06.12.1945
Efri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Út af því, að hér var talað um það, hvort brtt. 167,1, sem tekin var aftur til 3. umr., væri tekin aftur eða ekki, þá er það alveg rétt, að hv. frsm. gat þess að engu, en það býst ég við, að hafi verið af því, að brtt. er á dagskrá af vangá. Þegar brtt. er barin fram um sama 2fni víð 3. umr., þá er ekki meiningin, að fyrri brtt., nr. 167,1, sé á dagskrá. Það hlýtur að vera af vangá. Það kann að vera; að formlega sé hægt að segja, að þessi brtt. sé á dagskrá. En þessi brtt., liggur þó tæplega fyrir, þar sem við höfum borið fram brtt. um sama efni nú við þessa umr. og ekki var meiningin, að þessi brtt., nr. 167,1, lægi fyrir.

Ég hafði kvatt mér hljóðs um þetta mál, en varaði mig ekki á, að málið yrði nú tekið fyrir, og hafði ég ætlað að svara hv. þm. Barð., sem gerði hér allsnarpa árás, a. m. k. á okkur suma, sem í n. erum, a. m. k. á stjórnarliðið í n., og sagði, að við hefðum bæði nú og fyrr og síðar á hinni síðustu tíð setið á svikráðum við ríkisstjórnina. En það er nú úr mér allur vindur um þetta. Þó skal ég taka þrjú atriði, sem ég hef skrifað hjá mér. Hv. þm. Barð. var fyrst að tala um í sambandi við þessi brbl. og brtt., sem við nú berum fram, að það væri ákaflega merkilegt, að við vildum nú breyta svo ákvæðum þessara brbl. En það er bara því til að svara, að þegar brbl. voru sett, var því lýst yfir, að þau mundu verða framkvæmd á þennan hátt, sem við nú berum fram brtt. um. Því var þá lýst yfir, að ekki yrði miðað við lægra verð á vöru, sem tvenns konar verð væri á, nema fyrir hendi væri á boðstólum af henni það magn, sem gengi inn í vísitöluna, að viðbættum 25%, og að séð væri um það, að kjöt af eldri framleiðslu væri til í landinu samhliða því, að nýtt og dýrara kjöt kæmi á markaðinn. Og það er þetta, sem við viljum láta setja inn í l. Það horfði öðruvísi við, þegar 1. voru sett, alveg í sömu svifum og þau komu til framkvæmda. Og það er eðlilegt, að við viljum búa vel um ákvæði þessara laga þannig, hvaða stjórn sem í landinu kann að verða, þegar kemur fram á næsta ár. Og við erum sömu skoðunar, sömu stefnu í þessum atriðum, sem framkvæmd var og tekin samtímis því, sem l. voru sett.

Þá gerði hv. þm. Barð. skarpa árás á okkur í n. út af afgreiðslu launalaganna, sem hefði verið veruleg svik við ríkisstjórnina. Ég vil segja, að mér finnst ekki auðvelt að beina að manni öllu ósanngjarnari árásum en þessu gagnvart okkur fjhn.mönnum, sem á síðasta þingi lögðum mikla vinnu í, að efnt yrði loforð ríkisstj. um að setja launalög. Því að eingöngu fyrir óvenjulega mikið starf n., kvölds og morgna, svo á helgum dögum sem rúmhelgum, var hægt að koma því af í tæka tíð að vinna þetta starf til þess að efna það loforð, sem hæstv. ríkisstj. hafði gefið um setningu þeirra l. Ég veit, að hv. þm. Barð. á við það, að nokkrar breyt. voru gerðar á launalagafrv. eftir till. n. En ef hæstv. ríkisstj. hefði ekki viljað samþ. þær breyt., þá hefði hún mótmælt þeim algerlega. Ég veit ekki, hvernig við höfum getað í því efni svikið loforð fyrir ríkisstj. hönd. Ríkisstj. átti að efna sitt loforð í þessu efni. Við lögðum aðeins í því efni vinnu í það að gera ríkisstj. mögulegt að framfylgja þessu atriði stefnuskrár sinnar, sem hún lýsti, er hún tók við völdum. — Svo vil ég segja hv. þm. Barð., að ég held, að þegar menn átta sig á þessu betur, þá sjái menn skýrar og skýrar, að það er svo fjarri því, að launal. séu ákveðin of hátt hvað launaupphæðir snertir, að þau eru held ég með lægstu ákvörðunum, sem til eru um slíka hluti. Ég varð var við þetta á merkilegan hátt fyrir nokkrum dögum. Við áttum að setja í launaflokka starfsfólk við eina hálfopinbera stofnun, happdrætti háskólans. Því hafði verið fram að þessu borgað ákveðið umsamið kaup, en þótti réttara, að það færi í þessa flokka, sem ákveðnir eru með launal. Og ég gerði till. um þetta, eftir því, sem mér fannst næst liggja eftir launum hjá ríkinu og ég er sannfærður um, að ekki eru hærri en launal. yfirleitt fyrir tilsvarandi starf. Og það var í sambandi við þessa athugun hægt að sanna með átakanlegum dæmum, að hvergi nema í launal. ríkisins er svo við neglur skorið um launagreiðslur. Og í launareglugerð Reykjavíkurbæjar er þetta ríflegra. Flokkarnir geta verið hinir sömu, en ríflegar skipað í flokka mun vera hjá bænum. Og í samningum, sem kaupsýslumenn hafa gert við sitt starfsfólk, er þetta allt ríflegra. Og það voru bara launal., sem þrýstu þessu fólki niður í launum, sem eftir þeim tóku laun, svo að þetta fólk er óánægt. Og ef launal. væru sett nú, mundu þau sízt verða lægri en þau launal., sem sett voru í fyrra. Og hvað sem því líður, hefði hæstv. ríkisstj. átt að segja til, ef við vorum að svíkja hana með brtt. við launalagafrv., eða réttara sagt átti að taka fyrir það, ef hún leit svo á, að við værum að svíkja samning, sem hún hefði gert um setningu launal. Ég heyrði þá á hæstv. Alþ. allskarpar raddir í hv. Nd. um meðferð okkar á frv. í Ed. En ég held, að þeir hv. þm. í Nd. hafi ekkert getað annað gert en að bæta bara við upphæðir frv., þegar það kom til þeirra, og þeir hafa gert það af því, að þeir hafa komizt að raun um, að í frv. hafi ekki verið farið hér í hv. d. lengra en minnst varð komizt af með. Og þetta er útrætt spursmál.

