26.02.1946
Neðri deild: 75. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Frv. á þskj. 343 er til staðfestingar á brbl. frá 2. ágúst 1945. Frv. hefur farið í gegnum Ed. og hefur hlotið þar nokkrar breytingar. Helztu efnisákvæðin eru þessi: „Ríkisstjórninni er heimilt að verja fé úr ríkissjóði til þess að halda niðri dýrtíðarvísitölu á tímabilinu frá 15. sept. 1945 til jafnlengdar næsta ár, svo sem með niðurgreiðslum á tilteknum neyzluvörum eða á annan hátt.“ Þetta er raunar ekkert nýmæli. Hefur þótt nauðsyn að beita þessu til þess að hafa hemil á dýrtíðinni. Um þetta er líka ekki ágreiningur né skiptar skoðanir. Næstu tvö atriði brbl. eru nýmæli. 2. málsgr. 1. gr. hljóðar svo: „Ef vara er seld tvenns konar verði og niðurgreiðsla hefur farið fram á hæfilegu neyzlumagni vörunnar, að dómi ríkisstjórnar, skal vísitalan eingöngu miðuð við lægra verðið.“ Ekki var neitt frekar sagt í brbl. ríkisstj. En við umr. í Ed. var bætt við því ákvæði, þar sem ríkisstj. er skylt að sjá um, að hæfilegt neyzlumagn vörunnar, að viðbættum 25%, sé á boðstólum með lægra verðinu, og það er sett sem skilyrði fyrir vísitöluútreikningi. Ég er þeirrar skoðunar, að ákvæði þetta muni orka tvímælis. Sú vara, sem hér kemur einkum til greina, er smjörið. Ekki er hægt að segja, að erfiðleikum sé bundið að selja innlendu framleiðsluna. En ef svo færi, að mjólkurframleiðslan yxi eitthvað verulega og salan minnkaði, þá gæti svo farið, að salan á innlenda smjörinu torveldaðist. Meiri hl. Ed. hefur ekki séð hættu á þessu og reynslan bendir ekki til þess, að áttast þurfi sölutregðu á innlenda smjörinu.

Þá er í 2. gr. frv. nýmæli, þar sem sagt er: „Verðlag á kjöti af sauðfé, sem slátrað er til sölu á tímabilinu frá 1. ágúst til 20. september 1946, og á kartöflum, sem teknar eru upp og seldar á sama tíma, skal eigi hafa áhrif á vísitöluna, enda sé á boðstólum nægilegt magn af þessum vörum með því verði, sem reiknað er með í vísitölunni.“ Í brbl. stjórnarinnar var ekki tekið neitt fram um „hið nægilega magn,“ en Ed. hefur aukið málsgr. m. a. um þetta. Ég býst ekki við, að það hafi neina praktíska þýðingu, hvor aðferðin er höfð. Stjórnin mun hlutast til um, að nægilegt magn af kjöti sé til. Ég sé ekki, hvaða skynsemd er í því að hindra, að sumarslátrun fari fram.

Ég legg höfuðáherzlu á, að reynt verði, að ketbirgðir verði geymdar. Það var gert í sumar eð var og kostaði að vísu dálítið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en vil leggja til, að málinu verði vísað til fjhn.