25.03.1946
Neðri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur legið fyrir þinginu í allan vetur og er nú ekki komið lengra en raun ber vitni. Það er stutt síðan fjhn. hefur fengið það til meðferðar og athugunar, en hún gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Fjórir nm. mæla með því, að frv. verði samþ., óbreytt, en einn nm. (SkG) leggur til, að á því verði gerð breyt. þannig, að á eftir 2. gr. komi ný gr., svo hljóðandi:

„Skipa skal 5 manna nefnd á þann hátt, að hagstofustjóri er sjálfkjörinn, og er hann formaður nefndarinnar, en 4 nefndarmanna eru tilnefndir af þingflokkunum, einn frá hverjum.

Verkefni nefndar þessarar er að athuga og gera tillögur um lækkun dýrtíðar í landinu, með þátttöku allra þjóðfélagsstétta, meðal annars með lækkun á verði innlendra neyzluvara, lækkun kaupgjalds, verzlunarkostnaðar, farmgjalda, byggingarkostnaðar og iðnaðarvara. Jafnframt geri nefndin tillögur um framkvæmd þess að miða laun og kaupgjald við tekjur þjóðarinnar af vöruframleiðslu. Þá skal nefndin og gera tillögur um sérstakt allsherjarframtal eigna í landinu og álagningu skatta á stórgróða, sem orðið hefur hjá skattskyldum aðilum á stríðsárunum.

Nefndin getur ráðið sér sérfróða aðstoðarmenn eftir þörfum, og greiðist kostnaður af því svo og annar kostnaður við nefndina úr ríkissjóði.“

Þetta er sú viðbót, sem hv. þm. V.-Húnv. vill bæta við frv., og er það í samræmi við það, sem hv. 1. þm. Eyf. lagði til í Ed., en hann var þó dálítið á öðru máli en flokksbróðir hans hér í Nd., því að hann vildi ekki halda niðurgreiðslum áfram lengur en til 15. febr. í vetur. Hann vill fella niður 2. málsgr. 1. gr. frv. Hv. framsóknarmenn hér á Alþ. munu víst margir vera á sama máli og hv. 1. þm. Eyf., og þannig reyndust a. m. k. allir Framsfl.þm. í Ed. Og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Framsfl. hér í hv. d. verði með í því að vera á móti, að frv. fari til 3. umr., þeir munu vera sama sinnis og hv. 1. þm. Eyf. En ég skil satt að segja ekki þá miklu andúð, sem þessir hv. þm. hafa á þessu frv. Hvað er að segja um 1. gr. frv.? „Ríkisstj. er heimilt að verja fé úr ríkissjóði til þess að halda niðri dýrtíðarvísitölunni á tímabilinu frá 15. sept: 1945 til jafnlengdar næsta ár, svo sem með niðurgreiðslum á tilteknum neyzluvörum eða á annan hátt.“ Ég hygg, að það séu flestir sammála um það, að eins og sakir standa, verði ekki hjá því komizt að halda dýrtíðarvísitölunni niðri eftir föngum með fjárgreiðslum úr ríkissjóði. Það var byrjað á því að fara þessa leið árið 1943, til þess að stöðva vísitöluna, það liggja fyrir nú alveg sömu ástæður og þá.

