21.12.1945
Sameinað þing: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Ég veit ekki, hvaðan hv. 7. þm. Reykv. hefur þær upplýsingar, að fá megi nóg smjör til landsins. Ríkisstj. tókst ekki í haust að fá meira magn af útlendu smjöri en 150 tonn, og það er ekki mikið fram yfir það, ef nokkuð er, sem nauðsynlegt verður að skammta nú eftir áramótin. Hv. þm. hlýtur að skilja, að úr því að það ráð er tekið upp að skammta smjörið, verður ríkisstjórnin eða viðskiptamálaráðuneytið að reyna að sjá fyrir því, að nægilegt magn sé til, áður en farið er að selja það á svörtum markaði. Getur verið, að mætti fá smjör frá Ameríku, en það hefur nú stundum heyrzt kveða við þann tón, að það væri óvarlega farið með þær innstæður; sem eftir eru, og ég vil ekki stuðla að því, að farið verði að eyða þeim til þess að flytja smjör frá Ameríku. Ég held, að það sé engin ástæða til að vera að þessu.