15.03.1946
Efri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

115. mál, tunnusmíði

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. um innlenda tunnusmíði. Í nokkur ár fyrir stríð voru reknar tunnuverksmiðjur, þrjár á Siglufirði og ein á Akureyri. Reynslan varð sú, að hægt væri að smíða hér tunnur, sem væru sambærilegar við útlendar. Útlendir síldarkaupmenn höfðu tíðum þann hátt að flytja inn með sér tunnur og selja þær hér við vægu verði. Þetta gerði tunnuverksmiðjunum erfitt fyrir. Það verður ekki hægt að reisa tunnuverksmiðju nema ríkið styrki hana. Gert er ráð fyrir samræmingu í tunnusmíði. Akureyrarkaupstaður eigi sína tunnuverksmiðju, en ríkið hefur keypt verksmiðjuna á Siglufirði. Með samræmingu yrði reksturinn hagkvæmari t. d. með kaup á efni og annað slíkt, en til þess þarf góð geymsluhús. Það er nú verið að byggja húsnæði á Siglufirði í þeirri verksmiðju, sem þar er. Verið er og að vinna úr því efni, sem keypt var á síðast liðnu hausti. Hægt er að hafa sömu verksmiðju og nú er á Akureyri, en á Siglufirði verður að byggja nýtt hús, því að síldarverksmiðjur ríkisins verða að fá þá lóð, sem hún stendur nú á, enda hættulegt að hafa tunnuverksmiðjur við gínandi síldartanka.

Í Nd. var gerð breyt. á 5. gr. frv. Það var um að setja sérstaka stjórn fyrir tunnuverksmiðjurnar. Ástæðan fyrir því, að það var ekki ákveðið strax, er sú, að það fer eftir áliti manna, hvort reka skuli verksmiðjurnar í samvinnu við bæjarfélögin. Á Akureyri hefur það verið gert, að skipt hefur verið um menn í verksmiðjunni þar með vissu millibili, vegna atvinnuspursmálsins.

Ég tel óheppilegt, að síldarútvegsnefnd hafi stjórn í þessu máli, af ýmsum ástæðum. — Þeir, sem keypt hafa síld hér, útlendingar, hafa finanserað síldarsöltun sína með því að selja tómu tunnurnar á haustin. Það er ekki gott fyrir síldarútvegsnefnd að standa í þeim brösum. Þótt gert sé ráð fyrir í frv., að smíða eigi síldartunnur, þá er ekkert eðlilegra en að fleiri tunnutegundir verði smíðaðar í verksmiðjunum. Ef lýsisherzlustöð verður sett upp hér, verður að smíða undir það sérstakar tunnur. E. t. v. væri rétt að skipa sérstaka n. til að ræða við bæjarfélögin.