23.11.1945
Efri deild: 36. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera frekari grein fyrir atkv. mínu í þessu máli en ég hef gert í nál. fjhn. á þskj. 167. Þar er þess getið, að ég hef óbundnar hendur um brtt., og það er rétt, að ég samþ. að bóka það þannig, en var áður búinn að láta það uppi, að ég mundi ekki fylgja þeim. — Ég þarf ekki að vera margorður um þetta atriði. Hæstv. fjmrh. hefur margt tekið það fram; sem ég vildi segja um brtt. þessar. En annars tel ég það vera meginefni í báðum þessum brtt., að þær virðast torvelda ríkisstj. að halda niðri vísitölunni, ef samþ. væru. Ég er ekki sá aðdáandi stjórnarinnar, að ég vilji fela ríkisstj. meira vald til að meta þetta en nauðsynlegt er. En þó álít ég betra, að henni sé veitt það vald, sem hún hefur í brbl. í 2. málsgr. 1. gr., heldur en að fylgja brtt. Því að það er einungis það gert með brtt., að stjórnin hefur eftir sem áður vald til þess að meta það upp á við, sem þar er greint, hve hátt sem það kann að verða. Það lágmark er fastákveðið eftir brtt. og er ekki lægra en mundi verða í framkvæmd reiknað með frv. óbreyttu það magn, sem krafizt er til þess, að vísitalan sé reiknuð eftir, að viðbættum 25% .

Um seinni brtt. er það að segja líka, að fyrst og fremst getur það verið dálítil fjárhagsleg áhætta fyrir ríkisstj. að halda eftir þessari vöru á markaðinum og geyma hana, eins og t. d. að halda eftir kjöti frá því haustið áður og geyma það fram að sláturtíð á næsta ári. Því að bæði er hætta á því og hér um bil víst, að það selst lægra verði, og svo hitt, að það getur orðið léleg eða óseljanleg vara. En svo kemur annað til greina. Stjórnin getur orðið að grípa til þeirra ráða að láta alls ekki fara fram dilkaslátrun fyrr en í sláturtíð að haustinu, og yrði þá kannske með því móti haldið eftir gömlum kjötbirgðum. Af þessu leiddi fyrst og fremst það, að þó að menn hefðu nóga peninga og vildu kaupa nýtt dilkakjöt að sumrinu, þá fengju þeir það ekki. En í öðru lagi verður þá einnig meira kjötmagn til í landinu í lok sláturtíðar. Þetta gæti því allt orðið til þess að minnka markað fyrir kjöt innanlands, gera örðugra að selja það. Og þó að kjöt megi selja úr landi, gætu þær ráðstafanir að geyma kjöt frá fyrra ári, halda í það við neytendur, orðið til þess, að meira kjötmagn færi undir lakari sölu en annars þyrfti að vera, ef flytja þyrfti þess vegna meira út af kjöti.

Af þessum ástæðum er það, að ef maður vill halda niðri vísitölunni og gera ríkisstj. sem rýmst um hendur um það, þá sé ég ekki, að rétt sé að ganga inn á þær brtt., sem eru hér á þskj. nr. 167.