11.03.1946
Neðri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (5426)

131. mál, varðbátakaup

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Ég hef ekki mörgu að svara hv. þm. N.-Ísf. Við erum sammála um þessi mál, og honum er vel kunnugt um það, að fyrir mér hafa landhelgisgæzlumálin alltaf verið mikið áhugamál.

Það er ekki að öllu leyti rétt, að skipin hafi verið algerlega óstarfrækt, því að eitt þeirra hefur verið að starfi nær óslitið síðan um áramót og hefur á því tímabili tekið einn togara í landhelgi. Ég upplýsti áðan, að rekstrarkostnaður varðbátanna mundi vera um 800 þús. til 1 millj. fyrir hvern þeirra á ári, ef þeir eru úti, en ef þeir hins vegar liggja í höfn, þá sem svarar varðmannskaupi þriggja manna, þar eð annar kostnaður kemur vart til greina. Ég hef lagt svo fyrir að afskrá skuli af öllum skipunum nema einu, en það skuli starfa, þar til ákveðið er, hvað gert verður við skipin öll.

Mér er það ljóst, að landhelgisgæzlunni er mjög áfátt, en ekki varð hjá því komizt að senda Ægi í klössun, eftir að hann hafði verið í stöðugri notkun allan stríðstímann. Sama er að segja um Sæbjörgu. Sagt var, að vélin hefði verið orðin laus í henni, svo að varla hefur verið seinna vænna. Til gæzlu við Vestfirði var leigt skip og einnig var skip leigt með tilvísun Slysavarnafélagsins til björgunar og gæzlu í Faxaflóa og kom það að góðu haldi í mannskaðaveðrinu um daginn. Þá var leigður bátur til þess að vera við Vestmannaeyjar, þar til Ægir kemur, og enn einn bátur er við Hornafjörð.

Einn af skipstjórum landhelgisgæzlunnar hefur verið fenginn til þess að athuga um þetta og einnig hafa forstjórar flugfélaganna verið kvaddir til. Svo var trúnaðarmaður Skipaútgerðarinnar sendur utan til þess að athuga um kaup á nýjum skipum eftir stríðið.

Það er mesti misskilningur, að ég hafi löngun til þess að spara við landhelgisgæzluna, en það þýðir ekki að hafa svo dýr skip, sem ekki er hægt að halda úti fyrir það fé, sem veitt er til þessara mála af fjárl. fyrir 3 millj. kr. er ekki hægt að halda mörgum skipum úti. Á Ægi er 26 manna áhöfn, á Óðni 10 manna og á hraðbátunum 14 manna, en rekstrarkostnaðurinn fer nokkuð eftir því, hve fjölmennar áhafnirnar eru. Ef við ættum að halda úti 3–4 skipum með 26 manna áhöfn, mundi það kosta um 6–8 millj. kr. Þó yrði það ekki fullnægjandi, því að fleiri skip þarf. Þór er ekki hafður við landhelgisgæzlu vegna þess, hve dýr hann er í rekstri, Í 3 ár hefur verið samþykkt heimild til þess að selja hann, en enginn kaupandi hefur fengizt.

Ég er ekki viðbúinn að svara því, hvað stór skip við ættum helzt að hafa í þetta, en mér er þó nær að halda, að ekki sé hægt að hafa nema 5 skip með 13 manna áhöfn og 2 flugvélar, sem vetur og vor væru til björgunar og gæzlu, en á sumrin til síldarleitar. Það yrði og spursmál, hvort ríkið ætti ekki að eiga þær flugvélar. En eins og stendur, er sem sagt áhöfn á einum. af hraðbátunum og hinir verða látnir liggja, þar til ákveðið er, hvað um þá verður. Og ef svo ber undir, verður skipunum skilað aftur.

Viðvíkjandi því, að skipin þurfi að vera auðþekkt, held ég, að það geti verið nokkuð tvíeggjað. Veiðiþjófar mundu vera öruggari um sig að fara í landhelgi, ef þeir gætu þekkt gæzluskipin úr 7–6 mílna fjarlægð. Ég held, að hitt væri nær að hafa skipin þannig, að þau þekktust ekki á langleiðum. Hitt get ég í sjálfu sér fallizt á, sem hv. þm. sagði, að landhelgisgæzlan væri allt eins mikið í því falin að verja landhelgina eins og að taka skip í henni.

Ég gleðst yfir áhuga hv. þm. N.-Ísf. á þessu máli, og landhelgismálin fengju áreiðanlega fljótari afgreiðslu, ef allir þm. væru sama sinnis og ég og hann í því máli.