27.03.1946
Efri deild: 93. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (5438)

189. mál, bætur frá Þjóðverjum fyrir hernaðarspjöll

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Mér er ljúft að upplýsa það, sem gerzt hefur í þessu máli, að að stríðinu loknu var farið að ræða um það á milli dómsmrn. og utanrrn., hvað gera skyldi í þessu máli. Og með bréfi, dags. 18. okt. 1945, og með tilvísun til samtals, sem fram hefur farið um þetta áður, þá skýrir utanríkisráðuneytið frá því, að utanrrh. hafi fyrir nokkru óskað álits dr. Einars Arnórssonar fyrrv. hæstaréttardómara um það, á hvern hátt Íslendingar ættu að gera skaðabótakröfur á hendur Þjóðverjum fyrir mann- og eignatjón af þeirra völdum í styrjöldinni, og enn fremur um það, að ef horfið yrði að því ráði, að gerðar yrðu slíkar kröfur, hvernig ætti að haga meðferð þessa máls.

Með bréfi, dags. 6. ágúst 1945, sendir dr. Einar Arnórsson hæstv. forsrh. álitsgerð, sem ég skal leyfa mér að lesa upp. — Og með tilvísun til þeirra samtala, sem ég gat um, beinir utanrrn. til dómsmrn., að það láti gera yfirlit yfir allar skaðabótakröfur, sem það telji rétt, að gerðar verði á hendur Þjóðverjum, og að það rökstyðji þær með sem ýtarlegustum sönnunum sem frekast kostur væri á.

Álit dr. Einars Arnórssonar er, með leyfi hæstv. forseta, svohljóðandi :

„Með bréfi, dags. 27. f. m., hefur hæstv. forsrh. óskað álits míns um það,

I. ,,hvort Íslendingar ættu að gera skaðabótakröfur á hendur Þjóðverjum fyrir manna- og eignatjón af þeirra völdum í styrjöldinni“, og

II. „ef horfið yrði að því að gera slíkar kröfur, hversu bæri þá að haga þeim og meðferð slíkra mála.“

Ég vil leyfa mér að lýsa hyggju minni um þessi atriði í fáum orðum.

Um 1. Um árás þýzkrar flugvélar á s/s „Súðina“ hér við land sumarið 1943 mun varla vafasamt, að þýzka ríkið eigi að bæta það tjón, er árás þessi hafði í för með sér. Hin skipin, sem fyrir árás urðu, munu hafa verið í förum milli Íslands og lands, sem Þjóðverjar áttu í styrjöld við, og í takmarki, er þeir höfðu lýst ófriðarsvæði, eða í fylgd og vernd herskipa óvinaríkja Þjóðverja. Nú leikur ekki á tveim tungum, hver nauðsyn Íslandi var á því að hafa samgöngur við Bretland og Ameríku á styrjaldarárunum, og eigi orkar það heldur tvímælis, að Ísland var í fyrstu hernumið af Bretum og síðan, frá því nálægt miðju ári 1941, undir hervaldi Bandaríkja Norður-Ameríku samkvæmt samningi milli þeirra og Íslands. Það mun og almennt viðurkennt, hversu mikilvægur hernaðarstaður Ísland var Bandaríkjunum og Bretum í styrjöldinni við Þjóðverja. Þótt íslenzka þjóðin væri að formi til hlutlaus í þeirri styrjöld, þá var landið raunverulega herstæði og skipakostur þess varð raunverulega að vera í þjónustu Breta og Bandaríkjamanna jafnframt flutningum nauðsynja frá þessum þjóðum til Íslands. Af þessum ástæðum virðist Ísland hafa fulla siðferðislega kröfu til bóta fyrir spjöll á mönnum og munum, er Þjóðverjar hafa valdið því. Þjóðverjar voru gersigraðir og hafa gefizt upp skilyrðislaust. En af því leiðir aftur, að Bretland og Bandaríkin, sem Ísland hefur unnið með í styrjöldinni, hafa í hendi sér, ásamt öðrum styrjaldaraðilum þeirra megin, ákvörðun um bætur af hendi Þjóðverja til Íslands, eins og allt annað, er kjör og kosti Þjóðverja vegna styrjaldarúrslitanna varðar. Og þykir því mega vænta þess, að stórveldi þessi telji sanngjarnt, að Ísland fái bætur úr hendi Þjóðverja, hvað sem stranglögfræðilegri túlkun á afstöðu Íslands í styrjöldinni líður. Af framangreindum ástæðum virðist einsætt, að gera beri kröfur um bætur úr hendi Þjóðverja fyrir spjöll á mönnum og munum, er þeir hafa valdið Íslandi í styrjöldinni.

Um II. 1. um friðarsamninga í venjulegum skilningi milli bandamanna og Þjóðverja verður ekki að ræða, því að samkvæmt hinni skilyrðislausu uppgjöf Þjóðverja munu Bandamenn ákveða einhliða kjör og kosti Þjóðverja. En af því leiðir aftur, að beina verður kröfum Íslands til Bandamanna (þ. e. í þessu sambandi Breta og Bandaríkjamanna), er svo úrskurða, hvort Þjóðverjar skuli greiða, hversu mikið og með hverjum hætti. Sennilega verður sett nefnd til rannsóknar og tillagna um öll skaðabótamálin. Og sú nefnd mun þá fjalla um kröfur Íslands.

2. Mikið vandamál mun hér verða sönnunaratriðið. Til stuðnings kröfum um skaðabætur virðist þessara atriða einkum vera þörf:

a ) Skrá um hvert einstakt íslenzkt skip, er fyrir spjöllum hefur orðið, hvar og með hverjum hætti þau hafa orðið og hverjum úrslitum, stærð skips, aldur og til hvers notað, eiganda, vátryggingarupphæð og vátryggjanda, vél og aldur hennar, flokkun skips og fylgifé og yfirleitt allar upplýsingar, er unnt er að afla og máli skipta um verðmæti skips.

b) Skrá um menn þá, er farizt hafa eða orðið hafa fyrir heilsutjóni eða öðru tjóni sakir árása Þjóðverja á skip þeirra, aldur þeirra, atvinnu og annað, er máli skiptir um bótahæð.

c) Skrá um konur og ósjálfráða börn hvers manns, er farizt hefur, og foreldra, ef ætla má þá eiga kröfu til dánarbóta.

d) Skrá um verðmæti þau, er í skipi voru og eigi voru beinlínis fylgifé þess, svo sem farm og skipsforða, eignir skipverja, er tapazt hafa, og verðmæti önnur í skipi, og annað, er máli skiptir í því sambandi um kröfu og kröfuhæð.

e) Kröfur þær, er gerðar verða um bætur fyrir hvað eina, svo sem dánarbætur handa konu, börnum eða foreldrum, bætur fyrir heilsutjón, lækniskostnað, heimsendingu manna, uppihald og atvinnutap, skipsbætur og farms og muna annarra, er tapazt hafa, eftir því sem frekast er kostur.

Sönnunargögn í þessu efni eru skýrslur manna fyrir dómi (sjóferðapróf), farmskrár skipa, skipshafnarskrár, sjóferðabækur skipverja, skýrslur útgerðarmanns um farm og tapað farmgjald, bjarglaun, ef því er að skipta; viðgerðarkostnað skips, sameiginlegt sjótjón, farmiða, kaupkjör manna, skýrslur manna um glataðan farangur sinn, ef því er að skipta o. s. frv., sem of langt yrði upp að telja.

Það er auðvitað verkhyggnisatriði, hvernig haga skuli gögnum þessum. En líklega yrði gleggst að hafa hvert skip sér (upplýsingar um skip, menn á því og muni o. s. frv.) og kröfur allar í sambandi þar við, því að líklega yrði að rannsaka og úrskurða sér kröfu um bætur og bótahæð fyrir spjöll í sambandi við hvert skip.

Loks skal á það bent, að tiltækilegt kann að vera, að Ísland taki undir sjálfu sér bætur í verðmæti eigna þýzka ríkisins hér, svo sem til vinnst.“

Ég skal geta þess, að eftir kröfu frá þeim, sem nú stjórna Þýzkalandi, þá hafa eignir þýzka sendiráðsins hér verið teknar til geymslu. Og sama máli er að gegna um það fé, sem stóð hér inni hjá Landsbanka Íslands, þ. e. a. s. skuld Íslands við Þjóðverja fyrir stríð.