Hv. þm. Barð. sagði, að við værum með þessum brtt. okkar við frv., sem fyrir liggur hér, að raska grundvellinum undir útreikningi vísitölunnar. Ég held, að þessi ummæli hans hljóti bara að hafa stafað af því, að hann hafi alls ekki athugað, um hvað þetta frv. er. Þetta frv. er svo gersamlega á allan hátt óviðkomandi útreikningi vísitölunnar. Það er ekki verið að tala um, að taka eigi 25% meira kjöt inn í stuðulinn, sem reiknuð er eftir vísitalan. Og það er ekki verið að tala um heldur, að meira smjör komi inn í útreikning vísitölunnar. Það er aðeins verið að segja, að ef miða á vísitöluna við lægra verðið á vöru, sem seld er með tvenns konar verði, þá verði að fást af þeirri vöru það magn á markaðinum, sem reiknað er með í vísitölunni og ríflega það, sem sé 25% meira en það. En vísitalan er reiknuð út nákvæmlega eins eftir sem áður. — Og kauplagsn., sem reiknar þetta út, þarf ekki einu sinni að vita, að þessi lög séu til. — Enda hefur það ekki komið fram á framkvæmd l. hingað til, að þessi brbl. hefðu áhrif á vísitöluna. Þetta ávæði í brtt. er aðeins til þess að tryggja, að varan sé til. Því að það væri fölsun á vísitölunni, ef setja ætti tvenns konar verð á sömu vöru og selja ætti bara nokkur kg. á markaðinum í landinu með lægra verðinu, en miða vísitöluna samt við lægra verðið. Þetta ákvæði er því ekkert annað en afleiðing af því, að viðurkennt er tvenns konar verð á vöru, og ákveðið, að vísitalan skuli reiknast aðeins eftir lægra verðinu.

