15.02.1946
Neðri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Gísli Sveinsson:

Það er fyllilega rétt hjá hæstv. ráðh., eins og líka kemur fram í grg, frv., að 1944 hafði komið fram till. um gistihúsbyggingu í Reykjavík. Nauðsyn þessa máls er öllum ljós, að bætt sé úr gistihúsakosti hér í bæ, því að þó að hér séu gistihús og eitt þeirra leiðandi, hefur það hrokkið skammt upp á síðkastið, sem líka er eðlilegt eftir aðstæðum. Þótt þörfin sé brýn, er þó athugandi, hvernig haga beri þessu máli, hvort hið opinbera eigi að skerast í leikinn. Má segja, að það sé eðlilegt, að hið opinbera taki þetta mál í sínar hendur, þó að reynslan af því sé ekki alltaf eins góð.

Það liggur í augum uppi, að þetta gistihús, sem eftir þessu frv. er fyrirhugað að byggja, yrði ekki neitt almenningsgistihús, enda er hæstv. ráðh. ekkert að leyna því. Tilgangurinn með þessu gistihúsi er fyrst og fremst að hýsa útlenda ferðamenn og þá aðra, sem fjármagn hafa til þess að búa á dýrustu gistihúsum. Það bíður því eftir sem áður, þó að þetta gistihús verði reist, að sjá fyrir þörfum alls almennings, sem hér hlýtur að eiga mikinn hlut að máli. Flestir, sem búa úti á landi, eiga einhver erindi að reka hér í höfuðstaðnum. Þetta hús yrði alls ekki fyrir þorra þeirra, heldur fyrir auðkýfinga og þá, er eiga fljótandi auðæfi. Ég skal ekki fárast út í það, þó að reynt verði að koma upp góðum gististað í þessum bæ, en mér finnst rétt að láta það koma fram hér í upphafi, að þetta hótel, sem hér um ræðir, verður „luxus“gistihús. Nú segir ráðh., að það verði varla um að ræða, að höfuðstóllinn kæmi aftur sem slíkur enda hefur sú verið reynslan. Jafnvel Hótel Borg hefur ekki fengið sinn höfuðstól greiddan, því að þótt veltan sé mikil og ágóði nokkur, er hann ekki nægilegur til þess að afplána höfuðstól. Mikið af tekjunum fer í gjöld og skatta, auk þess sem mikið fé þarf til að dytta að slíku húsi, ef vel á að vera. Ríkið er því að leggja í fyrirtæki, sem það gefur til. Nú má segja, að svo sé ástatt í landinu, að hægt sé að ráðast í byggingu slíks húss, og gistihús eins og Hótel Borg hefði ekki verið hægt að reka, hefði það ekki notið slíkra hlunninda, og vitanlegt er, að það að láta áfengið fljóta inn og út, er það eina, sem gistihús fyrsta flokks geta lifað og þróazt á út um allan heim. Menn þurfa ekki að taka sér það nærri, því að svona er þetta um allan heim, ekkert hótel eða bindindishótel hefur þrifizt um víða veröld nema með styrk, en hin hótelin hafa þrifizt, af því að þau hafa haft áfengið. Ég held það væri rétt að láta þetta gistihús fá áfengið til þess að halda sér eitthvað uppi á því. Þetta er líka atriði, sem menn verða að gera sér ljóst í upphafi, enda hygg ég, að hæstv. ráðh. hafi gert sér þetta ljóst. Ég sagði áðan, að það hlyti að vera hugur þeirra, sem hér standa að, að þetta sé almenningsheillamál, til almenningsþarfa. Ég raunar vil ekki dæma hart í byrjun málsins, en samkvæmt því, sem ég hef þegar látið ummælt, tel ég þetta ekki neina almenningsþörf framar ýmsu öðru, sem byggt er, og þó er ekki til almenningsþarfa. Ég hef sýnt fram á, að þetta hús hljóti að verða dýrt, en fullnægi þó ekki öllum almenningsþörfum.

