13.11.1945
Efri deild: 29. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í D-deild Alþingistíðinda. (5432)

45. mál, flutningur hengibrúar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Strax og þáltill. var samþ. 6. febr. 1945 varðandi þetta mál, var vegamálastjóra falið að gera þá athugun. Álit hafði ekki borizt, þegar fyrirspurnin kom frá hv. 2. þm. Árn. Þess vegna var fyrirspurnin send til vegamálastjóra. Atv.- og samgmrn. hefur nú borizt bréf frá vegamálastjóra varðandi þetta mál, og þar sem í því felast beztu upplýsingar um þetta efni, vil ég lesa bréfið hér í deildinni, með leyfi hæstv. forseta. Það hljóðar svo :

„Brú á Hvítá hjá Iðu.

Síðan samþ. var ályktun á Alþingi 6. febr. s. l., hefur verið mælt og rannsakað ýtarlegar brúarstæðið á Hvítá hjá Iðu. Kemur í ljós, að þar þarf hengibrú 104 m langa, en milli turna Ölfusárbrúar er aðeins 75 m. Þá er það upplýst við athugun á ástandi Ölfusárbrúar, að járnin, sem bera upp gólf brúarinnar, eru orðin nokkuð aflöguð og ótrygg. Akbreidd brúarinnar er aðeins 2,6 m, og er það allmiklu mjórra en nú þykir rétt að hafa á nokkurri brú, nema helzt á afskekktri leið, þar sem engin teljandi þungaumferð er, en ekki er unnt að breikka brúna, þar sem hún yrði sett upp á ný, nema með mjög verulegum kostnaði. Af framangreindum ástæðum tel ég hana algerlega ófullnægjandi á Hvítá hjá Iðu, með því að nauðsynlegt verður, að þar komi traust brú með sæmilegri breidd, er nægi til frambúðar. Ég er kominn að þeirri niðurstöðu að leggja til, að á Hvítá verði sett 104 m löng brú, að öllu leyti nýsmíðuð og 4 m breið, og miðist styrkleiki hennar við, að hún þoli umferð þungra bifreiða svo og allt að 12 tonna þungan vagn, sem dreginn er af bifreið, og er þetta sami þungi og styrkleiki nýju brúarinnar á Jökulsá hjá Grímsstöðum verður miðaður við. Innan skamms mun ég geta haft tilbúna kostnaðaráætlun um slíka brú á Hvítá. Ég hef nýlega fengið tilboð í járn og járnsmíði hengibrúar á Jökulsá frá beztu brúarsmiðjunni, sem smíðaði Ölfusárbrúna, og mun bráðlega hafa tilbúna kostnaðaráætlun um þá brú. Telur firmað, að til mála komi einhver lítil lækkun á brúarsmíðinni, ef tvær brýr eins yrðu pantaðar samtímis. Að því er snertir gömlu Ölfusárbrúna, þá mun ekki svara kostnaði að nota hana aftur nema yfir styttra brúarhaf, því járn í henni eru of veik, ef hafið lengist, og þarf þá gildari járnbita, en af því leiðir enn aðrar breytingar. Þá þarf og hærri turna fyrir lengri brú, en hins vegar má jafnvel vænta Þess, að talið verði öruggt að nota strengina fyrir styttri brú. Samt verður gamla brúin ekki endurbyggð svo, að hún þoli verulega meiri þunga en nú, sem er mest 6 tonna bifreið. Kemur því ekki til að nota hana nema þar, sem fyrirsjáanlegt er, að ekki þarf að gera ráð fyrir umferð mjög þungra bifreiða. Á næstu árum má vænta, að komi hengibrýr á þessar ár, allar styttri en Ölfusárbrúin :

1. Blöndu hjá Löngumýri um 50 m löng.

2. Hvítá í Borgarfirði hjá Bjarnastöðum í Hvítársíðu, 52–55 m löng.

3. Lagarfljót hjá Kirkjubæ, 62 m löng, og

4. ef til vill Tungnaá á Haldi á Sprengisandsleið, 65–70 m löng.

Þar sem vænta má, að styrkleiki þriggja fyrst töldu brúanna verði að miðast við, að fullhlaðnar mjólkurflutningabifreiðar fari um þær, efast ég um, að rétt þyki að nota Ölfusárbrúna þar, því að þær eru allt að 8 tonn á þyngd. Að minnsta kosti yrði fyrst að gera útreikninga um áætlaðan styrkleika hinnar endurbættu brúar. Frekar geri ég ráð fyrir, að gamla brúin þætti viðunandi sterk á jafnfáfarna leið og yrði yfir Tungnaá. Ég vil þó að svo stöddu frekar fresta að gera tillögu um, hvar brúin yrði endurbyggð.

Aðrar hengibrýr, sem væntanlegar eru, eru allar lengri :

1. Skjálfandafljót í Bárðardal, um 112 m löng.

2. Hvítá í Árnessýslu hjá Kiðjabergi, um 140 m löng.

3. Þjórsá hjá Þjórsárholti, um 100 m löng.

Hefur þess sérstaklega verið óskað, að athugað væri, hvort ekki mætti nota Ölfusárbrúna á Skjálfandafljót, því að þar mundi væntanlega nægja léttbyggð brú. Brúarstæði, er til greina koma þar, hafa á ný verið rannsökuð og mæld á síðastliðnu sumri, og er fullvíst, að styttra brúarhaf fæst þar ekki en um 112 m. Er brúin því að dómi okkar verkfræðinganna ónothæf þar, nema ef til vill með mjög kostnaðarsömum breytingum, og er hætt við, að kostnaðarmunur á endurbyggingu hennar og á nýrri brú yrði þá ekki mikill. Jafnframt er þó til athugunar, hvort ekki megi setja brúna á annan stað, þar sem að vísu þyrfti um 165 m langa brú. Hún yrði þó allmiklu ódýrari en hengibrú 112 m löng, ef þar reynist ráðlegt að koma fyrir steyptum stöplum úti í farveginum, en þarna er talið vera mikið ísrek, og gæti því stöplunum verið nokkuð hætt. Virðingarfyllst

Geir Zoöga.“

Eftir þessu bréfi tel ég, að ekki komi til greina, að Ölfusárbrúin verði flutt á Hvítá hjá Iðu.