05.04.1946
Neðri deild: 103. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson) :

Ég skal reyna að svara þessum spurningum. En mér þætti gott að heyra frá hv. 4. þm. Reykv., sem nú er form. fjhn., hvort n. hefur tekið fyrir málið sem ég minntist á áðan.

Út af fyrirspurnum hv. 2. þm. S.-M. vil ég segja það, að afhending flugvallarins hefur ekki enn farið fram, en íslenzkir starfsmenn hafa verið settir á völlinn til að kynna sér rekstur flugvallarins, og álit þeirra liggur ekki enn fyrir. En ég geri ráð fyrir, að þetta verði rekið á vegum hins opinbera, en hef ekki kynnt mér, hvort þörf muni að setja sérstök lög um þetta, eða það gæti fallið undir þau lög, sem fyrir eru. Um þessar ósamhljóða fregnir er það að segja, að þetta skozka flugfélag hefur verið að undirbúa flugsamgöngur til Ameríku og hefur óskað eftir að fá að hafa hér viðkomustað — nontrafic stop — til að taka eldsneyti.

Það mun vera ágreiningur um það, hvernig eigi að koma flugsamgöngunum fyrir utan Englands. En þessu félagi var veitt bráðabirgðaleyfi til þriggja mánaða til að koma við á Íslandi í reynsluflugi. Hins vegar var það, sem talað var um í Morgunblaðinu um flugferðir til Íslands, á misskilningi byggt. Og hafa engar ákvarðanir eða óskir komið fram við ríkisstj. um farþegaflug til Íslands. Sú frétt, að félagið væri búið að fá leyfi um farþegaflug til Íslands, er því ekki rétt, en aðeins bráðabirgðaleyfi til þriggja mánaða.

Það hefur verið rætt um það hjá flugmálasérfræðingum, hvernig rekstri flugvallanna skuli hagað. Sumir telja hyggilegast að reka bara annan flugvöllinn og þá Reykjavíkurflugvöllinn. En ríkisstjórninni þótti rétt að fara fram á, að Íslendingar fengju að starfa á flugvöllunum til að kynna sér rekstur þeirra.