Að öðru leyti get ég upplýst það, að gerð var skrá yfir þau skip og þá menn, sem farizt hafa af styrjaldarvöldum svo sannanlegt sé, eða horfið í stríðinu þannig, að enginn veit, hvernig farizt hafa. Þessi skrá er samin af Slysavarnafélagi Íslands, og hún er það nákvæm, að þar eru tilgreindir ómagar, sem tilheyrðu hverjum manni, sem fórst, og allar þær upplýsingar, sem óskað var eftir. Skráin sýnir það, að alls liggja sannanir fyrir um, að Þjóðverjar hafi gert árásir á 9 íslenzk skip í styrjöldinni. Þar af fórust 5 þeirra. Af þessum skipum, sem við vitum sannanlega, að þannig voru gerðar árásir á, voru 11 menn verulega særðir, en 78 drepnir. En auk þess hafa horfið 13 skip, sem ekki liggja neinar sannanir fyrir um, hvernig hafa horfið. Og á þessum skipum voru 147 manns, sem hafa farizt. Þannig hafa alls farizt í styrjöldinni 18 skip, og af þeim höfum við sannanir fyrir, að Þjóðverjar hafa grandað 5 þeirra. En alls hafa týnzt í styrjöldinni, af orsökum, sem við ekki getum vitað um, 225 manns.

Nú barst dómsmrn. snemma á þessu ári vitneskja um það, að e. t. v. mundi vera hægt að fá hjá flotastjórninni brezku upplýsingar um einhver af þeim skipum íslenzkum, sem farizt hafa á styrjaldartímanum, en ekki liggja neinar upplýsingar fyrir hjá okkur um, hvernig farizt hafa. Því að það liggur fullkominn grunur á um það, að nokkur af þeim skipum a. m. k., sem horfið hafa á leiðinni milli Íslands og Bretlands, hafi farizt í kafbátaárásum. Og það er vitað, að brezka flotastjórnin hefur yfirheyrt þá kafbátsmenn þýzka, sem hún hefur náð til, og látið þá gefa skýrslu um skip þau, er þeir sökktu. T. d. munu vera fyrir hendi upplýsingar hjá brezka flotamálaráðuneytinu um árásirnar á Dettifoss og Goðafoss. Og væri þá ekki ósennilegt, að á sama stað væru til skýrslur um árásir á fleiri íslenzk skip. Það hefur þess vegna verið óskað eftir því, fyrst við brezku flotamálastjórnina, sem hefur vísað þeim tilmælum frá sér til utanríkismálaráðuneytisins brezka, og þá seinna einnig óskað eftir því við utanríkismálaráðuneytið brezka, að það léti í té allar upplýsingar, sem flotamálaráðuneytið brezka hefur yfir að ráða um árásir Þjóðverja á íslenzk skip í stríðinu. Og jafnframt hefur verið send skrá yfir öll íslenzk skip, sem hafa horfið, bæði af kunnum og ókunnum orsökum í þessari styrjöld. — Svar við þessu hefur enn ekki borizt. En ég geri ráð fyrir því, að þær upplýsingar, þegar búið er að afla þeirra, muni verða undirstaða þess, að gerðar verði kröfur á hendur Þjóðverjum fyrir a. m. k. það skipatjón og manntjón, sem sannanlega hefur orðið af þeirra völdum hjá íslenzku þjóðinni

Ég skal svo enn fremur geta þess, að spurzt hefur verið fyrir um það hjá Svíum, hvaða háttur hefur verið hafður á meðferð þýzkra eigna, sem þar eru í landinu, eftir að ófriðnum lauk. Hafa borizt upplýsingar um það frá sænsku stjórninni, að eignir þýzka ríkisins og þýzku sendisveitarinnar í Svíþjóð yrðu undir eftirliti sænsku stjórnarinnar, þar til Bandamenn hefðu ráðstafað þeim. En frá þeim verður dreginn kostnaður sá, sem Svíar kunna að hafa af þeim sendimönnum Þjóðverja, sem þar eru í landinu.

Þá hafa einnig verið gerðar fyrirspurnir um það, bæði til Noregs og Danmerkur, hvernig gerðar séu kröfur þær, sem gerðar hafa verið til skaðabóta vegna tjóns, sem Þjóðverjar hafa valdið í þeim löndum, hvernig stjórnir þeirra landa sundurliði þessar kröfur, og enn fremur hvort óskað hafi verið skaðabóta fyrir mannslíf, og ef svo væri, hversu mannslífið sé þá virt.

Þessu máli er ekki komið lengra en það, að það er verið að safna gögnum og upplýsingum í því. En þegar búið er að safna þeim skilríkjum, sem nauðsynleg þykja, þá verður að sjálfsögðu tekin ákvörðun um það af dómsmrn. og utanrrn., á hvern hátt og eftir hvaða leiðum skuli senda bótakröfur fyrir það tjón, sem Þjóðverjar hafa valdið Íslandi í styrjöldinni.