27.02.1946
Neðri deild: 76. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í D-deild Alþingistíðinda. (5418)

131. mál, varðbátakaup

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Á síðasta fundi sameinaðs þings fyrir jól spurði ég hæstv. dómsmrh., hvenær vænta mætti svars frá honum við fyrirspurn varðandi varðbátakaup ríkisins. Ég taldi rétt, að hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir að svara þessari fyrirspurn á fyrsta fundi eftir 1. febr. Nú er liðinn mánuður af framhaldi þingsins, og hefur hæstv. ráðh. ekki gefið neina yfirlýsingu enn. Reyndar getur hann haft góð og gild rök til þess.

Ég leyfi mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort eigi megi vænta þess, að hann gefi áðurlofaða yfirlýsingu og skýrslu mjög fljótlega.

Ég vil svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, en tel æskilegt, að hæstv. Alþ. fengi þá yfirlýsingu og skýrslu sem fyrst frá hæstv. ráðherra.