Skal ég svo aðeins víkja að ræðu hv. 1. þm. Eyf. Vil ég ekki vera að karpa við hann um þennan nefndarfund. Að ég minntist á það, sem ég tók fram í sambandi við þann fund, var af því, að hann minntist á það, að hann taldi, að hann hefði ekki verið á fundi, þegar málið var afgreitt í n. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram í Alþt. En ég hélt, að hann mundi geta fallizt á að skrifa undir nál., þó að hann ætlaði að bera fram brtt., því að hann gat skrifað undir nál. þrátt fyrir það, ef hann hefði viljað. Þess vegna lét ég nál. liggja hjá skjalaverði, ef þennan hv. þm. skyldi bera að, þannig að hann gæti skrifað undir það, þótt nefndarfundinum, sem fjallaði um málið, væri lokið áður. Og í þessu efni er frá hvorugum aðila um svik að ræða, meiri hl. eða minni hl. n. Og hv. minni hl. n., 1. þm. Eyf., hefur heldur ekkert komið aftan að okkur með sitt nál. En afgreiðsla mála gengur svo seint í nefndum, sérstaklega vegna þess, að þm. eru svo hlaðnir nefndastörfum í d., að ég tók þess vegna þetta mál fyrir, af því að tækifæri gafst til að afgreiða það. — En hitt er að vísu satt, að það er nokkur ágreiningur um þetta mál okkar á milli í sjálfu sér. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að engin viðleitni hefði verið í n. hjá okkur til samkomulags um þetta mál. En ég bar fram mínar ástæður fyrir því. Og ég segi eins og fyrr, að þetta frv. er lítið frv. — ekki eftir lengdinni á pappírnum, heldur er þetta náttúrlega að því leyti ekki stórmál, að það er ekki upphaflega borið fram nú. Því að hér er ekki nema um framlengingu að ræða á ástandi, sem búið er að eiga sér stað um skeið. Þetta er lítið mál að því leyti, að það gerir ekkert annað en að halda því ástandi, sem nú er. Það eru kölluð smámál, sem engu breyta. En ef um það væri að ræða að ákveða með þessu frv. í fyrsta skipti fjárgreiðslur þær úr ríkissjóði, sem í brbl., sem þetta frv. er um að samþ., eru ákveðnar, þá væri þetta stórmál. Og mér virðist óeðlilegt að hengja langstærsta mál þingsins og mesta vandamál þess sem brtt. við þetta mál. Mér finnst, að það væri ákaflega undarleg aðferð, og ég vil ekki á nokkurn hátt líkja því við það, þegar ákvæði um sex manna n. voru sett í frv., sem að nokkru leyti v ar samið um utan við þá n. Og þau l. voru sett eftir margra vikna samninga milli þingflokkanna, og ef ég man rétt, var í þinglokin verið að ganga frá þessu, eftir að þingið hafði allan þingtímann átt í meira og minna stríði við þetta. — Svo heldur hv.1. þm. Eyf., að hliðstætt við þetta, sem þá var gert, sé það að tengja við frv. það, sem hér liggur fyrir, lagaákvæðum um nefnd til þess að reyna að ráða fram úr dýrtíðarmálinu að einhverju leyti. Og hv. þm. ber fram brtt. um skipun nefndar þessarar, án þess að tala áður um það við nokkurn mann og þá heldur ekki við okkur meðnm. hans í n., nefndar, sem á að vinna miklu meira verk en sex manna n., því að þessi n. á að fá verkamenn til að lækka laun sín, bændur til þess að selja afurðir sínar lægra verði, kaupmenn til þess að lækka álagningu á söluvörum sínum, skipafélögin til að lækka farmgjöld, iðnaðarmenn til að lækka byggingarkostnað. Hún á að gera allt, sem erfiðast er í þjóðfélaginu. Það er ekki vandi að tala um að hengja bjölluna á köttinn, en erfiðara er að gera það. Það þýðir því ekkert að samþ. ákvæði þessarar brtt., fyrr en búið er að sjá, að menn a. m. k. vilji reyna að framkvæma það. Ég veit, að hv. flm. þessarar brtt. er samvinnulipur. En það mælir ekki með einlægninni í flutningi þessarar brtt., að þessi hv. þm., flm. brtt., er einmitt fulltrúi þess flokks, sem einn hefur skorazt undan því að vilja hafa samvinnu um lausn á þessu vandamáli og ekki vill taka þátt í þeirri stjórnarsamvinnu, sem m. a. var gerð til þess að leysa vandamál þjóðfélagsins í sambandi við dýrtíðina og annað slíkt. Einmitt Framsfl. hefur skorazt undan þessu. Og þessi hv. þm. verður að afsaka það, að maður hefur dálítið minni trú á brtt. frá mönnum, sem neita þátttöku um að reyna að leysa þau vandamál, sem mest eru í þjóðfélaginu. Og maður getur hugsað sér, að þeir sömu menn reyni að vernda sem bezt sína kosningaaðstöðu og vilji ekki spilla henni að neinu. Og þess vegna dettur manni í hug, að slíkri brtt. sem þessari sé ætlað að falla, til þess að þm. flokksins geti svo sagt, að þessi hv. þm. hafi fundið lausn til að vinna að lausn dýrtíðarvandamálsins og borið fram till. um það, en henni hafi ekki verið sinnt af hinum flokkunum. — Það er alveg víst, að vandamálin verða ekki leyst með svona aðferðum, heldur með langvarandi, þreytandi, erfiðum samningum milli flokka og stétta. Og einhver slík nefndarskipun eins og hér er um að ræða í brtt. gæti ég hugsað mér í sambandi við lausn dýrtíðarmálsins, að kæmi sem lokamark: (BSt: Hvað á þá n. að gera, þegar búið er að semja?). Hún á ekki að semja, heldur setja grundvöll að samningum. En það þýðir ekkert að búa til einhverja hugarsmíð út í loftið, þannig að engir flokkar standi þar á bak við. Þegar sex manna n. var skipuð, átti hún eftir að vinna það verk að ná samkomulagi. Eftir allar samningaumleitanirnar á Alþ. var ekki búið að ná samkomulagi. (BSt: Henni var gefið úrskurðarvald). Já, um það, sem þingið hefði getað gert. Þetta var gert með góðum vilja þingsins á bak við. Og ef nú hefði verið búið að finna einhverjar línur til að láta þessa n. starfa eftir, til þess að finna hagfræðilegar reglur um niðurfærslu á vöruverði og kaupgjaldi, þá var það annað mál en kemur fram þar sem þessi ákvæði brtt. eru.

