01.04.1946
Efri deild: 96. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

158. mál, ríkisreikningurinn 1942

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég gerði stutta grein fyrir þessu við 2. umr. málsins, sem hv. þm. Barð. skýrði nú frá, en ég verð að játa, að ég hef kastað þeim plöggum, sem ég hafði hér, svo að ég man þetta ekki glöggt nú. Ég verð að fá að doka við og senda eftir reikningunum, því að ég bjóst ekki við þessu. En ég gegnumgekkst m. a. bæði nál. og umr., sem fram fóru í Nd., þar sem reikningarnir voru lagðir fyrst fram og fyrst var gerð grein fyrir þessu, og féllst ég á þau rök, sem þar voru borin fram, svo að n. taldi ekki ástæðu að bera fram neinar ályktanir í því sambandi. Um efni 1. aths. hefur verið rætt dálítið, og þarf ég því ekki að minnast frekar á það. — 2. aths. mun hafa verið út af kostnaði við atvinnudeild háskólans. N. sá ekki ástæðu til að bera fram neina ályktun til Alþ. út af þessu. Það er eins með 9. aths. — Ég vil segja það almennt um landsreikningana, að það er háttur yfirskoðunarmanna að skjóta til aðgerða Alþ. einu og öðru. En það er undantekning, ef Alþ. eða nefndir hafa talið þetta ástæðu til að bera fram eða gera einhverjar ráðstafanir við það. Þetta er meira gert til þess að Alþ. sjái þetta og geti þá ýtt á viðkomandi ráðherra, en sjaldan munu vera bornar fram ályktanir eða slíkt út af þessu, og sem sagt, n, hefur ekki séð ástæðu til þess, því að hverjum þm. er frjálst að gera það, og ég býst við, að t. d. hv. þm. Barð., sem er formaður og frsm. fjvn., hafi rekið sig á margt þessu skylt, sem rætt er um í þessari aths. — Við þetta hef ég ekki neinu að bæta frá n. hálfu. Hún sá, sem sagt, ekki ástæðu til að bera fram neina þáltill. eða slíkt í sambandi við þessa aths. — Um 1. aths., sem er langveigamest, hefur hæstv. fjmrh. gefið skýrslu, sem sýnir, að það hefur ekki fullkomlega komizt í lag enn þá, og þess vegna fullkomin ástæða að athuga um það nánar.