25.03.1946
Neðri deild: 94. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

4. mál, dýrtíðarvísitala

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Hv. 2. þm. N.-M. bar fram fyrirspurn til mín. Hún var á þá leið, á hverju ég byggði það, að ríkissjóður mundi verða skaðlaus af þeirri ábyrgð, sem hann hefur tekið á sig gagnvart sjávarútveginum. Ég sagði ekki meira en að það liti út fyrir það og byggði það á því, að það, sem hefur selzt af frosnum fiski, sem er aðalatriðið, hefði verið selt fyrir nokkru hærra verð en þyrfti að vera til þess, að ríkissjóður yrði hallalaus. Það er ekki nema lítið, sem þegar hefur verið selt, en það kemur þó til með, þegar til verðjöfnunar kemur, að gefa betri vonir um, að útkoman verði sæmileg. Um saltfiskinn er það að segja, að það hafa verið seldar 3 þús. lestir fyrir sama verð og ríkisstj. hefur tekið ábyrgð á. Það er rétt, að það verður einhver umboðskostnaður, sem dregst frá, en það skiptir ekki máli í þessu sambandi,. þó að það þurfi að greiða nokkur þúsund í umboðskostnað.

Út af því, sem hann að öðru leyti sagði í ræðu sinni, vil ég aðeins beina því til hans, hvort hann vill ekki athuga til 3. umr., hvort sjóðirnir voru gildari hjá bændum, þegar hann skammtaði þeim kaup, en nú, meðan ég geri það, eins og hann kallar það.