06.12.1945
Efri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að svara hv. þm. Barð. miklu. Hann bröltir þarna í stömum sandinum og moldrokinu. Ef hv. þm. álítur, að menn séu ekki trúir stjórninni, ef þeir bera fram smávægilegar till., sem kunna að vera henni fremur andstæðar, þá fer hann þar villur vegar. Hitt er svo allt annað mál, ef hann vill fella stjfrv. sem þetta, sem hér liggur fyrir. — Hann taldi fjarstæðu, að ég skyldi halda því fram, að þetta væri smámál. En ég vil halda við þá skoðun, að þetta sé alls ekki stórmál. Hér er um að ræða að viðhalda ástandi, sem er. En ef ætti að fella þetta frv., þá er það stórmál. Að fella það er óhugsandi, nema eitthvað komi í staðinn. Það er á hans ábyrgð, en ekki okkar, og þá er það orðið að stórmáli. Ég skal gjarnan kalla þetta stórmál, ef hv. þm. (GJ) líkar það betur. En það er ekki stórmál, þar sem það kemur ekki með neitt nýtt. Til dæmis má nefna skattal., sem voru framlengd. Það var ekki stórmál, af því að það frv. var samþ., en ef það hefði verið fellt, þá var það um leið orðið að stórmáli.

Hv. þm. Barð. benti á húsaleiguna, sem ekki er lengur viðráðanleg. Eins og kunnugt er, vilja margir fá húsaleigul. afnumin. Ástandið í húsnæðismálunum er síður en svo gott. Fjöldi fólks liggur svo að segja úti vegna húsnæðisleysis, og ef hægt væri að safna skýrslum um þann glundroða, sem húsaleigul. hafa valdið, mundi mönnum alveg ofbjóða. Það er mjög stíft að setja þetta í samband við vísitöluna. Ég veit um embættismenn, sem flutt hafa í bæinn og verða að borga of fjár, til að komast inn í íbúðir og borga svo húsaleigu eftir mati.

Hv. þm. Barð taldi, að launal. hefðu slæm áhrif á hag landsmanna. Ég álít, að bændur og búalið þurfi ekki að kvarta í þessu efni. Ég held, að það sé ekki svo lítils virði, að kaupgetan sé í góðu lagi, og ef bændur eða aðrir kvarta í þessu efni, þá sjá þeir ekki nema aðra hlið málsins. Nú liggur fyrir að leysa vandræði heilla þjóða með því að hækka kaupið og auka þar með kaupmáttinn. Þannig er það til dæmis í Bandaríkjunum. Rúm kaupgeta er það bezta, sem framleiðendur geta kosið sér. En ef við svo verðum að klifra niður stigann, verðum við að fara allir í einum hóp. Um það er ég sannfærður. Hv. þm. Barð. talaði um það, að við þyrftum að fá ódýrari prófessora. Skyldu nú prófessorarnir setja landið á hausinn? Ég held, að prófessorar hafi haft mjög góða ástæðu til að fá kaup sitt hækkað, þeir höfðu ekki svo há laun áður. En þegar launalagafrv. var til umr. hér í þinginu, kom okkur hv. þm. Snæf. saman um að ýta ekki á eftir því, að laun prófessora yrðu hækkuð mikið, þótt hægt hefði verið að koma þeim upp í ein 12 þúsund. Þegar svo frv. var komið í gegn, höfðu laun þeirra ekki verið hækkuð frá því, sem upphaflega var gert ráð fyrir í því, þótt ýmsar aðrar stéttir hefðu fengið nokkra launaviðbót. Ég skal ekki sjá ofsjónum yfir því, þótt sjómenn í utanlandssiglingum hafi hærri laun en prófessorar. Hins vegar má líta á þann tíma, sem hvor þessara stétta þarf til að búa sig undir starf sitt. Til þess þurfa prófessorar um ¼ af meðalmannsævi, en hásetar, sem í Ameríkusiglingum hafa um 30 þúsund króna laun, þurfa engum tíma að eyða til undirbúnings lífsstarfs síns. Allur þorri landsmanna er þannig lægra launaður en hásetarnir. Svo eru það launalögin, sem allt ætla að drepa! Það er talað um hina miklu vissu hjá embættismönnum og mönnum með ákveðin laun. En það ná hvenær sem er breyta um, og hafa þeir því raunverulega enga vissu. Það má lækka laun þeirra og gera hvað sem vera vill við þá, alveg eins og alla aðra. Annars virðist það vafasamt að fara hér út í fjármálaumræður yfirleitt í þessu sambandi.

Við hv. 1. þm. Eyf. þarf ég nú raunar lítið að segja. Mér fellur þó illa, þegar hann er að tala um „nýsköpunarhjalið“, því að nú er þetta ekki lengur neitt hjal. Það er veruleiki, þegar beinlínis eru keypt skip fyrir tugi millj. kr. Og þar sem þetta er nú veruleiki, þá sýnir það, að það, sem ekki er enn þá komið til framkvæmda, getur eins orðið veruleiki. Ég heyrði nýlega mjög sniðuga þingvísu, þar sem talað er um nýsköpunina sem leiktjöld. En nú er þetta alls enginn leikaraskapur, því að staðreyndirnar tala sínu máli. Það eru keypt skip fyrir tugi millj. kr., og það er því úrelt að tala um „nýsköpunarhjal“. Það er eins og stóð í vísunni: „Það gengur kannske einu sinni, en svo aldrei meir.“ Þetta er annars mikið og flókið mál, ef fara á út í þá aðferð okkar að halda fjármálum okkar einangruðum frá umheiminum, og hvaða afleiðingar það hefði, ef leyft væri að flytja hvað sem er inn. Ég veit ekki, hvort bannað er að flytja inn húsgögn frá Svíþjóð. Mér finnst það mjög einkennilegt að segja, að innflutningur á smjöri skaði bændur, þegar miðað er við, að bændur eigi að geta selt allt sitt smjör. (BSt: Hvar eru ákvæði um það, að þeir geti selt allt sitt smjör?) Er nokkuð farið að bera á því, að smjör gangi ekki út? Ég veit ekki til þess, enda þótt erlent smjör væri fáanlegt með lægra verði, og menn hafa verið útspýttir eftir smjöri út um allar jarðir. (BSt: Það smjör hefur ekki sézt á Akureyri). Ég veit ekki, hvers lags atburðaleysi það er, að erlent smjör skuli ekki koma til Akureyrar. Kannske smjörið hafið myglað þar? Ef til vill eru Akureyringar svo vandlátir, að þeir vilji ekki annað en íslenzkt smjör. (BSt: Það hefur alls ekki verið flutt þangað). Ég veit ekki annað en að það sé flutt þangað og að Akureyringar hafi fengið smjörseðla eins og aðrir. (BSt: Já, smjörseðla, en ekki smjör). Kannske stjórnin eigi að láta smjörið upp í háttvirta Akureyringa? Er hv. 1. þm. Eyf. kunnugt um, að ekki sé farið að leita leiða í þessum efnum? Mér þykir líklegt, að það sé eitt af megináhugaefnum ríkisstj. að finna einhverja lausn á þessum málum. En hv. 1. þm. Eyf. ætti að vera það ljóst, að tíminn rétt fyrir kosningar er óheppilegur tími til þess að fjalla um þessi mál og að það þarf rólegri tíma til þess.