Þá er önnur málsgr. 1. gr.: „Ef vara er seld tvenns konar verði vegna ráðstafana ríkisstj. og hún sér um, að hæfilegt neyzlumagn vörunnar, Og ekki undir því magni, sem reiknað er í vísitölu, að viðbættum 25%, sé á boðstólum með lægra verðinu, skal vísitalan eingöngu miðuð við það.“ Ég held nú satt að segja, að það sé ekki ástæða til fyrir umboðsmenn framleiðenda að hafa á móti þessu atriði frv. Það er kunnugt, að undanfarin ár hefur, ef svo mætti segja, verið sölubann á sumarslátruðu dilkakjöti vegna þess, að þegar dilkar eru hálfvaxnir þegar þeim er slátrað, verður kjötið óhjákvæmilega að vera dýrara á þeim tíma en eftir að venjuleg sláturstíð er byrjuð. Mögulegt var um nokkurra ára skeið að fá sumarslátrað kjöt, og það var vegna þeirra brbl., sem þá voru gefin út. Á síðast liðnu sumri var einnig á boðstólum frosið dilkakjöt, sem selt var á lægra verði, og neytendur réðu sjálfir, hvort þeir keyptu dýrara nýslátrað kjöt eða ódýrara kjötið frá haustinu áður. Ódýrara kjötið var látið ganga inn í vísitöluna, en ef það dýrara hefði verið látið ganga inn í vísitöluna, hefði hún hækkað, að mig minnir, um 18–20 stig. Það sjá allir sjálfir, hve mikil fjarstæða það hefði verið að láta vísitöluna hækka svo stórkostlega vegna svo tiltölulega lítils magns af nýslátruðu kjöti og með því binda ríkissjóði svo mikil útgjöld með því að borga vísitöluna svo mikið niður, vegna þess að nýtt kjöt væri einnig til sölu á markaðinum. Og ljósasta dæmi um það, hve mikil nauðsyn er á þessu ákvæði frv., er t. d. kartöflurnar frægu, sem komu á markaðinn í ágúst 1943 eða 1944. En þessir fáu kartöflupokar hækkuðu vísitöluna, að mig minnir, um 5 stig. Á s. l. sumri kom þetta ekki til greina, vegna þess að frv. þetta, sem er verið að ræða, snertir líka hálfvaxnar kartöflur, sem seldar eru hærra verði en venjuleg kartöflu. uppskera. Ég held því, að það sé ástæða til þess að fagna því samkomulagi, sem náðist hvað þetta snertir, og að það skuli vera hægt að hefja sumarslátrun eins og var, áður en vísitölufarganið kom, og að það skuli vera leyft að selja kartöflur fyrir venjulegan uppskerutíma. Og ég held, að þetta atriði sé til góðs bæði fyrir framleiðendur og neytendur og geti komið í veg fyrir ýmiss konar misskilning, eins og komið hefur fyrir sérstaklega hjá neytendum, þegar þeir hafa ekki átt þess kost að fá kjöt og kartöflur úr sveitum. Bændur ættu vitanlega að fagna því líka, að þeir skuli geta komið dilkunum á markað og fengið gott verð að sumrinu fyrir þá, og að ærnar geti fitnað og verið betur undir veturinn búnar en ef það dregst langt fram á haust að taka dilkana undan ánum. Ég veit, að s. l. sumar voru það margir bændur hér í nágrenni Reykjavíkur, sem losuðu sig við dilkana, og þeir fögnuðu því mjög og töldu það stóra bót frá því, sem áður var.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. að svo stöddu. Ég vil aðeins segja nokkur orð um till. hv. þm. V.-Húnv. Ég efast ekki um, að hún er borin fram í góðum tilgangi, en ég verð að segja, að ég hef litla trú á því, þó að skipuð væri n. í þessu skyni, eins og til er ætlazt samkv. till. hv. þm. — Dýrtíðin hefur verið mikið umtöluð s. l. ár og s. l. mánuði, og það hefur vexið talað um hana sem sérstakt þjóðarböl. Það er nú svo. Ég ætla ekki að fara að halda hér langa dýrtíðarræðu, en ég vil minna á það — og við bændafulltrúarnir ættum að vera þess minnugir —, að það hefur verið reynt að komast að samkomulagi um niðurfærslu kaupgjalds og afurðaverðs. En það hefur ekki gefizt. Og ég held að enn sé ekki kominn sá tími, að það sé mögulegt að fá slíkt fram. Hv. þm. talar um, að bátaútvegurinn sé illa kominn og ríkisstj. hafi nú við síðustu áramót orðið að taka ábyrgð á fiskverðinu til þess að fá bátana til að fara á flot. Þetta er nú rétt, og við síðustu áramót var útlitið mun verra, hvað snertir bátaútveginn og markaðshorfur, en nú. Nú er útlitið þannig með sölu á fiskafurðunum, að þær séu allar stórhækkandi, og nú þegar er búið að selja töluvert af fiskmagni fyrir það verð, sem ríkisstj. hefur ábyrgzt útgerðarmönnum. Það út af fyrir sig, að útlitið hefur batnað með söluna, dregur vitanlega úr verkalýðnum að ganga að nokkrum kröfum um kauplækkun. Ég býst við því, að meðan launþegar geta bent á það, að atvinnuvegirnir standi undir þeim kostnaði, sem þeim er búinn með því kaupgjaldi, sem nú er, þá standi nokkuð líkt á nú og 1943, þegar byrjað var á því að greiða niður vísitöluna, og það muni þá heldur ekki fást nú, vegna þess að hægt er að benda á, að atvinnuvegirnir þrátt fyrir allt standa undir þeim kostnaði, sem á þá er lagður. Það má líka benda á fleira en þetta. Það má benda á hina miklu atvinnu, sem nú er í landinu. Setuliðið er að vísu farið nú og það kaupir ekki íslenzkt vinnuafl, en afleiðingar setuliðsins eru hér enn. Meðan setuliðið sogaði til sín fólk hvaðanæva af landinu, þá fjölgaði fólkinu yfirleitt í bæjunum, en af því skapaðist svo aftur húsnæðisleysi og vandræði, og vegna þessa húsnæðisleysis hefur verið rekið meira á eftir en nokkru sinni áður um húsbyggingar í kaupstöðunum. Það er þess vegna þannig nú ástandið, að hver, sem vill og hefur hamar og sög, getur nú fengið atvinnu við húsbyggingar og hærra kaup en taxti Dagsbrúnar segir til, aðeins ef hann vill vinna. Á meðan eftirspurnin er svo geysimikil eftir verkamönnum, ekki aðeins fyrir taxtakaup, heldur og fyrir hærra kaup en Dagsbrúnartaxtann, þá er ekki kominn grundvöllur eða tími til þess að semja um lækkun á kaupi. Þetta held ég, að við getum verið sammála um, hv. þm. V.-Húnv. og ég. Enda þótt við séum báðir þess sinnis, að við teldum rétt að hafa tilkostnaðinn við atvinnureksturinn minni og ágóða atvinnutækjanna meiri, þá þýðir ekki annað en að játa þá staðreynd, að við stöndum í dag nákvæmlega í sömu sporum og 1943, þegar sú leið að greiða niður verð landbúnaðarvara var farin og ekki fannst önnur betri. Það er þess vegna engin lausn, sem hv. þm. V.-Húnv. bendir á, þegar hann talar um það að kjósa nefnd.

Ég tel nú ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta frv. að svo stöddu. Ég tel, að till. hv. þm. um nefndarskipun sé gagnslaus. Þetta gæti haft töluverðan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, og af því að till. er gagnslaus, tel ég ekki ástæðu að samþ. hana, en tel hins vegar, að eins og málefni standa til, sé ekki um annað að ræða en að samþ. frv. óbreytt.