25.03.1946
Neðri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. ráðh. hóf ræðu sína á því að segja, að það væri ekki aðalefni þessa frv. að heimila ríkisstj. að greiða niður dýrtíðina. Heldur væri 2. gr. aðalefni frv. Ég skal ekki deila um þetta við hæstv. ráðh. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að það sé rétt, sem ég sagði áðan, að niðurgreiðslurnar hefðu verið stríðsfyrirbrigði, sem ætti ekki að halda áfram til lengdar. Hæstv. ráðh. sagði, að aðrar þjóðir hefðu orðið að grípa til þessara sömu ráða, en hélt því jafnframt fram, að keppa bæri að því, að niðurgreiðslurnar hyrfu, og kvað þegar hafa nokkuð áunnizt í því efni, en rökstuddi það ekki nánar. Það er rétt, að niðurgreiðslurnar hafa verið lækkaðar nokkuð með því móti að svipta bændur því, sem þeim bar, og með því að flokka neytendur í verðuga og óverðuga, en ekki eftir efnahag eða gjaldþoli.

Þá sagði hæstv. ráðh., að afurðaverðið hefði hækkað frá árinu áður eftir vísitölu. Þetta er slíkt ranghermi, að mig furðar stórlega á, að hæstv. ráðh. skuli láta það sér um munn fara. Það er kunnugt, að í fyrra var samið um útflutningsuppbætur, en svo lætur stjórnin sér sæma að fella niður útflutningsuppbæturnar, án þess að hækka innanlandsverðið. Og síðan bætir hæstv: ráðh. — gráu ofan á svart með því að segja, að verðið hafi hækkað. — Þá minntist hæstv. ráðh. á byggingarkostnaðinn, og féllu ummæli hans á þá leið, að húsaleiguvísitalan yrði að halda áfram að vera röng. Hann orðaði það að vísu ekki svo, en það hlaut að vera meiningin. — Þá óskaði hæstv. ráðh. eftir skýringum varðandi till. mína um eignaframtal. Ég hygg, að hæstv. ráðh. sé kunnugt um, að mikið vantar á, að rétt sé talið fram. Núgildandi ákvæði í skattalöggjöfinni gefa ekki nógu víðtækar heimildir til eftirgrennslana í því efni. Hæstv. ráðh. veit, að til eru leiðir til að fá þetta lagfært, og ef hæstv. ráðh. telur sig þurfa að leita til mín um úrræði, þá er ég fús til að gefa honum ráð, en ég sé ekki ástæðu til að ræða það atriði nánar hér. — Hæstv., ráðh. hélt því fram, að enda þótt rétt væri að samþ. brtt. mína, þá ætti hún ekki heima í þessu frv. Ég ætla, að það skipti ekki máli, hvort till. er samþ. þannig eða í þál. Ákvæðið um skipun 6 manna n. kom fram í lögum, og á sama hátt mætti samþ. þetta á þann hátt, sem ég legg til. Þá kvaðst hæstv. ráðh. fús til að ræða þetta mál, ef till. væru bornar fram þar um af einlægni. Nú vil ég spyrja hann, hvaða ástæðu hann hafi til að ætla, að ég beri till. mína ekki fram í einlægni. Ég vil eindregið mótmæla slíkum aðdróttunum og tel þær ekki sæmilegar. Hitt voru mér vonbrigði, að hæstv. ráðh. skyldi taka þannig í málið, og hann skuli ekki vilja vinna að því, að horfið verði frá slíku óyndisúrræði, sem niðurgreiðslurnar eru.