06.12.1945
Efri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Við 2. umr. málsins tók fjhn. aftur brtt. nr. 1. á þskj. 167 til 3. umr. Fjhn. hefur síðan haldið fund og lagt fram nýja brtt. við sömu gr., sömu málsgr., 2. málsgr. 1. gr., sem er á þskj. 305. Það er orðalagsbreyt. í þessari brtt. frá því, sem áður var, bæði miðað við frv. sjálft og eins við brtt. á þskj. 167. Sú vara, sem sérstaklega er höfð í huga með þessari málsgr., er smjörið, og við þá vöru á það, sem sagt er þar : „ef vara er seld með tvenns konar verði vegna ráðstafana ríkisstjórnarinnar“ á þskj. 305, og er þar ekki átt við, að tvenns konar verðið stafi af því, að ríkisstj. hafi greitt niður verðið með fé úr ríkissjóði, heldur er það með öðrum ráðstöfunum gert, með því að flytja inn smjör. Af þessu leiðir sú breyt., sem gerð er á brtt. á þskj. 305, sem er sú, að í staðinn fyrir orðalagið : „og niðurgreiðsla hefur farið fram á hæfilegu neyzlumagni vörunnar, að dómi ríkisstjórnar ....“ komi: vegna ráðstafana ríkisstjórnarinnar og hún sér um, að hæfilegt neyzlumagn vörunnar og ekki undir því magni, sem reiknað er með í vísitölu, að viðbættum 25%, sé á boðstólum með lægra verðinu ....“ o. s. frv. Að öðru leyti er málsgr. eins samkv. brtt. á þskj. 305 eins og í frv., þ. e. a. s., í upphafi og endi málsgr. er það tekið fram, bæði í frv. og brtt. á þskj. 305, að ef vara er seld með tvenns konar verði, þá skuli vísitalan eingöngu miðuð við lægra verðið.

Ég sé ekki ástæðu nú til að rifja neitt upp þær fyrri umr., sem farið hafa fram hér um þetta mál, en skal láta nægja að benda á þessa efnisbreyt.

Ég vil geta þess, að meiri hl. n. hefur rætt við hv. minni hl. n., 1. þm. Eyf., um brtt., sem hann tók aftur til 3. umr., þegar málið var síðast til meðferðar. Og niðurstaðan af þeim viðræðum varð sú, að meiri hl. n. gat ekki fallizt á að greiða atkv. með brtt. hv. þm. Eyf. og telur, að ef þessi mál verði tekin upp, þ. e. a. s. nefndarskipun til þess að ráðgast um leiðir til þess að vinna bug á dýrtíðinni, þá væri eðlilegra, að það mál væri undirbúið með öðrum hætti og það þá flutt sem till. til þál., ef líkur þættu til, að samkomulag næðist um slíka till.