21.03.1946
Efri deild: 89. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

2. mál, eignarnám lóðarréttinda og mannvirkja á Siglufirði

Gísli Jónsson:

Mér þykir eiginlega meðferð þessa máls öll ákaflega einkennileg. Allshn. hefur þótt ástæða til að geyma málið hér frá því 9. okt. s. l. ár, og ég sé ekki annað en að þessi dráttur á málinu stafi beinlínis af því, að hún hefur talið, að þetta væri svo mikilsvert fyrir Alþingi að vita um þetta atriði, sem hún hefur óskað eftir, en ekki fengið upplýsingar um. Ég vil því mælast mjög til þess, að n. geri enn ítrekaðar tilraunir til þess að fá þessar upplýsingar, áður en málið er afgr. frá deildinni.

Ég mun greiða þessu frv. atkv. til 3. umr., en ég vona, að fyrir þá umr. verði upplýst um þetta mál og sérstaklega þó það, sem er hér næst á dagskrá, frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka á leigu geymsluhús Tunnuverksmiðju Siglufjarðar, af því að þar er um leigunám að ræða, því að á þeirri braut verður að ganga svo skammt sem kostur er.