13.03.1946
Efri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Áður en ég kem beint að málinu sjálfu, vil ég leyfa mér að gera aths. við ummæli, er féllu persónulega í minn garð við fyrri umr. í þessu máli.

Hv. 1. þm. N.-M. lét þau ummæli falla samkv. þingriturum, að ég hefði haldið því fram, að Framsfl. ynni hatursfullt starf til niðurrifs í landbúnaðinum, og hefði hann haldið þau ummæli mín ósambærileg við samstarf mitt við þennan flokk. En slík orð hef ég aldrei látið falla, en vildi þó ekki segja neitt fyrr en ég hefði öll plögg í höndunum um þetta mál, og vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp það, sem þingritari hefur fært inn um þetta atriði. „Allur þessi úlfaþytur Framsóknar er aðeins til þess að rægja stjórnina, en það mega framsóknarmenn vita, að með þessu eru þeir að grafa sjálfum sér gröf. Það er því ekki annað en hatursfull öfundsýki Framsóknar, er ræður gerðum þeirra, af því að þeir fengu ekki að vera með í ríkisstjórninni.“

Þetta eru nokkuð önnur ummæli en hv. 1. þm. N.-M. segir, að ég hafi haft við, og getur hann þá deilt um það við þingritarann, hvor hafi réttara mál, hann sjálfur eða þingritarinn.

Viðvíkjandi þeim ummælum hv. 1. þm. Eyf., að ég hefði hafið þingmennsku mína með því að svívirða Framsfl. einu sinni á dag, en gerði það nú aðeins einu sinni á viku, vildi ég segja það, að þetta er vitleysa, en hins vegar tóku framsóknarmenn þannig á móti mér, er ég lenti fyrst í kappræðu við þá hér á hv. Alþ., að hrækja til mín yfir deildina. Ég vildi sem sagt aðeins leiðrétta þessar fullyrðingar hv. 1. þm. Eyf.

Ég vil þá snúa mér að málinu sjálfu. Margt nýtt kom hér fram í gær í umr. Það er bersýnilegt, að þeir, sem eru á móti frv., halda því ranglega fram, að hér sé verið að skipa bændastéttinni annan sess í þjóðfélaginu en öðrum. Í l. nr. 1 1943 er sagt, hvernig skipað skuli í viðskiptaráð. Þar er sagt, að ekki megi skipa fulltrúa neinna ákveðinna stétta, en í búnaðarráð eru hins vegar eingöngu skipaðir þeir menn, sem eiga hagsmuna að gæta. Hvernig leyfa menn sér svo að halda því fram, að freklega sé hér gengið á rétt bænda? Í húsaleigunefnd fá húseigendur ekki einn einasta fulltrúa. Mér finnst þetta nóg til þess að sanna, að hér er ekki skertur meira réttur bænda en annarra stétta þjóðfélagsins. Öðru nær. Hér er einmitt hlúð að rétti þeirra, undir þessum kringumstæðum, þegar ákveða þarf verðlag í landinu. Sama er að segja um iðnaðinn. Húsgagnaiðnaðurinn er t. d. undir ströngu eftirliti, og þar er keðjuverzlun bönnuð. Og þessir menn eiga engan fulltrúa í þeirri nefnd, sem ákveður verð á vörum þeirra. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að menn fengju fríðindi við að loka stéttinni. Ég veit ekki um þetta, en ég hef fengið þær upplýsingar hjá iðnn. eftir hæstv. samgmrh., sem með þau mál hefur að gera, að ekki minna en 1/5 af þjóðinni færi í iðnaðarmannastéttina, og ég hygg, að til engrar stéttar sé jafnmikið aðstreymi.

