26.02.1946
Neðri deild: 75. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins gera örstutta athugasemd. Einn af aðalforustumönnum Sjálfstfl. hefur sagt um verðbólguna m. a., að hún hafi fram að þessu aðeins verið til góðs, en það úir og grúir af slíkum ummælum, hvar sem niður er borið upp á síðkastið. Og ég sagði áreiðanlega ekki of mikið, þegar ég lýsti því, hvernig viðhorfið hefur breytzt að þessu leyti og hvað mönnum hefur verið sagt undanfarið.

Ráðh. hefur sagt, að verðbólgan hafi verið notuð til þess að dreifa stríðsgróðanum. Ég álít þetta blekkingu. Verðbólga getur aldrei dreift neinum gróða, og það mun sýna sig, að það er ekki almenningur, sem hefur grætt á verðbólgunni, heldur braskararnir, það eru aðrir en almenningur, sem hafa makað krókinn. Að vísu má finna bændur, sem hefur gengið fljótar að borga skuldir sínar vegna verðhækkunar í landinu, en þetta hefur síður en svo orðið til hagnaðar fyrir landbúnaðinn í heild, og er það engum efa bundið, að hann á enn þá eftir að stórtapa á verðbólgunni. — Sama verður uppi á teningnum þegar litið er á verkamannastéttina sem heild, og svo mætti lengi telja. Og víst er um það, að verðbólgan skapar nýja öreigastétt, þeirra útskúfuðu, þeirra, sem verða að búa við þetta nýja verðlag, en taka laun og aðrar greiðslur eftir hinum eldri mælikvarða, menn, sem verða að sitja við húsnæðiskjörin nýju, en eru launaðir eins og aðrir.. Það er verið að skapa nýja stétt útskúfaðra, þeir lifa í öðru þjóðfélagi en áður, og þetta er einhver andstyggilegasta afleiðing þess, hvernig á þessum málum hefur verið haldið, og þó er ekki búið að bíta úr nálinni með það enn þá. Ég er ráðh. ósammála um það, að almenningur hafi ekki skilning á þessum málum. Má vera, að svo hafi verið að einhverju leyti framan af, en ég held, að skilningur manna hafi aukizt. Ég fullyrði og tel reynsluna raunar hafa sýnt það, að framleiðslan hefur ekki þolað það kaupgjald, sem hefur verið síðustu missiri. Hef ég fært rök fyrir því, en reynslan sýnir það bezt, þegar menn fara um landið og sjá, hvernig ástatt er og hvaða kjör framleiðendur eiga við að búa. Það er ekki að marka togaraútgerðina, því að hún hefur sérstöðu í þessum efnum.

Það er ekkert ósamræmi í því að vara við verðbólgunni og krefjast lækkunar á henni, en beita sér á móti því, að lækkað sé hjá einni stétt þegar aðrar stéttir fá hækkun. Ég mælti á móti því síðastliðið haust og í því er ekkert ósamræmi frá minni hendi.

Ráðh. talaði um skattana, og ég get undirstrikað að lokum, að einhver háskalegasta afleiðingin af því, hvernig komið er, er sú, að erfitt verður að lækka skattana, og má búast við, að það verði óviðráðanleg þraut á næstu missirum að sjá fjárhag ríkisins borgið, nema þá með sérstökum róttækum ráðstöfunum, sem ég hef minnzt á áður í þessari umr, og vafalaust verður að grípa til, ef það á að verða hægt að koma tauti við nokkuð.

Ráðh. sagði, að ríkisstj. gerði ráðstafanir til þess, að nýbyggingarsjóðirnir komi sem áhættufé inn í nýsköpunina. Þetta eru óljós orð, en ég vænti þess, að ríkisstj. sé þá að gera ráðstafanir til þess, að nýbyggingarsjóðirnir komi sem áhættufé inn í nýsköpunina, og þá er ástæða til að fagna því, ef svo er.