21.12.1945
Sameinað þing: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í D-deild Alþingistíðinda. (5414)

131. mál, varðbátakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Þann 3. des. s. l. var útbýtt frá mér fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um varðbátakaup. Þessi fyrirspurn var leyfð og send hæstv. ráðh. Spurt var, hvað hefði gerzt í þessu máli síðan og hvenær mætti vænta svars frá honum og nokkurrar skýrslu um þetta mál. Ég hef talið nauðsynlegt og jafnframt viðeigandi að beina þessari fyrirspurn hér til hæstv. ráðh., þó að í sameinuðu þingi sé. Ég hef talið æskilegt, að nú, áður en þingmenn skilja og þingi verður frestað, þá fái þm. vitneskju um það frá hæstv. ráðh., hvenær hann a. m. k. hyggst að gefa þessa skýrslu, úr því að hún hefur ekki þegar verið gefin, hálfum mánuði frá því að fyrirspurnin var leyfð og honum send. Vildi ég óska, að ráðh. gæfi um þetta nokkrar upplýsingar.