15.03.1946
Efri deild: 85. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

115. mál, tunnusmíði

Gísli Jónsson:

Að fengnum þessum upplýsingum tel ég nauðsynlegt að breyta ákvæðum 1. eða 2. gr., þar sem sagt er í 1. gr., að í þetta skuli ekki ráðizt, fyrr en rannsókn hafi farið fram. Hitt atriðið, hvort átt sé við tré- eða stáltunnur, skiptir ekki máli, þótt rétt væri, að það væri tekið fram.

Ég er ekki sammála hæstv. ráðh. um skattfrelsið. Sé 1. gr. frv. fullnægt, á fyrirtækið að greiða skatta, en ef á að gefa fyrirtækinu allt, þá er 1. gr. ekki fullnægt. Ég tel, að það geti ekki gengið, að komið sé á fót fyrirtækjum á kostnað þegnanna og þau síðan látin keppa við þegnana, sem bera þau uppi.

Rök hæstv. ráðh. um vetrarvinnuna álít ég ekki fullnægjandi. Fyrirtækið hlýtur að hafa fasta starfsmenn og þá aðallega iðnaðarmenn, sem stunda ekki aðra vinnu. Ég sé ekki, að gert sé ráð fyrir, að hér eigi að stofna til neinnar atvinnubótavinnu, og sé svo ekki, þá álít ég, að þetta fyrirtæki eigi að bera skatta eins og önnur.