En nú kem ég inn á þetta, með því að 5. gr. kemur inn á þetta svið og með harðara móti, og hæstv. ráðh. fór lauslega yfir þessa gr., þó ekki til að leyna því, sem þar stendur skrifað. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar 5. gr. svo:

„Ríkisstjórninni er heimilt að taka eignarnámi lóðir, hús og mannvirki eftir því, sem hún telur þurfa undir gistihúsið og því til afnota. Fer um það eignarnám eftir lögum nr. 61 14. nóv. 1917.“ Þetta mætti segja, að sé nokkuð hart að kveðið, því að eins og kunnugt má vera, þá er þetta ákvæði, sem vísað er til, nú í 67. gr. stjskr., og hefur verið talið, að það mætti ekki nota þetta ákvæði nema í ýtrustu almenningsnauðsyn, enda segir svo í þeirri gr., með leyfi hæstv. forseta: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eignir sínar, nema almenningsþörf krefji.“ Þetta hefur verið varnarmúrinn, óhjákvæmileg viðbót við yfirlýsingu, sem stjórnarlögin greina, að eignarrétturinn sé friðhelgur. Nú vil ég láta þess getið þegar, og það er þá til leiðbeiningar fyrir þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, og einnig til íhugunar fyrir stj., að ég tel hér farið of langt í þessu efni. Mér virðist sem sé í þessu tilliti, þegar þessir aðilar standa að, þá sé það úr hörðustu átt að fara inn á þetta, með því að ég veit ekki, hverjir í þessum bæ, ráða meiru um lendur og lóðir en bæjarstj. og einnig þá í sambandi við það, eins og kringumstæður eru, ríkisstj. Því að kunnugt er það, að ríkisstj. er mjög í samráði við slíka aðila sem bæjaryfirvöld í höfuðstaðnum, enda mjög mikið samband og eðlilegt í öllum viðskiptum þar í milli. Það er því eftir að sanna, að fullnæging allra ákvæða stjórnl. sé hér fyrir hendi, sem sé, að almenningsþörf sé fyrir hendi, það er ósannað, og með þeim hætti, sem hér er lagt til, tel ég ekki hægt að sanna það. — Ég þykist vita, að hæstv. ráðh. séu að ræða þessi mál sín á milli, en mér þykir ekki eðlilegt, að þegar ég tala til hæstv. ráðh. í vinsamlegum tón um þetta mál, þá séu umr. þeirra á milli líka, og er þetta ekki í fyrsta skipti sem hæstv. ráðh. ræða saman, þegar aðrir tala við þá.

Nú skulum við taka aðra hlið á málinu, sem sé þá, að stj. og þessir opinberu aðilar standi nú ekki fyrir þessu, heldur setji það í hendur einstaklinga eða niðurstaðan yrði sú, að einhver einstaklingur vildi reisa gistihús, því að það hefur ekki farið dult þessi ár, að stríðsgróðamenn hafa viljað reisa gistihús, ef góð lóð fengist. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Fá þessir einstaklingar, ef það hefst í gegn, að hægt er að telja þetta almenningsþörf og taka eignarnámi, þau hlunnindi fram yfir alla aðra að ná í lóðir og hús annarra manna hér í þessum bæ með einföldu ákvæði l., þar sem vitnað er til stjórnlaga? En þá færi að hallast nokkuð á milli þeirra, sem eiga að framkvæma, og hinna, sem eiga að þola.

Það, sem ég hef hér látið um mælt, er til athugunar fyrir hæstv. stj., sem vill taka málið traustum höndum, og fyrir þá aðila, sem hér á þingi fjalla um þetta mál, og þá sérstaklega þá n., sem málinu verður vísað til, sem verður allshn. Tel ég þá ekki, á þessu fyrsta stigi málssins, þörf að taka fleira fram. Ég er hlynntur málinu í höfuðatriðum, að þetta sé gert á einn eða annan hátt, þó að mér ofbjóði, að hið opinbera ráðist í þetta, áður en kannað er til hlítar, hvort ekki mætti koma því fyrir á einhvern annan hátt, því að þetta fullnægir engan veginn þörf alþýðunnar, og svo loks finnst mér hér of langt gengið til þess að koma þessu fram.