja. Ekki ætla ég heldur að biðja hv. þm. Barð. um skýringu né að gera aths. við hans ræðu. Hann vildi nú áminna okkur um að temja okkur einhverjar háleitar hugsanir, mig minnir, að hann kallaði þær hnattrænar. Ég vil ráðleggja honum út frá því að byrja siðabótina á sjálfum sér. Ég held, að sumum hafi virzt, að hann stundum hugsi það, sem hann kallar sveitrænt eða héraðsrænt, og svo veit ég ekki, hvort þær hnattrænu hugsanir, sem koma fram hjá honum, að gera ráð fyrir hinum allra lægstu og verstu hvötum hjá andstæðingum sínum, mundu bæta heiminn mikið, þó að honum tækist að drífa sína siðabót svo langt, að hún næði um allan heim, en þetta gerði hann nú að því, er okkur framsóknarmenn snerti, og það er ekki annað en það, sem við eigum að venjast af hendi þessa hv. þm. Þegar hann kom fyrst á þing, var hann að þessu á hverjum degi. Sennilega smádregur úr þessu, eftir því sem hann situr lengur á þingi, ef það verður lengur en til vorsins.

En það voru orð í ræðu hæstv. landbrh., sem ég vildi víkja að, og þætti mér það leitt, ef hann getur ekki hlýtt á þau. Sömuleiðis var það hv. 3. landsk., og það er bezt, að ég byrji á að víkja að hans ræðu, þar sem hæstv. landbrh. er ekki viðstaddur enn, ef ske kynni, að hann kæmi hér í d. síðar. Þeir komu báðir að nokkru leyti inn á sama efni, og get ég ekki svarað hv. þm. nema minnast nokkuð á hæstv. ráðh. um leið.

Hæstv. ráðh. var að gera lítið úr því, að landbrh. væru gefin aukin völd með þeim bráðabirgðal., sem hér er leitað staðfestingar á, og hann hefur fyrr gert þetta, bæði í útvarpsumr., í Nd., og hér í þessari d., en það verð ég að kannast við, að hv. 3. landsk. talaði um þetta atriði málsins af miklu meiri hreinskilni en hæstv. ráðh. Hann viðurkenndi það sem sé, sem ekki er heldur annað hægt, ef rökum er beitt, að allt vald í verðlagsmálum landbúnaðarins væri eftir þessum bráðabirgðal. endanlega í höndum landbrh. Þetta viðurkenndi hv. 3. landsk. hreinskilnislega og drengilega, og fer honum þar betur en flestum stuðningsmönnum þessa máls, sem ég hef heyrt tala um það, en hann taldi bara, að þetta væri ákaflega eðlilegt, að valdið væri þarna yfir þessum málum, meðan ríkissjóður greiddi niður verð þessara vara. Það má þá vænta þess, að hv. þm. snúist á móti löggjöf eins og þessari, ef niðurgreiðslur hætta. En ég álít, að þetta mál sé nú ekki eins einfalt og hv. þm. vill vera láta. Ef þetta væri einhver sérstök gjöf þjóðfélagsins til bænda, þá væri þetta náttúrlega rétt, en ég get alls ekki viðurkennt, að svo sé, og hv. 1. þm. N.-M. færði nú rök að því, og þarf ég ekki að endurtaka neitt af því, sem hann sagði. Hitt er annað mál, að þjóðfélagið skiptir það miklu máli, hvert verð er á landbúnaðarafurðum, meðan nauðsyn þykir ýmist að greiða þær niður ellegar að greiða nokkurn styrk til að kaupa þær, eins og hefur átt sér stað um kjötið. En er það nú endilega víst, að það sé sanngjarnt, þó að þetta sé játað, að bændastéttin sé tekin út úr og gerðar ráðstafanir gagnvart henni, sem ekki eru gerðar gagnvart neinni annarri stétt? Eins og nú stendur, þá neita ég því afdráttarlaust. Orsökin til þess, að bændur þurfa að fá svo hátt verð fyrir vörur sínar, að ekki er annað fært en ýmist að greiða þær niður úr ríkissjóði eða veita neytendum styrk, er sú sama og til þess, að sjávarútvegurinn þarf að fá hærra verð fyrir sína vöru en þeirra markaður lætur í té, og ríkið er nú farið að gera ráðstafanir út af því til að styðja þá. Það er ein og sama orsökin til þess hvors tveggja, sú, að tilkostnaður í landinu við alla framleiðslu er of hár fyrir framleiðsluna, og ekki óverulegt atriði í þessum tilkostnaði við framleiðsluna er kaupgjaldið í landinu, bæði verkamanna og annarra, því, að það er mesti misskilningur, að kaup verkamanna eitt skapi tilkostnað við framleiðsluna, það er kaup ótal annarra starfsmanna, sem raunverulega lifa á framleiðslunni. Þess vegna finnst mér, að ef gengið er inn á þessa hugsun hv. 3. landsk., að það þurfi að svipta heila stétt frelsi og sjálfsákvörðunarrétti um sína eigin vöru og um öll afkomuskilyrði sín, þá hljóti það að vera fleiri stéttir, sem þetta á við, og ekki þá hvað sízt launastéttirnar í landinu. Það kann að vera, að hin miklu afskipti ríkisins, sem nú eru orðin um allt líf manna í landinu, allan atvinnurekstur þeirra og starf, leiði til þess, að ríkisvaldið verði að taka það í sínar hendur að skammta hverri stétt og hverjum þjóðfélagsþegni það, sem talið er, að honum beri. Ef svo er, þá er ekkert við því að segja í raun og veru, ef þetta verður nauðsynlegt, en það á ekki bara að taka eina stétt út úr og beita hana tökum, sem engin önnur stétt er beitt, eins og með þessum l. er gert gagnvart bændastéttinni.

