07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Þórður Benediktsson:

Ræða mín um þetta mál hefur líklega orðið nokkru torskildari en ég vænti. Það lítur út fyrir, að hv. 3. þm. Reykv. hafi misskilið orð mín viðkomandi helgi eignarréttarins. Þykir mér það leitt. Ég vil ekki, að sá prýðilegi maður hafi rangt álit á skoðunum mínum í þessu máli. Ég er honum sammála um, að eignarrétturinn sé lífakkeri þjóðarinnar, eins og hann benti á. En það eru viss svið, þar sem eignarrétturinn getur ekki verið óskoraður, nema til skaða fyrir almenning. Til skýringar langar mig til að spyrja: Væru t. d. öll fiskimið Íslands í einkaeign og þau síðan leigð út af þessum eiganda með okurverði, ætli hv. 3. þm. Reykv. mundi ekki eins og mér falla það mjög illa? Jú, við mundum verða sammála um að hnekkja þessu. Og ef einhver maður t. d. ætti land í nágrenni Reykjavíkur og léti þrífast þar illgresi og aðrir fengju ekki að njóta landsins, þá yrðum við hv. 3. þm. Reykv. að breyta þessu. Það kann e. t. v. einhver að segja, að enginn maður hafi kostað til miðanna, þar hafi ekki verið byggt og ræktað. En ég vil þá segja: Þeir, sem byggja og rækta, eiga að hafa heimild til lands að réttu lagi, en hinir, sem hvorki rækta né byggja á landinu, ættu ekki að hafa heimild til landsins. Það þætti líka einkennilegt, ef það ætti að fara að selja manni andrúmsloftið. — Það er svo, að það óréttlæti, sem maður elst upp við, er manni furðu bærilegt. En ef á að leggja á mann nýja hlekki, þá er stungið við fótum. Ég hef talað um það, hve menn eru ákaflega viðkvæmir fyrir eignarréttinum, jafnvel þar sem hann á ekki rétt á sér. Ég gæti hins vegar nefnt dæmi, þar sem eignarrétturinn er ekki tryggður sem skyldi, en ætla ekki að fara út í það hér. — Svo minntist þessi hv. þm. á öfund. Ég tek það ekki til mín. Ég held, að ég viti ekki, hvað sú kennd er. Og það, sem vakir fyrir mér, er það, að allir þjóðfélagsþegnar eigi jafngóðu lífi að fagna eins og þeir, sem bezt hafa lífskjörin nú í þessu þjóðfélagi. Og ég tel, að það sé hægt að koma því í framkvæmd. Og að það sé hægt, hefur sannazt á stríðsárunum, með þeim gífurlegu fjárveitingum, sem stríðsþjóðirnar hafa lagt fram. h:g vil, að eignarrétturinn sé varðveittur, Það er hægt að treysta því.

Hv. 2. þm. S.–M. vék fáeinum orðum að mér í sinni ræðu. Honum hefur víst þótt ræða mín óskipuleg, og lái ég honum það ekki. Ég er nýliði hér á þingi, og virðuleiki stofnunarinnar hefur truflandi áhrif á flesta í fyrstu. Hann titlaði mig hv. landskjörinn. E. t. v. hefur þetta stafað af minnisleysi, e. t. v. af ókurteisi. Mér þykir hvort tveggja slæmt. Ókurteisi er löstur, og stafar alla jafna af minnimáttarkennd og erfiðum skapsmunum, og kenni ég í brjósti um þá menn, sem þannig er ástatt fyrir. — Mér hefur fundizt hv. 2. þm. S.-M. einkennilega svartsýnn, og ég hef haft orð á þessu. Honum hefur fallið það illa. Ég hefði kannske heldur átt að segja, að hann væri úrtölusamur. Hann hefur verið það, og jafnvel farið með hrakspár. Við það að lesa sögu, þótt ekki sé nema saga Íslendinga, kemst það inn hjá manni, að maður vill ógjarnan fá það orð á sig að vera talinn úrtölusamur, hví að það er dauft ljós yfir minningu þeirra manna í þjóðfélaginu, sem ég gjarnan vil kalla úrtölumenn og „við-getum-ekki-menn“. Svartsýni er engum til góðs, en alltaf til ills. Úrtölumenn eru líka alltaf til ills. Það væri gott, ef slíkt væri lagt á hilluna yfirleitt.

