26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

158. mál, ríkisreikningurinn 1942

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var lagt fyrir hv. Nd. og afgr. þaðan breytingalaust, nema leiðrétt hefur verið 4 aura prentvilla, af 74 millj. kr. upphæð. Þótti því ekki taka að prenta þskj. upp, þar sem annað reyndist rétt.

Athugasemdir yfirskoðunarmanna voru fáar og aðeins þremur skotið til Alþingis. Þessar aths. eru sérstaklega um eftirstöðvar hjá tveimur innheimtumönnum. Ráðh. hefur lofað að ganga fast að þessum innheimtumönnum, og grein hefur verið gerð fyrir þessu á Alþingi. Hinar aths. eru um sauðfjárveikivarnirnar, sem fóru mjög mikið fram úr áætlun, og svo atvinnudeildina. En það virðist sem fullkomin grein hafi verið gerð fyrir þessum liðum.

Þar sem fjhn. Ed. hefur ekki séð ástæðu til aths., leggur hún til, að frv. verði samþ. — Það er eitt atriði í þessu sambandi, sem vekur sérstaka athygli, og það er sleifarlagið á ríkisreikningunum. Þetta, sem hér liggur fyrir Alþingi 1945, er reikningurinn frá 1942, en eðlilegt væri, að reikningurinn 1943 lægi fyrir þinginu.. Það var í fyrra samþ. þáltill. um að hraða ríkisreikningnum, og er nauðsyn, að það verði gert í náinni framtíð. Það er sjálfsagt margt, sem tefur ríkisreikninginn. Húsnæðið er ófullnægjandi fyrir endurskoðunina, svo er ekki hlaupið að að fá prentaðar stórar bækur. Ég þykist sjá, að þetta geti lagazt, enda gefur það góðar vonir, að reikningurinn 1944 mun vera nærri prentaður. Nefndin leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.