27.04.1946
Sameinað þing: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (5328)

208. mál, björgunarskúta Vestfjarða

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar þessi þáltill. var til athugunar hjá fjvn., lýsti ég yfir því að ég væri ekki reiðubúinn til að taka afstöðu til till. með því að greiða atkv. Mér þykir rétt nú að gera grein fyrir afstöðu minni til málsins og hvers vegna ég treysti mér ekki til að greiða atkv. þá. Þegar fjvn. hafði málið til athugunar, lágu fyrir upplýsingar hjá n. um það, að ríkisstj. hefði þegar gert samning við tvö slysavarnafélög um björgun og landhelgisgæzlu. Það var og vitað, að ríkisstj. hafði í hyggju að halda áfram á þessari braut og gera samninga við fleiri slysavarnafélög viðkomandi björgun og landhelgisgæzlu. Fyrri samningurinn, sem hæstv. ríkisstj. hafði gert um þetta efni, var við Slysavarnafélagið í Reykjavík, eða Slysavarnafélag Íslands. Sá samningur var um það, að ríkisstj, tók að sér að leggja fram mjög myndarlega fjárhæð til þess að endurbyggja Sæbjörgu og fá í hana nýja hjálparvél. Mestur hluti kostnaðar við að stækka skipið og vélarkaupin átti að greiðast úr ríkissjóði gegn samningi um það, að ríkisstj. fengi skipið á leigu til björgunar og landhelgisgæzlu í 15 ár. Var ætlazt til þess, að þessi tími mundi vera fullnægjandi til þess, að ríkið þyrfti ekki að fá skell af þessu. Hæstv. ríkisstj. lagði þennan samning fyrir Alþ. til afgreiðslu. Sá samningur hefur nú þegar verið fyrir þinginu og hlotið staðfestu þess. Hinn samningurinn, sem ríkisstj. gerði, var við björgunarsveitirnar á Vestfjörðum. Hann var um það, að sveitirnar legðu fram 200 þús. kr. til þess að byggja og kaupa skip til björgunarstarfa á Vestfjörðum, en ríkisstj. skyldi sjá um þessi kaup og framkvæmd málsins að öðru leyti. Hæstv. ríkisstj. sendi fjvn. till. til þál. um það, að leitað yrði staðfestingar Alþ. m. a. á þessum samningi. Í þeim till. fólst fleira, t. d. heimild til þess að leita áfram eftir samningum við Slysavarnafélagið um, að félagið aðstoðaði annars staðar á landinu. Þegar þessi till., sem hér liggur fyrir til umr., var lögð fram á Alþ., var vitað um þessa tvo samninga. Hæstv. ríkisstj. óskaði eftir staðfestingu á öðrum samningnum og óskaði eftir fyrirgreiðslu fjvn. um staðfestingu hins samningsins. Mér fannst það eðlilegt og rétt, að hæstv. ríkisstj., sem sjálf hefur gert þessa samninga, hefði einnig forgöngu um það að leita staðfestingar Alþ. á samningunum. Þess vegna vildi ég fyrir mitt leyti ekki fylgja þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir til umr. Ég fylgdi því hins vegar, að fjvn. samkv. ósk hæstv. ríkisstj. tæki að sér að bera fram þá þáltill., sem hér liggur fyrir til umr. og vísað hefur verið til síðari umr. Ég skal taka fram, að ég er fyrir mitt leyti síður en svo andvígur till., sem hér liggur fyrir. Ég tel, að það sé óhjákvæmilegt að gera allt hér á Alþ., sem felur í sér staðfestingu á þeim samningi, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. Hins vegar álít ég rétt, að fyrst það er hæstv. ríkisstj., sem hefur ótilknúin af öðrum hv. þm. beitt sér fyrir og gert samningana, þá hafi hún forgöngu um það að fá samningana staðfesta á Alþ., enda felst í till. staðfesting á þeim samningi, sem hér um ræðir, og enn fremur heimild til ríkisstj. til þess að halda áfram á þeirri braut, sem lagt hefur verið út á. Ég verð líka að taka fram, að ég fyrir mitt leyti álít ekki rétt, að Vestfirðirnir séu teknir einir út úr, en aðrir landshlutar skildir eftir. Þótt ekki verði um það deilt, að nauðsyn sé að leysa þessi mál fyrir Vestfirði og hæstv. ríkisstj. hafi þegar með samningi gert myndarlega tilraun til þess, þá er einnig nauðsyn til þess að látá aðra landshluta fylgja þar í. En ef þessi till., sem hér liggur fyrir, yrði afgreidd út af fyrir sig, þá væru aðrir landshlutar eftir skildir, en ég tel slíkt með öllu óviðunandi og tel, að gefa verði hæstv. ríkisstj. heimild til þess að leysa einnig málið annars staðar. Þetta er önnur ástæðan fyrir því, að ég hafði ekki viljað mæla með, að þessi till. yrði samþ. út af fyrir sig. Ég vildi mega vænta þess, að þeir flm., sem að þessari till. standa, geti fellt sig við þetta. Og fjvn. hefur nú orðið við beiðni hæstv. dómsmrh. og borið fram í heild till. um þetta mál, till. sem felur í sér ekki aðeins lausn á því, sem leitað er eftir með till., sem hér liggur fyrir, heldur allsherjar lausn á málinu, eftir því sem hægt er að gera á þessu stigi. Og ég vildi mega beina þeirri fyrirspurn til hv. flm. till., hvort þeir fyrir sitt leyti geti ekki fellt sig við þetta og tekið þessa till. til baka og látið sér nægja, að sú heildartill., sem hér liggur fyrir og komin er til síðari umr., verði samþ. Það er sérstök ástæða til að beina þeirri fyrirspurn til flm., vegna þess að frá þeim hefur lítið um þetta heyrzt eftir að þáltill. um heildarlausn málsins kom fram. Ég vildi mega vænta þess, að áður en þessari umr. er lokið, þá segi flm. till. hreint til um þetta fyrir sitt leyti. Ég vil taka það fram, að það er nákvæmlega sama, hvort till. á þskj. 656 verður samþ. óbreytt eða hvort brtt. á þskj. 734 verður samþ. Báðar till., bæði heildartill. á þskj. 656 og eins brtt. á þskj. 734, fela í sér fullkomna lausn á þessu máli fyrir flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir. Ég vildi því á ný endurtaka ummæli mín til hv. flm. till., að þeir taki hana til baka, og ég vildi mega vænta þess, að þeir gefi um þetta yfirlýsingu í hv. d., áður en umr. verður lokið.

Ég sé þá ekki á þessu stigi málsins ástæðu til þess að taka neitt frekar fram og læt máli mínu lokið að sinni.