En svo prýddi hv. 2. þm. S.-M. mál sitt með því að kalla mig „framfaramanninn úr Eyjum“. Ég var ákaflega glaður yfir þessum orðum, vegna þess að þetta er heiðurstitill. Og vegna þess, að mér er hlýtt til allra manna, vil ég biðja þess, að hv. 2. þm. S.-M. verði kallaður framfaramaðurinn að austan. Ég vildi óska þess, að hans þingsaga yrði þannig hér eftir.

En svo maður víki að hótelbyggingunni, þá er það rétt hjá hv. 2. þm. S.-M., að það er einkennilegt, hversu virðist vera lélegur árangur af starfrækslu gistihúsa hér á landi, eins og verðið á greiðanum er þó geysihátt. Mér finnst það tortryggilegt. Ég skil ekki, hver kynstur óhappa eða óhagsýni þar koma fyrir. Á hótelunum er flestallt selt með okurverði. Það eru náttúrlega til margir menn, sem iðka barlóm og eru „alltaf að tapa“. Mér finnst, að þessir menn, sem „alltaf eru að tapa“, — ég meina það til hótelstjóranna — ættu að gefa út kennslubækur um það, hvernig ætti að hagnast á „tapi“. En það er annað mál. Fyrirgreiðsla á hótelum, við því verði, sem hún hér á landi er seld, á að skila góðum árangri, í því er ég sammála hv. 2. þm. S.-M. En hins vegar finnst mér ekki, að bíða eigi eftir því með þessa gistihúsbyggingu, að einkaframtakið fái að njóta sín þar. Ég hygg, að hótelrekstur eins og hér er gert ráð fyrir í þessu frv. geti orðið einhver gróðaatvinnuvegur, og einmitt þess vegna get ég unnt þessum aðilum að njóta þar hagnaðar.

Stað fyrir þetta hótel þarf að velja út frá fagurfræðilegum og hagrænum sjónarmiðum. Þar má ekkert vera til fyrirstöðu. Ég er því á móti því, að 5. gr. frv. verði felld burt úr frv. Það gæti orðið til þess að torvelda þeim, sem um þetta mál fjalla, að þetta mál komist í framkvæmd. En þess er brýn þörf að koma upp þessu hóteli. Því að við getum ekki tekið á móti erlendum ferðamönnum án þess, en viðskipti við þá gætu orðið mjög mikil, ef hægt væri að veita þeim fyrirgreiðslu á fullkomnu hóteli. Við höfum ekki ráð á því að fá það orð á okkur, að við getum ekki hýst útlenda gesti. Ég vil þess vegna láta 5. gr. frv. haldast, því að hún gæti orðið til þess, að hótelið yrði reist á þeim stað, þar sem það mundi prýða þennan ófríða bæ, sem er þó svo heppinn að vera í fögru umhverfi. Og það er svo sem engin hætta á ofbeldisverkum af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessu efni, heldur er þetta ákvæði haft til þess að greiða fyrir málinu.

Við það að lesa 1. gr. frv. getur manni dottið í hug, hvort ekki væri rétt að fara að athuga það, hvort ríkið ætti ekki að gerast aðili að hótelbyggingum á fleiri stöðum á landinu, t. d. á Þingvöllum og við Geysi. Þegar maður lítur á reynslu Sviss, þá freistast maður til að halda, að það mundi vera rétt af því opinbera að stuðla að svona framkvæmdum t. d. á slíkum stöðum, sem sagt víðar en í Reykjavík. Aðalatvinnuvegur Svisslendinga er að taka á móti og annast um skemmtiferðamenn. Það er ekki fráleitt, að við Íslendingar gætum keppt við Sviss í þessu efni. Við höfum margt að auglýsa. Þingvellir eru talinn frægur og fagur staður og Geysir alveg dæmalaust náttúruundur. Og svo getum við líka boðið upp á eitt, sem við getum auglýst, beljandi slagviðri og stórhríðar. Það er fjöldi ungra manna, sem mundi geðjast jafnvel bezt að þessu. Og mér hefur dottið í hug, að á milli umr. um þetta mál mætti athuga nánar, hvað mætti leggja til málanna um gistihúsbyggingar við einkennilega og fagra staði hér á landi. Og ferðamannastraumurinn hingað til lands takmarkast ekki af öðru en húsnæði, sem fyrir hendi er til þess að hýsa ferðamennina: Og ég sé ekkert á móti því, að ríkisstj. hafi forustu um þessi mál, og ég hygg, að það væri ekki nema rétt til hagað að skipa sérstaka stjórn yfir þessi væntanlegu fyrirtæki. En það ætla ég ekki að ræða nú.