11.04.1946
Neðri deild: 107. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

2. mál, eignarnám lóðarréttinda og mannvirkja á Siglufirði

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Það er aðeins út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, að í þessu máli hefði ekkert verið gert til þess að reyna að ná samkomulagi um kaup á eignunum. Mér er sagt, að hann muni eiga þar við lóð undir Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði. En þannig var málum háttað, að stjórn síldarverksmiðjanna þurfti að kaupa þarna margar lóðir til þess að byggja á þessa verksmiðju, sem nú er verið að byggja. Og þessari lóð, sem hér er um að ræða, var haldið í svo háu verði og miklu hærra verði en öðrum lóðum, sem komu þarna til greina, og því var ekki hægt fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins að kaupa á sama tíma lóðir, sem liggja mjög svipað og eru að öllu leyti sambærilegar, fyrir mjög miklu hærra verð en hinar, sem frv. fjallar um. Og þar sem sýnilegt var, að ekki var um neitt samkomulag að ræða, var ekki önnur leið fyrir hendi en að fara eignarnámsleiðina. Og bygging tunnuverksmiðjunnar byggist á því, að hægt sé að rífa burt part af mjölgeymsluhúsi Síldarverksmiðja ríkisins, og þá þurfti að grípa til geymslupláss annars staðar. Og þá var ekki til annað hús en ónotað hús Tunnuverksmiðju Siglufjarðar, en það var enginn maður til hér á landi þá til þess að semja um slíkt. Stjórn tunnuverksmiðjunnar hafði veitt manni erlendis fullt og óskorað umboð til þess að semja og koma fram fyrir verksmiðjunnar hönd að öllu leyti. Það var því enginn möguleiki til þess að semja um þetta og ekki um annað að ræða en eignarnám. Þetta kom ekki í bága við rekstur félagsins, sem rekur tunnuverksmiðjuna.