13.03.1946
Efri deild: 83. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Jónas Jónsson:

Ég vildi gera örfáar aths. við ræður, sem hér hafa haldnar verið. Sný ég mér þá fyrst að hv. 3. landsk.

Hann sagði í sambandi við hækkunina til sjómanna, að ég hefði látið ógætileg orð falla í garð stéttarinnar. Þess er að gæta, að stjórnarflokkarnir hafa farið að deila um aðra hluti, en haldið því máli, sem hér um ræðir, vandlega leyndu. Þeir fóru að tala um þetta að fyrra bragði. — En ég vildi spyrja þennan hv. þm., hvernig Norðmenn fóru að. Norsku sjómennirnir fóru ferða sinna fyrsta stríðsveturinn. Þá var það tekið til bragðs að hækka tryggingarnar, en ekki kaupið. Á hinn bóginn hjá okkur var það yfirsjón hjá hæstv. ríkisstj., stuðningsmönnum hennar og sjómönnunum, að eigi var að því gætt, að verið var að setja allt þjóðfélagið í hættu, um leið og þessi hækkun var gerð. Það verða svo mörg útlend skip að sigla fyrir okkur. Og t. d. þegar Eimskip fær hin nýju skip sín, verður það .að fá erlenda menn á þau. Eimskip hefur fengið allan sinn gróða af leiguskipunum, af vinnu erlendra manna, en tapað á eigin skipum. Þannig hefur það verið : Ævinlega tap á rekstri innlenda flotans, en græðzt hefur á þeim útlenda. — En um áhættu sjómannanna er það að segja, að hún var að sjálfsögðu engu meiri en hætta okkar hv. 3. landsk. og annarra Reykjavíkurbúa, sem búum á milli flugvallarins og hafnarinnar. — Að því, er varðar aðdróttanir manna í minn garð, þá er því að svara, að ég hef með ráðnum hug talað háðulega um kauphækkun sjómanna, af því að ég álít, að tryggja hefði átt sjómenn, en ekki hækka kaup þeirra. Þessi hækkun var gerð af léttúð, en ekki þannig, að tryggt gæti hag eftirkomendanna.

Merkur, brezkur maðar sagði við mig fyrir nokkru, að Íslendingar yrðu búnir að eyða öllum fjármunum sínum eftir 1½ ár. Og í gær sagði mér fjármálamaður hér heima, að nú væri búið að festa allan stríðsgróðann. — Við erum orðnir undur veraldar fyrir að sóa peningum okkar fyrir sáralítið. — Þegar ég lít yfir þennan fríða hóp, held ég að enginn hér inni, nema e. t. v. einn, hafi átt meiri þátt í því en ég að standa með sjómönnum árið 1916, er þeir hófu hið fyrsta átak sitt til að standa gegn arðráni, og veita þeim svefnvernd. Ég tek því glaðlega við öllum glósum. Mun ég ekki hafa sýnt öllu meiri sviksemi við sjómenn en aðrir menn hér inni. —Margir hafa bara setzt að ætinu, þegar búið var að draga til búsins.

Þá gaf hv. 1. þm. Eyf. mér það heilræði, að ég ætti að gæta þess, ef ég hefði einhverja reynslu í verklýðsmálum, að valda eigi klofningu í stéttarsamtökum bænda.

Hér í bænum hafði verið verklýðsfélagsskapur að byrja 1916. Við Ólafur Friðriksson settum kraft í félagið, og fór það úr því að hafa áhrif. Það verður hvorki af skafið né hrakið. Og ég ætla bara að segja hv. 1. þm. Eyf. það, þótt einhverjir kjánar úr verklýðsfélagsskapnum segi mig farið hafa rangt að, að þá held ég mínu striki. Þannig er það eins hér. Er ég skyldugur til að leiða bændur út í einhvern voða?

Ég beini ekki neinum orðum að hv. þm. Str. hér, því að hann er eigi viðstaddur.

Þessu næst mun ég víkja orðum að hreyfingu hinna tvennu fjórtán um að unna bændastéttinni sannmælis. Menn hafa komið svo fram, að þeir misstu nokkuð af stuðningnum, því að þeir kunnu ekki að halda á spilunum. Svo hefur verið búið að mönnum, að þeir fóru yfir til kommúnista. En þeir, sem brugðust, hafa farið yfir til bændanna og vinna nú gagn þeirri stétt. — Ráðleysi, vesöld og aumingjaskapur hafa hér ekki riðið við einteyming.

Hvað hefur svo gerzt síðan? — Búnaðarfélag Íslands, sem aðili fyrir hönd bænda, gaf eftir árið 1944 um 8 millj. kr. Þetta var gert eftir bendingu og beiðni þeirra manna, sem nú stjórna Framsfl., ekki sérstaklega hv. 1. þm. Eyf., en þeirra, sem hann stendur í sambandi við. Og hvað fengu bændur fyrir? Ekkert nema spott og spé. Þeir treystu sínum mönnum og héldu, að þeir kynnu að halda á spilunum. En þeir kunnu það ekki. Niðurstaðan varð sú, að bændur gáfu eftir sinn rétt. Og meira að segja sumir af þessum vel þekktu mönnum, sem tekið höfðu þátt í þeim leik, skrifuðu undir skjal, þar sem gefin var yfirlýsing um það, að sex manna nefndar sáttmálinn væri tóm vitleysa og hefði aldrei verið neitt annað. Svo að það er ekki aðeins það, að kastað hafi veríð burt peningum fyrir hönd bænda, heldur hefur grundvellinum undir verðlagningu afurða þeirra verið fleygt burt. — Svo er farið að tala um sex manna nefndar grundvöllinn aftur, eftir að búið er að gefa hann upp(!). Svo átti að stofna bændasamtök. En hvað hefur gerzt? Það hefði verið hægt í haust að stofna ærleg bændasamtök, og bændur hefðu gert það, ef ekki hefðu komið í spilíð pólitískir spekúlantar, sem eiga eftir að fá sinn dóm. Hv. 1. þm. Eyf. skal vita, að það mál er ekki útkljáð. Það skal verða rakið, svo að það fái maklegan dóm. Mér dettur ekki í hug annað — ef bændastéttin hefði fylgt svipuðum aðferðum og aðrar stéttir í landinu — heldur en að þá hefði landbrh. samið við þá. Og það, sem verst er í þessu, er það, að þeir, sem fyrir bænda hönd eiga að koma fram í Búnaðarfélagi Íslands, eru menn úr tveimur stjórnmálaflokkum, sem ekki geta samið um málin, vegna þess að þeir eiga í stríði og erjum innbyrðis. Það er versti stríðsundirbúningur að espa til mótstöðu, og það hefur í þessu tilfelli skapað réttmæta fyrirlitningu. Og eins og ríkisstj. vissi, að þessi samkoma bænda var hér í sumar mjög lítilfjörleg, þá var þessum mönnum, sem þar voru, gefin bending um, að þeir skyldu tala við kommúnista. Búnaðarfélag Íslands hleypur þá upp til handa og fóta, og þetta er gert. En kommúnistarnir segja bara: Við tölum ekki við ykkur um afurðaverðið, en víð skulum tala um, hvernig þið eigið að búa. Það er ekki hægt að áfellast neinn mann, þó að hann leiki með menn, sem eru svona vesalir. Og það var líka gert.