Ég hygg, að allir viðurkenni, bæði verkamenn og aðrir, að verkföll séu þjóðfélagsböl, þegar þau skella á. Við höfum haft verkföll undanfarið. Þó að það væri boðað, þegar núverandi hæstv. ríkisstj. var mynduð, að hún mundi tryggja vinnufrið í landinu, meðan hún sæti, þá hefur verið nóg af verkföllum, og nú var mjög haft á orði, t. d. í síðasta verkfalli, í báðum verkamannablöðunum, hvílíkt böl þetta væri, og ég hygg, að hátt kjötverð og hátt mjólkurverð hafi ekki verið talið meira böl en það. Nú vil ég spyrja hv. þm. og biðja hann að gera grein fyrir því, hvernig á því stendur, að réttmætt er, að setja bændastéttinni l., sem svipta þá algerlega umráðum yfir sínum tekjum, en ef talað er um að setja l. um, hvernig kaupgjald skuli vera, þá eru það þrælalög á hans máli. Annaðhvort er þá hvorugt þrælalög eða hvort tveggja. — Ég man það glögglega frá 2. umr., að bæði hv. 3. landsk. og hæstv. landbrh. voru að mótmæla því, að bændastéttin væri eina stéttin, sem yrði að beygja sig fyrir slíkum ráðstöfunum sem þessum af hálfu ríkisvaldsins. Þeir töldu upp ýmiss konar stéttir. En þetta er bara alls ekki rétt. Það hafa ekki verið gerðar neinar ráðstafanir gagnvart öðrum stéttum, sem hægt er að líkja við það, sem bændastéttin verður að þola. Þeir nefndu iðnaðarmenn. Satt er það, að þar hefur verið sett hámarksverð, en innan þessa ramma er iðnaðarstéttin frjáls, — hún má bara ekki yfirstíga hámarksverðið. Hún er svo frjáls, að hún er búin að loka stéttinni og neytir aðstöðu sinnar til að einoka. Þetta er allt annars eðlis. Smiðurinn er frjáls og má smíða og selja húsgögn eftir samkomulagi við kaupandann. En kunningi minn í sveit er ekki frjáls að selja dilkskrokk. Þarna er mikill mismunur á aðstöðu stéttanna. Nú er á boðstólunum útlent smjör allt að því helmingi ódýrara en íslenzkt smjör. Hvað ætli iðnaðarmenn mundu nú segja, ef leyfður yrði frjáls innflutningur á húsgögnum, en þar yrði munurinn áreiðanlega meiri en á smjörinu? Þeir minntust einnig á verzlunarstéttina. Það væri viðskiptaráð, sem setti ákvæði um útflutning og innflutning. En þetta er allt annars eðlis. Það er ekki sama, hvort um er að ræða framleiðslu mannsins sjálfs eða vörur, sem keyptar eru frá útlöndum og seldar hér með ágóða. Það er ekkert skrýtið, þótt höfð sé hönd í bagga um álagningu þessara vara. Þessar hömlur eru nú þannig, að verzlunarstéttin hefur eins konar einokun í landinu. En vitanlega má hver sem vill hefja búskap í landinu og keppa um sölu landbúnaðarafurða. En það þykir ekki nóg, heldur eru fluttar inn landbúnaðarvörur frá útlöndum. Nú í vetur hefur verið selt hér danskt smjör, og mér er kunnugt um það, að einu samlagi hefur reynzt erfitt að selja smjör sitt. — Nú er hv. 3. landsk. genginn út, og verð ég að segja það, að það er hálfleiðinlegt að ræða við menn, sem hlaupa þannig á dyr. Hið sama gildir um hæstv. ráðh. Þess vegna skal ég aðeins víkja lítillega að því, sem hann sagði hér við 2. umr. Hann vildi mótmæla því, að með frv. þessu væri valdið dregið úr höndum bænda. Hann lagði mikla áherzlu á það og meira að segja tvítók það, að áður hefði landbrh. haft miklu meira vald en nú. Ég ætlaði nú að spyrja hann að, í hverju þetta vald hefði verið fólgið. Hví voru þessi brbl. þá