Alveg er það sama að segja um þáltill. þá, sem fyrir liggur frá hv. þm: S.-Þ. í Sþ — og mér finnst það réttari aðferð að bera fram þáltill. um slíkt mál, en hnýta því ekki við annað mál með brtt. við frv. —, að flutningur þess máls er þýðingarlaus án nauðsynlegs undirbúnings, enda er sú þáltill. borin fram af manni, sem stendur utan við þau samtök, sem mynduð hafa verið um að leysa vandamál þjóðfélagsins. Ég býst líka við, að það sé hugsunin um væntanlega kosningaaðstöðu, sem liggur á bak við flutning þeirrar þáltill. hjá hv. þm. S. Þ.

Viðvíkjandi brtt., sem við tókum aftur og varðar smjörniðurgreiðsluna, og því, að hv. 1. þm. Eyf. sagði, að við hefðum misskilið þá brtt., þá held ég, að það sé ekki rétt hjá þeim hv. þm. En gr. var illa orðuð, bæði í frv. og okkar brtt., því að brtt. hafði orðalag frv. Og bæði hæstv. ráðh., sem hafði borið fram frv., og við, sem fluttum brtt., féllumst á að breyta orðalaginu, þegar bent hafði verið á, að þessi málsgr. væri illa orðuð. En það var ekki um misskilning að ræða í þessu efni. Eins og brtt. er nú orðuð á þskj. 305, nær þessi grein yfir allt smjör, sem selt er við lágu verði, hvaðan sem það er, en áður náði hún ekki til nema íslenzks smjörs. En það er nú svo leynilega farið með það í sölu, að það sést bara ekki á opinberum markaði, og hefði ekki einu sinni komið fram af því það magn, sem miða ætti við í vísitölunni. — Hv. þm. talaði um, að tvenns konar verð á vöru væri óheppilegt. En svo lengi sem um er að ræða útlent ódýrt smjör og íslenzkt dýrt smjör, þá er það sitt hvað. Og sitt með hvoru verði. Það verður að flytja inn nægilegt magn af útlendu, ódýru smjöri, ef menn vilja spara fyrir ríkissjóð, og miða vísitöluna við það. Síðan getur hið dýra íslenzka smjör einnig verið á markaðinum. Annars finnst mér stappa nærri að vera broslegt, þegar verið er að tala um hættu fyrir markað á íslenzku smjöri, ef flutt er inn útlent smjör. Íslenzka smjörið ætti þá einhvern tíma að sjást. Það er í raun og veru verið að vernda svartan markað á íslenzku smjöri, ef ekki má flytja inn ódýrari sams konar vöru frá útlöndum. Mér finnst mönnum engin vorkunn að koma fram með sína vöru, þar sem eftirspurnin svarar ekki framboðinu og meðan hægt er að selja hana meira að segja hærra verði en opinbert verð á henni er. Það eru frekar smjörlíkisverksmiðjurnar, sem ættu að kvarta, því að menn kaupa útlenda smjörið í lengstu lög og nota í stað smjörlíkis á margan hátt. Enn fremur finnst mér það heilbrigðisráðstöfun og menningaratriði, að menn geti neytt smjörs í ríkum mæli, sem væri hægt með því að flytja inn þetta ódýra útlenda smjör.

Ég vil svo aðeins minnast á þann misskilning, sem hér hefur orðið vart um orðalag tillgr. (BSt: Ráðh. sagði, að þarna væri átt við útlenda smjörið). Þetta sýnir, að till. eru illa orðaðar, en annars ætti hv. þm. að vera orðinn það þingvanur, að oft er mjög erfitt að orða ákvæði svo að vel sé. Hann talaði um, að menn gætu misskilið það í 2. gr., þegar talað er um „af þessum vörum,“ og verð ég að játa, að ég er ekki eins ánægður með þetta orðalag eftir að hann benti á þetta.