27.03.1946
Efri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (5437)

189. mál, bætur frá Þjóðverjum fyrir hernaðarspjöll

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál er nú þannig, að ekki þarf mikið að tala um það. Það er vitað, að á stríðsárunum sökktu Þjóðverjar nokkrum íslenzkum skipum með allri áhöfn, auk annarra spjalla. En þessar árásir, sem voru ákaflega ómannúðlegar — að svo miklu leyti sem við vitum um þær frá mönnum af þeim skipum, þar sem nokkur mannbjörg varð, — voru þannig, að hér fer saman mikið manntjón og þar með sá skaði þjóðhagslega, sem því fylgir, ef hægt er að meta hann til fjár, og einnig mikið eignatjón. Þar sem nú aðrar þjóðir leitast við að fá nokkrar bætur fyrir þau spjöll, sem einræðisríkin gerðu á eignum aðila í öðrum ríkjum, fannst mér rétt að hreyfa því hér í hv. þd., hvað hæstv. ríkisstjórn væri búin eða hugsaði sér að gera til þess að tryggja rétt Íslands í þessu efni. Mér þætti vænt um, ef hæstv. dómsmrh. vildi segja sína skoðun um þetta mál.