Það kom mjög fram við umr. hér í gær, að bændum væri bannað að hafa sama rétt og verkamenn hafa. Ég taldi ekki heppilegt, að farið væri hér inn á sömu braut og í verklýðsmálunum, þar sem stöðugar deilur eru milli vinnuveitenda og vinnuþiggjenda. Það virðist aðalstefna andstöðumanna frv., að bændur standi í sama rétti, en jafnframt sömu áhættu og verkamenn. Þessi l. banna bændum alls ekki að selja sína vöru. En enginn verkamaður getur gert verkfall, án þess að hætta á að missa vinnu sína. En hvort sem hv. þm. Str. getur hætt að láta lömbin vaxa og kýrnar að mjólka, meðan á þessu stæði, þá er það allt annað mál. En þeir vilja draga bændur inn í þessar deilur. Þeir vilja láta Búnaðarfélag Íslands hafa með þessi mál að gera og gera það að verklýðssambandi á borð við Alþýðusambandið og Dagsbrún. En það ætti fyrst að athuga stjórnina á þessu fyrirtæki. Ég vil minna á það, að hér um bil 700 þús. kr. eru veittar til Búnaðarfélags Íslands úr ríkissjóði. Ég skil ekki, að lengi verði hægt að halda því fram, að það eitt stéttarfélaga eigi að fá svona styrk úr ríkissjóði, ef gera á það að stéttarfélagi. Aðrar stofnanir mundu koma á eftir. Ætti þá ekki að veita Alþýðusambandinu og Landssambandi útvegsmanna slíka styrki?

Á launalista Búnaðarfélagsins eru kr. 275,725, 00. Þar af hefur búnaðarmálastjóri um 30000 kr. En svo fékk fjvn. þær upplýsingar að gefnu tilefni, að nauðsynlegt væri, að þessi sami maður hefði full laun í nýbyggingarráði. En er þá hægt að láta þann mann vera forstöðumann Búnaðarfélagsins? Eða á hann að hafa tvöföld laun? Annað dæmi: Pálmi Einarsson hefur 26000 kr. hjá Búnaðarfél. og hefur unnið mikið fyrir ríkið og verður að starfa við ýmislegt annað. Svo fær Páll Zóphóníasson líka 26000 kr. í Búnaðarfél. Íslands, en hann mætir hér á Alþ. og vinnur einnig hjá ríkisskattanefnd og fær þar sín laun, og er það mikið starf, sem hann hefur þar. Halldór Pálsson er bæði hjá Búnaðarfél. Íslands og Atvinnudeild háskólans. Hann er á fullum launum hjá báðum stofnununum, en óhugsandi er, að hann geti látið þeim báðum fulla starfskrafta sína í té.

Ég hygg, að þessi dæmi nægi til þess að sýna stjórnina á þessu félagi, en hún er með þeim endemum, að tími er til kominn að endurskoða starfsemi þess, og ætti sömuleiðis að athuga, hvort þetta er orðin pólitísk stofnun. Mér er sagt, t. d., að það hafi verið svo undanfarið, þangað til á síðasta kjörtímabili, að það hafi staðið til, að búnaðarmálastjóri hafi farið til framboðs í Skagafirði — ekki af því, að þar vantaði frambjóðanda fyrir Framsfl., heldur til þess að stjaka þar manni frá, sem er ekki eins þægur. Og ef Framsfl. getur þannig ráðið yfir mönnum, sem hann á sínum tíma hefur veitt embætti, sem þá var krafa bændanna í þessu tilfelli, að viðkomandi maður mætti ekki koma nærri pólitísku starfi, ef hann ætti að fá þetta starf — þá var það rétt á litið hjá Barðstrendingum, að Steingrímur Steinþórsson ætti ekki að eiga sæti á Alþ. Og þeir, sem starfa í þessari stofnun fyrir bændur, eiga að beita kröftum sínum sem bezt við sín störf þar, sem þeir eru ráðnir til, heldur en að vera við önnur störf. — Ég álít því mjög heppilegt, ef hægt væri að gera því miklu betri skil en gert hefur verið hingað til að skipuleggja Búnaðarfélag Íslands, til þess að á vegum þess geti farið fram sú vísindastarfsemi fyrir bændastéttina, sem upphaflega var ætlazt til, en að því sé haldið frá allri pólitík. Því að til starfsemi þess er greitt úr ríkissjóði, sem á ekki að vera neinum pólitískum flokki tiÍ framdráttar.

