05.03.1946
Neðri deild: 80. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég heyrði því miður ekki ræðu hv. frsm. n. og hef því ekki rök hans, þau er hann færir fyrir því að fella niður 5. gr. Skilst mér þó, að meiri hl. allshn. telji, að frvgr. feli í sér of víðtæka eignarnámsheimild, og leggi hann því til, að hún verði felld brott.

Ég vil geta þess, að komið hefur til greina svæði undir hótelið, þar sem mörg hús eru í eigu einstaklinga. Fjarri fer því, að ákveðið sé, hvar reisa eigi þetta hótel. Staður þessi er aðeins einn af þeim, er til greina geta komið. En verði hann valinn, þyrfti heimild til eignarnáms á honum að vera fyrir hendi. Ef n. getur hins vegar sannfært mig um, að þessarar heimildar þurfi eigi með til að fá áður greint svæði undir húsið, þá hef ég að sjálfsögðu ekkert á móti brtt. meiri hl. við 5. gr. frv.

Ég skal ekki vera margorður út af ræðu hv. 2. þm. S.-M. Sjónarmið hans er ljóst. Hann er á móti frv. Hv. þm. vill ekki, að ríkið leggi fram fé til þess að byggt verði hér á landi nýtízku hótel, og er í sjálfu sér ekkert við þessu að segja. Hann getur haft það eins og hugur hans stendur til. En sjónarmið hans er þröngt og óhentugt. Ég gerði grein fyrir því við 1. umr. málsins, hvers vegna ekki væri einungis nauðsynlegt, heldur og óhjákvæmilegt, að hér á landi verði reist nýtízku hótel, er sé þjóðinni samboðið. Þetta skilst betur, þegar þess er gætt, að Ísland er nú orðið miðpunktur langferða og samgangna þjóða á milli. Slíkt hótel verður að vera hér. Hjá því verður ekki komizt. Ég gat þess líka og endurtek hér, að ríkið á að gerast aðili að þessari framkvæmd.

Ef úr þessu verður, þá getur það orðið til þess, að hér verði grundvöllur lagður að nýjum atvinnuvegi, en hann er sá, sem skapast af langferðum og skemmtiferðalögum erlendra manna hingað til lands. Ég er ekki viss um, að þetta reyndist óarðvænni atvinnuvegur en margt annað.

Hv. þm. lét þess getið, að í upphafi skyldi endinn skoða og benti jafnframt á, að víðar um land þyrfti hótel. Skal ég viðurkenna, að hótelmálin hjá okkur eru í mesta ólagi. En þetta gistihús í Reykjavík hefur þó sérstöðu. Um það er ekki að ræða, að fleiri en eitt slíkt hótel verði reist, og ekki nema í Rvík. Ríkið er eini færi þátttakandinn í þessari byggingu. Óhjákvæmilegt er, að það leggi eitthvað af mörkum til þess að lækka stofnkostnað þessa gistihúss, svo að unnt megi verða að reka þarna hótel, sem sé þjóðinni til sóma. Ég tók og fram, að líkurnar bentu til, ef hótelreksturinn yrði 1. flokks, að þá mundi slíkur rekstur verða sú tekjulind, er veigur væri í, og þá væri ekki annað til í málinu en ríkið tækist hann á hendur, ellegar ekki yrði horfið að neinum slíkum rekstri sem þessum. Þessar voru ástæðurnar fyrir því, að þessir þrír aðilar lögðu út í þetta. Þeir eiga hér líka óbeint talsverðra hagsmuna að gæta. Með þessu móti var álitið, að reksturinn mundi verða í beztu lagi, þar eð ekki var talið líklegt, að einstaklingar mundu fara með málið inn á heppilegar brautir.

Hv. þm. var svo að tala um örðugleika ríkissjóðs, að hann væri nú að þrotum kominn. En þetta er það sama og sézt hefur í Tímanum, m. a. um lántökuheimildina fyrir 30 togurum. Fæst það fé vitanlega endurgreitt, þar sem togararnir verða seldir síðar einstaklingum. Ég sé ekki, eins og hag þjóðarinnar er nú komið, að ríkissjóði sé eigi vel fært að leggja fram peninga í þessu skyni, þ. e. til hótelsins, enda þótt hann fái þá ekki endurgreidda.

Hv. þm. sagði, að heppilegra og sæmra væri að verja fénu til atvinnumála, og nefndi í því sambandi nýbýlahverfi. En ég efast um, að ferðamenn, er til landsins kunna að koma, geri sér að góðu að vera þá vísað til nýbýla austur í Flóa eða annars staðar. Ég sem sagt tel, að með þessu frv. sé bætt úr brýnni þörf. Hér er líklegt, að mönnum verði skapaðir ýmsir möguleikar, og ég tel, að efling þess atvinnuvegar, er ég áður gat, sé ekki ónauðsynlegri en hvað annað. Hann kemur til með að verða mikilvægur.

Hv. þdm. taka vitanlega afstöðu til málsins, eins og hverjum og einum býður við að horfa. Ég beini þeirri fyrirspurn til n., hvort í öðrum lögum sé ekki eignarnámsheimild, því að án hennar verður byggingin torveldari.