21.03.1946
Efri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

2. mál, eignarnám lóðarréttinda og mannvirkja á Siglufirði

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það frv., sem hér liggur fyrir. Það er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 31. maí s. l. fyrir beiðni stjórnar síldarverksmiðja ríkisins og heimila að taka eignarnámi þær lóðir, sem taldar eru nauðsynlegar vegna byggingar þeirrar nýju síldarverksmiðju, sem nú er verið að reisa á Siglufirði. Stjórn síldarverksmiðjanna gat, eftir því sem segir í grg. fyrir frv., ekki komizt að samkomulagi um að fá rétt yfir þessum lóðum með öðrum hætti, og var þess vegna talið nauðsynlegt að gefa út þessi bráðabirgðalög.

Allshn. þessarar d. hafði óskað eftir því að fá nánari upplýsingar um þær samningaumleitanir, sem fram höfðu farið um þetta, og afgreiðsla málsins dróst nokkru lengur í n. af þeim sökum, að verið var að bíða eftir þessum upplýsingum. En það fór svo, að n. voru ekki látnar þessar upplýsingar í té, en hins vegar taldi hún, að megi ganga út frá því, að gert hefði verið það, sem hægt var að ætlazt til, til þess að samkomulag næðist, og að brbl. hefðu ekki verið gefin út, fyrr en full nauðsyn var á að gera það. Allshn. leggur því til, þrátt fyrir það, að hún hefur ekki fengið þessar upplýsingar, að frv. verði samþ. óbreytt.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið.