27.02.1946
Sameinað þing: 29. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í D-deild Alþingistíðinda. (5248)

173. mál, rafveita Norðurlands

Flm. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 438, er um rafveitu Norðurlands, flutt af níu þm. Í þáltill. er í fyrsta lagi lagt til, að ríkisstj. verði falið að láta hraða áætlunum um virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, er miðast við það að fullnægja raforkuþörf Norðurlands, og að fullnaðaráætlanir verði tilbúnar áður en næsta Alþ. kemur saman og þá lagðar fyrir í byrjun þess. Við þetta vatnsfall er nú rafstöð sem Akureyrarbær reisti þar fyrir nokkrum árum. En hún mun nú senn ófullnægjandi fyrir þá rafmagnsnotendur, sem fá rafmagn þaðan, og vitanlega eru svo fleiri, sem þurfa á raforku að halda, sem mun verða heppilegt að taka einmitt frá virkjun við Laxá. Það er talið, að auðvelt sé að auka mjög virkjun við Laxá á þessum stað, þar sem rafstöðin nú er. En auk þess mun vera unnt að byggja rafstöð ofar við ána og fá þar mikið afl. — Hér er lagt til, að þeim áætlunum um virkjun, sem þegar er byrjað á, verði hraðað, eins og ég áður gat um, þannig að fullnaðaráætlanir um byggingu stórrar rafstöðvar við Laxá liggi fyrir í byrjun næsta þings.

Þá er hér í öðru lagi lagt til í þessari þáltill., að ríkisstj. verði falið að afla nú á þessu ári tilboða í efni í háspennulínur frá orkuveri við Laxá norður um Norður-Þingeyjarsýslu allt til Raufarhafnar og vestur um Norðurland, um Þingeyjar-, Eyjafjarðar-, Skagafjarðar- og Húnavatnssýslur, og einnig að afla tilboða í efni í aðalspennistöðvar í þessum héruðum. Er til þess ætlazt, að þessara tilboða — verði leitað svo tímanlega, að þau geti legið fyrir þegar næsta Alþ. kemur saman: Þetta ætti að vera auðvelt að gera nú þegar, þó að ekki sé lokið fullnaðaráætlun um virkjunina. Í þessar línur og spennistöðvar ætti að vera hægt að leita tilboða þrátt fyrir það, og vil ég í því sambandi, ef þetta verður samþ., vænta þess, að reynt verði að fá tilboð um sölu á þessu efni sem víðast að frá þeim löndum, sem til greina geta komið, til þess að tryggt sé, að hægt sé að fá þetta efni, þegar ráðizt verður í kaup á því, með svo góðum kjörum sem kostur er á.

Svo sem kunnugt er, liggur fyrir þessu þingi frv. til raforkulaga, og ég geri ráð fyrir því, að það verði að 1. áður en þessu þingi lýkur. Í því frv. er einmitt gert ráð fyrir því, að ríkið komi upp stórum rafstöðvum og aðalleiðslum frá þessum stóru rafstöðvum um byggðir landsins, en síðan taki við héraðarafveitur, annaðhvort reknar af héruðum eða ríkinu. Þetta, sem hér er lagt til í þessari þáltill., að undirbúin verði stórvirkjun og að undirbúin verði kaup á efni í háspennulínur og aðalspennistöðvar í nokkrum héruðum, er því í fullu samræmi við ákvæði þessa frv., sem ég nú hef nefnt.

Loks er svo í þessari þáltill. rætt um fyrirhugaða virkjun Laxár í Austur-Húnavatnssýslu. Það mun vera langt komið að gera kostnaðaráætlun um virkjun þar, og telur Rafmagnseftirlit ríkisins horfur á, að þar muni vera hægt að byggja sex til sjö þús. hestafla rafstöð. Hér er í till. lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að verja fé úr ríkissjóði þegar á þessu ári til kaupa á efni og vélum til þeirrar virkjunar, ef hagkvæmt þykir að koma upp orkuveri þar að loknum áætlunum um virkjun vatnsfallsins.

Vil ég benda á, að áður hefur ríkisstj. verið heimilað að verja fé úr ríkissjóði til slíkra framkvæmda. T. d. er það svo um þær rafveitur, sem nú er unnið að að koma upp bæði hér um Reykjanesskagann og frá Laxárvirkjuninni til Húsavíkur og nú einnig frá Sogsstöðinni til kauptúna og byggðarlaga á Suðurlandsundirlendinu, að þar hefur ríkisstj. fengið heimild til að verja fé úr ríkissjóði til þeirra framkvæmda, með ályktunum og frv., sem samþ. hafa verið hér á Alþ., og er gert ráð fyrir því þar, að þessi fyrirtæki verði rekin af ríkinu.

Ég sé ekki ástæðu á þessu stigi málsins að fara fleiri orðum um þessa till. Væntanlega er öllum hv. þm. það ljóst, að þörfin er mjög mikil í öllum héruðum landsins fyrir rafmagnið, og er þess þá að vænta, að menn geti orðið sammála um það að greiða fyrir því, að þeirri þörf verði fullnægt svo fljótt sem kostur er á, og ef þessi till. verður samþ., þá ætti það að flýta fyrir nauðsynlegum framkvæmdum á þessu sviði í þeim fjórðungi landsins, sem þar er um að ræða.

Það mun hafa verið venja um till. slíkar sem þessa, að fjvn. fengi þær til athugunar, og vil ég því leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og fjvn.