sett? Því má hver trúa sem vill, að lögin hafi verið sett til þess að draga valdið úr höndum ríkisstj. Hins vegar virtist mér gangurinn vera sá, að ríkisstj. sé að reyna að ná sem mestu valdi í sínar hendur. Þetta er líka ekkert undarlegt, — allar ríkisstjórnir vilja hafa sem mest vald. Til þess að ráðh. geti sannað þessi ummæli sín, finnst mér, að hann verði að sanna alveg nýja stærðfræðiformúlu, — sem sé, að 1/5 sé hærri tala en 1 heill. Öðruvísi er þetta ekki mögulegt. Áður skipaði ráðh. 1 fulltrúa af 5, en nú skipar hann alla fulltrúana. Reyndar eru þeir allir bændur, en það skiptir ekki máli í þessu tilfelli. Mér virðist aðeins ein leið koma til mála, sem hann byggir þessa fráleitu kenningu á. Áður voru 2 fulltrúar frá framleiðendum og 2 frá neytendum og oddamaður skipaður af ríkisstjórn. Ráðh. gerði ráð fyrir, að framleiðendur og neytendur færu jafnan sína leiðina hvor, og þá skæri oddamaðurinn úr. Þótt út frá þessu sé nú gengið, þá get ég ekki séð, að vald ráðh. hafi verið meira en það er nú. Hafi ráðh. ráðið öllu áður, þá ræður hann þar öllu enn. En nú er engan veginn víst, að framleiðendur og neytendur greini á, og um það eru til dæmi deginum ljósari. Um 6 manna nefndar verðið, þar sem framleiðendur og neytendur sömdu, varð samkomulag, og þótt 7. maður hefði verið skipaður af ráðh., hefði niðurstaðan samt verið samþ. með 6:1. Það er allt annað mál fyrir bændur að hafa þó talsmenn innan þeirrar stofnunar, sem ákveður verð á vörum þeirra, — en ég segi, að bændur sem slíkir hafa engan fulltrúa í búnaðarráði. Afstaða meðlima búnaðarráðs er hin sama og konungkjörnu þingmannanna hér áður fyrr. Þjóðin kallaði þá aldrei sína fulltrúa, þótt þeir væru Íslendingar. Þeir fylgdu líka nálega aldrei málstað þjóðarinnar, og ef það kom fyrir, þá voru þeir settir frá. — Ég skil ekki í öðru, og ég vil vona, að hv. 3. landsk. og flokksbróðir hans hér í hv. deild sjái sig um hönd og greiði atkv. á móti frv. Kunnugt er, að hæstv. forseti Nd. og flokksbróðir 3. landsk. lítur í raun og veru eins og ég og við framsóknarmenn á málið, þótt hann sæi sér ekki fært að greiða atkv. gegn því vegna stuðnings síns við ríkisstj. M. ö. o., hann gat ekki vegna stefnu og fortíðar Alþfl. ljáð þessu máli lið, og 3 landsk. getur það ekki heldur, nema loka alveg fyrir alla þá glugga, sem hans sósíal-demokratiska birta hefur skinið inn um til þessa. Hvað þeir kunna að gera, vil ég ekki segja, en ef frv. þetta gengur í gegn, eins og líkur benda til, þá mega þeir vita það, að ef sá tími kæmi, að sett yrði svipuð löggjöf gagnvart þeirri stétt, sem þeir telja sig hafa umboð fyrir, þá munu þeir standa verr að vígi en ef þeir fylgdu nú réttu máli. Ætla þeir að láta ríkisstj, handjárna sig til að fremja óhæfuverk? Við atkvgr. um daginn greiddi einn sjálfstæðismaður atkv. á móti frv., og ef þeir 2 Alþfl.menn, sem eru hér í hv. deild, væru stefnu sinni trúir, mundi það nægja til að koma málinu fyrir kattarnef. Sama mætti e. t. v. segja um sósíalista, en þar sem það er alkunna, að þeir eru tækisfærissinnar, og geta vel sagt, að svart sé hvítt, ef þeir ætla sig græða á því, þá er ekki neins að vænta af þeim. Þess vegna sný ég máli mínu til hv. 3. landsk. og flokksbróður hans hér í hv. deild.