12.03.1946
Efri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Bernharð Stefánsson:

Ég get að mestu látið nægja að vísa til þess, sem hv. þm. Str. sagði um þetta mál. En ég get þó ekki látið hjá líða að lýsa vonbrigðum mínum yfir ræðu hv. 3. landsk. þm., en þó get ég verið honum þakklátur fyrir, að hann hefur með ræðu sinni skýrt málið og slegið vopnin úr höndum þeirra, sem vilja breiða yfir aðalatriði málsins. Hann játaði það, að í rauninni væri allt vald í höndum ráðh., en það er gagnstætt því, sem þm. Sjálfstfl. hafa reynt að halda fram. Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem hann sagði, því að hann rakti það nægilega, en skal til viðbótar því, sem hann sagði, minna hv. 3. landsk. á, hvenær aðalhækkun landbúnaðarvara átti sér stað, og það var samkv. ákvörðun 6 manna n., og verðlagið, sem þá var ákveðið, var beinlínis miðað við kaupgjald í landinu, miðað við það, að bændur bæru sama úr býtum fyrir vinnu sína og aðrar vinnandi stéttir landsins. Já, — hann lýsti yfir því, að hann yrði nú með þessu frv. Það hryggir mig, og ég skildi hann svo, að Alþfl. yrði heill og óskiptur með því. Það kann að vera svo að því er þingmenn flokksins snertir, að enginn greiði atkv. gegn þessu máli, en öllum er kunn afstaða forseta Nd., að hann a. m. k. styður það ekki, en það hefur nú ýmislegt komið fram um það, að hv. þm. hafi ekki mikið fylgi flokksbræðra sinna úti um land til þess að samþ., slíkt frv. sem þetta. Það hafa ýmsir lesið flokksblað hans á Ísafirði, Skutul. Mig minnir, að þessi þm. væri einu sinni ritstjóri þessa blaðs, og ég sé, að það fylgir alveg eins hreinni sósíal-demókratiskri stefnu nú eins og það gerði þá. Í því blaði hefur hvað eftir annað verið vikið að því, að þetta væru kúgunarlög, sem ekki næði nokkurri átt, að sett væru um eina stétt þjóðfélagsins, og ég veit, að svo er víða um flokksbræður þessa hv. þm., að þeir algerlega fordæma það, að flokksbræður þeirra á þingi skuli vera með í slíku. Og það eru fleiri en Alþfl.menn, sem líta þannig á þetta mál. Maður heyrir það á mörgum kjósendum Sjálfstfl. úti um land, að þeir líta eins á þetta. Mér er minnisstætt, þegar stuðningsblað ríkisstj., Íslendingur, blað Sjálfstfl. á Akureyri, skýrði frá þessum lögum og sagði, að ekki yrði því neitað, að l. væru anzi einræðiskennd og gætu orðið hættuleg í höndum sumra manna. En blaðið huggar sig aðeins við það, að svo ágætur maður sem Pétur Magnússon skipaði sæti landbrh., það var frá blaðsins sjónarmiði eini ljósi punkturinn í þessu. En nú er það bara einu sinni svo, að núverandi landbrh., hversu ágætur maður sem hann kann að vera, er dauðlegur eins og aðrir menn og ráðherrastaðan einnig af öðrum ástæðum völt, svo þó að þessi svör væru tekin gild, mundu þau ná skammt. Nei — frjálslyndir menn í landinu fordæma þessa lagasmíð. Út af því, sem ég minntist á hans afstöðu til gerðardómslaganna og spurningu minni um það, hvaða rök væru fyrir því, að það hefðu verið þrælalög, en þetta ekki þrælalög, þá svaraði hann því, að þetta væri ólíkt, um kaupgjaldið sömdu tveir aðilar, vinnuveitendur og vinnuþiggjendur, og þess vegna væri eðlilegt, að þeir semdu um þau atriði, sem kaupið varðaði, en það var svo að heyra, að verðlag landbúnaðarvara væri ákveðið af einum aðila. Ég hélt, að erfitt væri að selja landbúnaðarafurðir, ef enginn keypti þær. Mér skilst, að það hljóti að vera tveir aðilar, sem þetta mál varðar, og það var nú gamla fyrirkomulagið, sem var haft í þessu máli, sem líkja má við sáttanefnd, þar sem atvinnurekendur og verkamenn semja með þátttöku sáttasemjara ríkisins. Þm. var með í því að koma því fyrirkomulagi á, en nú telur hann, að það hafi verið óheppilegt, en einn vilji ráðh. sé það eina rétta. Hv. þm. Str. vék að þessu ástandi, sem þetta mundi skapa, en hæstv. ráðh. og hv. 3. landsk. hafa haft hér á orði, að þetta væri sjálfsagt á meðan greiðslur færu fram úr ríkissjóði til þess að lækka verð landbúnaðarvara. Ég vil halda því fram, eins og hv. þm. Str. og þm. S.-Þ. óbeinlínis, að þessar greiðslur eru raunverulega hluti af kaupgjaldi launþega í landinu og annað ekki, þær eru það, og hafa verið færð rök að því.

Ég skildi ekki vel ræðu hv. þm. S. Þ. og skal því ekki fara út í hana. Mér skildist á honum, að bændastéttina vantaði samtök og þess vegna væri komið sem komið væri um það, að þetta er eina stétt þjóðfélagsins, sem á að kúga á þennan hátt, eins og stefnt er að í þessu frumvarpi. Ég hef orðið þess var undanfarið, að verið er og að nokkru leyti búið að stofna stéttarfélag bænda, sem ætlað er sérstaklega að fjalla um þetta mál, fyrir utan það, sem bændur eiga nú stéttarfélag, sem orðið er mjög gamalt, en aðallega hefur fengizt við önnur mál landbúnaðarins. Hvort þeir, sem gengust fyrir þessari stofnun bænda, hafa ekki kunnað neitt til þessa, það skal ég ekkert um segja, en ekki veit ég, hvort hann er hæstaréttardómari í þessu efni. Gæti sennilega hv. þm. Dal. sagt betur um þetta en ég, því að hann hefur verið meira við þetta riðinn. En ég ætla bara að vona, úr því að hv. þm. S.-Þ. telur svona mikla nauðsyn — sem ég er honum alveg sammála um — að efla stéttarfélag bænda, að hann gerist á allan hátt stuðningsmaður þess, að slík samtök komist á og verði öflug, og vinni þar ekki annað en það, sem til sameiningar má verða og þrifa þeim samtökum.