24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (5358)

227. mál, tjón vegna svínapestar

Páll Zóphóníasson:

Mig langar til þess að fá upplýsingar um þetta mál. Það er flutt af sex hv. þm. og gerir ráð fyrir að bæta mönnum skaða, sem þeir hafa orðið fyrir á bústofni sínum af völdum svínapestar. Þetta er bráðhættulegur sjúkdómur, og er talið, að eina ráðið til að hefta útbreiðslu hans sé að skera niður. En þegar þessi sjúkdómur gekk hér meðan setuliðið var hér og keypti svínakjöt háu verði, var það ekki gert, í þess stað voru svínin bólusett og gerð ónæm, en þó þannig, að þau eru látin vera smitberar alla sína ævi. Hvenær sem svín fæðast smitast þau af stofninum, sem fyrir er, nema viðhöfð sé bólusetning. En bóluefni er ekki búið til hér á landi og ekki á Norðurlöndum, það fæst í Ameríku, og það hefur gengið erfiðlega að fá það. Ég hefði gjarnan viljað heyra álit yfirdýralæknis (SEH) um þetta mál. Það er vitað, að svínastofninn á Norðurlandi er ósmitaður, en í Reykjavík og á Suðurlandi er hann smitaður. Ég álít málið þess eðlis, að það eigi að ræðast. Það réttasta væri að drepa niður svínastofninn, sem er á sýktu svæðunum, og endurnýja hann svo með heilbrigðum stofni af Norður- og Austurlandi.