27.04.1946
Sameinað þing: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (5327)

208. mál, björgunarskúta Vestfjarða

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Um sama leyti og gerður var samningur, sem staðfestur hefur verið með þáltill., við Slysavarnafélag Íslands, um stækkun á Sæbjörgu, gerði ég samning þann, sem nú fylgir hér sem fylgiskjal með þessari þáltill., og ætlunin var þá að nota þá fjárveitingu, sem veitt var á síðustu fjárl., til framkvæmda á þessum samningi. Ég er að öllu leyti samþ. þáltill., sem hér liggur fyrir, sem eðlilegt er, þar sem hún er fram komin til þess eins að leita staðfestingar á þeim samningi, sem ég hef gert fyrir hönd ríkisstj. og með samþykki allrar ríkisstj. En þegar hv. 1. flm. spurði mig að því, hvort ég vildi vera meðflm. að þessari þáltill., tjáði ég honum það, að ég teldi mig hafa heimild til þess að nota fjárveitingu síðasta árs á þá lund, sem gert er ráð fyrir í samningnum, og hefði þurft að leita heimildar til staðfestingar á samningnum, mundi ég gera það, og þá í sambandi við aðrar úrlausnir, sem ber að gera í landhelgisgæzlunni. Nú hefur hv. þm. N.-Ísf. farið þá leið að létta af mér þeim erfiðleikum að leita eftir þeirri heimild, sem ég taldi mig hafa frá Alþ., þó að ég kunni að taka hana með í aðra till. um víðtækara efni. Ef svo er, sem ég hygg, að hv. þm. N.-Ísf. telji nauðsynlegt, að bæði leiti ríkisstj. heimildar um þetta og svo hann, til þess að fullkomlega sé nú leitað heimilda ofan á þá heimild, sem ríkisstj. var veitt í fjárl. fyrir árið 1945–1946, þá hef ég ekkert á móti því, að þessi till. verði samþ., því að það er þá eins og þar stendur, að „kross er undir og ofan á.“ Og ef hv. þm. heldur, að hann njóti einhverra hlunninda fyrir að leggja þennan kross undir (PO: Hann er ofan á.) það, sem áður var búið að gera í þessu efni, get ég vel unnt honum þeirrar ánægju.

Ég skal segja það um landhelgisgæzlumálin að öðru leyti, að ég hef þegar gert ráðstafanir til þess, að athugun, sem ætlazt var til með þskj. 606, fari fram. Og það hefur verið send fyrirspurn til brezku flotastjórnarinnar, hvort hún vilji taka á móti mönnum til þess að athuga skipti á skipum og fá í staðinn þau 3 varðskip, sem forstjóri Skipaútgerðar ríkisins keypti fyrir ríkisstj. s. l. haust og ekki teljast hæf til landhelgisgæzlu. Svar er ekki komið við þessu enn þá, en ég hef gert ráðstafanir til þess að fá upplýsingar og hef fengið þær upplýsingar, að innan mjög langs tíma verði úr því skorið í Bretlandi, hvort skipin fást þar, og þá um leið, ef svo yrði, að eitthvert skipið yrði hentugt til þess að taka að sér landhelgis- og björgunarstarf fyrir Vestfirði. Sá siður komst á meðan ófriðurinn stóð, að ríkisstj leigði vélskip, að svo miklu leyti sem hennar skip dugðu ekki til þess að halda uppi landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi bæði við Vestfirði og eins við Faxaflóa og eins við Austfirði. En hins vegar hefur Ægir þangað til nú venjulega haft með höndum gæzluna við Vestmannaeyjar.

Það er alveg rétt hjá hv. 7. þm. Reykv., að það hefur nú á meðan á stríðinu stóð verið gripið til þessara skipa til þess að láta þau fara í vöru- og mannflutninga, þegar forstjóri Skipaútgerðarinnar hafði talið, að eitthvað lægi við. Og sérstaklega hefur þetta átt sér stað með skipin, sem hafa verið við Vestfirði, að hvað eftir annað hefur verið gripið til þess bæði til vöruflutninga og mannflutninga, en þá líka venjulega eftir ósk Ísfirðinga sjálfra vegna þeirra samgönguvandræða, sem hafa verið ríkjandi meðan stríðið hefur staðið. Á þessari vertíð, sem nú er að enda, var haft sérstakt skip við Vestfirði, og ég hef veitt því eftirtekt, að það hefur nokkrum sinnum verið tekið til þeirra nota, sem ég nefndi áðan, og meðal annars til þess að flytja fulltrúa slysavarnasveita Vestfjarða hingað til Reykjavíkur á þing Slysavarnafélags Íslands. Svo mikil hafa samgönguvandræðin verið, að jafnvel fulltrúar slysavarnasveitanna á Vestfjörðum hafa gengið fram í því að koma þessari reglu á, sem ekki hefur þótt annað fært en óska eftir því, að skipin væru tekin frá gæzlu til þess að flytja þá til Reykjavíkur og jafnvel þó að ekki væri örgrannt um, að ef til vill gæti það komið í bága við gæzlu skipsins við Vestfirði, sem þessar slysavarnasveitir höfðu óskað eftir, að haldið yrði uppi.

Hafi ríkisstj. ekki heimildina til þess að skipta á skipum, sem eru nú í eigu ríkisins, með því að fá önnur ný, þá er vitanlega nauðsyn að fá heimild til þess.

Ætlazt var til, að þáltill. á þskj. 656 gilti fyrir alla landshlutana og auðvitað fyrir Vestfirði jafnframt. Ég tel víst, að sú till. nái afgreiðslu á þessu þingi. Í raun og veru geta ekki verið skiptar skoðanir um, að auka þarf landhelgisgæzluna til muna frá því, sem nú er. Ég skal geta þess í þessu sambandi, að skipum ríkissjóðs hefur fækkað um eitt við það, að Þór var seldur nýlega samkv. heimild í 22. gr. fjárl. En jafnhliða því, að aukinn verður skipakostur ríkisins til strandvarna, þá tel ég, að halda þurfi áfram tilraunum, sem gerðar voru á s. l. sumri um notkun flugvéla til landhelgisgæzlu. Og ef ríkið eignaðist eitthvað af flugvélum til landhelgisgæzlu, ættu þær flugvélar einnig að verða notaðar til síldarleitar á sumrin. Athuganir, sem gerðar hafa verið og hæstv. Alþ. er kunnugt um, sýndu, að erfitt var að gera nákvæmar staðarákvarðanir á skipum, sem eru að veiða í landhelgi. En ég hygg, að nú sé farið að nota tæki, sem nota mætti í flugvélum í þessu skyni, svo að líklegt er, að flugvélar geti komið að betri notum við landhelgisgæzlu en athuganirnar sýndu, er gerðar voru á s. l. sumri.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég ítreka, að ég er að efni til samþykkur till., þar sem hún er þáttur í þeim aðgerðum, sem þegar er búið að framkvæma og ég í rauninni hef talið mig hafa heimild til að gera eftir heimildum á s. l. fjárlögum.