Hv. þm. Str. sagði, að bændur hefðu aldrei beðið um verðuppbætur. Þetta er ekki rétt. Hv. þm. hlýtur að minnast þess, að þær eru til komnar fyrst vegna þess, að enska ríkisstj. greiddi hingað 5 millj. kr. á sínum tíma til þess að bæta upp markaðstöp vegna hernámsins. Langmestur hluti þessara 5 millj. kr. fór að sjálfsögðu til bænda, vegna þess að þeir höfðu tapað mestum mörkuðum við hernámið. Og það var sannarlega sótt af fulltrúum bænda þá að fá þennan hluta af því fé, enda áttu þeir þetta fullkomlega skilið. Og það var síður en svo, að þeir neituðu að taka á móti því. Hins vegar neituðu brezku yfirvöldin að halda áfram þessari greiðslu síðar, vegna þess að aðrir atvinnuvegir í landinu græddu meira á hernáminu en landbúnaðurinn tapaði. Og þeir álitu þá, að íslenzka ríkisstj. ætti að jafna þessi met í þjóðfélaginu. Nú vil ég minna á það, að árið 1942 var á Alþ. samþ. þáltill. um að láta 25 millj. kr. til landbúnaðarins. Það var fyrir tilmæli bændafulltrúanna, en var sannarlega ekki verið að þrengja þessu upp á bændastéttina. Og þetta var einnig gert af réttlátri fjárhagslegri þörf, samkv. sex manna nefndar álitinu. — Það má segja, að það kerfi, sem einnig lét hækkandi laun ganga inn í vísitöluna, jafnframt því, sem bændum var tryggt visst verð fyrir afurðir sínar, hafi verið vanhugsað. En svona er það.

Hv. 1. þm. Eyf. hélt því fram, að þessir menn væru ekki fulltrúar bænda, sem fara með landbúnaðarafurðaverðlagninguna, heldur skipaðir af ríkisstj. og gætu ekki skoðazt nema eins og konungkjörnir þm. voru skoðaðir á sínum tíma. Þeir væru fulltrúar ríkisstj., en ekki fulltrúar bændanna. Ég vildi spyrja þennan hv. þm. um það, hvort þetta beri svo að skilja, að meðan framsóknarmenn sátu í ríkisstjórn og réðu lögum og lofum í landinu, að hvenær sem veitt var þá embætti einhverjum manni, þá hafi það verið veitt með þessum forsendum. En varla verða orð hv. 1. þm. Eyf. skilin öðruvísi en svo, að þeir embættismenn hafi átt fyrst og fremst að gæta hagsmuna framsóknarmanna. Enda kemur það skýrt fram hjá þessum hv. þm., að hann ætlast til þess, að þegar einhver maður hefur fengið einhverja stöðu fyrir tilstilli einhvers ráðh., þá sé sá embættismaður fyrst og fremst fulltrúi þess manns, sem er ráðh., bæði á pólitísku sviði og hagsmunasviði. En það er bara allt annar skilningur en við hinir höfum lagt í þessi mál.

Hv. þm. S.-Þ. talaði um, að launal. væru sett fyrir áhrif stéttarfélaganna, sem hefðu knúið þau fram. Nú vil ég benda honum á, að þetta Stéttarfélag, sem hann vísaði til, er miklu óánægðara með afgreiðslu launal. en bændur eru almennt með verðlagið á landbúnaðarafurðum, og að launal. sjálf gefa engan rétt til þess að hefja verkfall, eins og þó mátti heyra á ræðu hv. þm. S.-Þ., að hann gerði ráð fyrir. Það var að vísu sótt fast af þessum stéttarfélögum að fá kjarabætur, eins og það hefur verið sótt fast af öllum stéttarfélögum. En enginn réttur var því skapaður til þess að gera verkföll, eins og mér skildist, að hv. þm. Eyf. vildi láta veita bændunum í sambandi við verðlagningu afurða þeirra. Ég held, að ef hv. þm. Framsfl. vilja gera bændunum vel til, þá sé það hið fyrsta, sem ætti að gera, að halda þeim fyrir utan verkfallsdeilurnar, hér eftir sem hingað til. Ég hygg, að engri stétt sé gefið eins mikið vald og þeim með verðlagningarlögunum, og það svo, að mig undrar, að aðrar stéttir, sem verða að lúta mjög þungbærum fyrirmælum snertandi þeirra atvinnu, skuli bókstaflega þola þau ákvæði, eftir að búið er að gefa einni stétt svo ríkuleg réttindi eins og gert er með þessum l. Og hef ég þar sérstaklega í huga húseigendur hér í bæ, sem verða að sæta þungbærum lagaákvæðum. Eftir að bændum eru veitt þessi réttindi, sé ég ekki, að húseigendur geti fellt sig við það að fá ekki einn fulltrúa til þess að fjalla um sín mál, þegar önnur stétt í landinu fær alla fulltrúana úr sínum hópi til þess að fjalla um sín mál.