07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég vil nú ekki tefja þetta mál frá þeim eðlilega gangi, sem það ætti að fara að geta tekið, og vil ég lýsa yfir því, að ég tel það betur farið, að háttv. allshn. hafi tekið upp þann þráð, sem ég gerði að nokkru umtalsefni við 1. umr. þessa máls. Hv. form. og frsm. allshn. hafa gert grein fyrir því, hvers vegna n. leggur nú til, að 5. gr. frv. verði nú niður felld, og er það í samræmi við þá skýringu og raunar þau andmæli, sem ég flutti hér við téða umr., sem sé, að það væri bæði óeðlilegt og hættulegt að fara þannig með það ákvæði stjórnarl., sem fjallar um eignarrétt og eignarnám, eins og í frv. væri gert ráð fyrir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að eignarnám er leyft samkv. sjálfri stjskr., en aðeins undir sérstökum kringumstæðum, en almennt eignarnám er ekki til í l., slíkt sem frv. fer fram á. Hæstv. ráðh. vitnaði til þess, að vegal. og almenn skipulagsl. hefðu að innihalda nokkuð slíkt, en þar gegnir allt öðru máli. Þess eru engin dæmi, að einstakar stofnanir, hverjir sem að þeim standa, hafi fengið að skipa sér innan þeirrar varnargirðingar eða hafi verið settar á fót af löggjöf landsins með þeim hætti, að þeim hafi verið leyfð ótakmörkuð eignartaka. Ég ímynda mér því, að þessi gr. frv., sem hér um ræðir, hafi verið sett inn af misskilningi, af því að ekki hafi verið nægilega athugað að fara samkv. stjskr. Hér kemur að sjálfsögðu einnig til greina nokkur álitsmunur um það, í hverju tilfelli megi leyfa eignarnám og hvenær almenningsheill krefji eða geri slíkt kleift, og skal ég ekki fara frekar út í það. Fyrir mitt leyti tel ég ekki rétt að leyfa eignarnámsheimild fyrir einstakar stofnanir, eins og hér ætti sér stað, þar eð ekki er auðvelt að sanna, að almenningsheill krefjist þess.

Auk þeirra almennu athugasemda, sem koma heim við það, sem hv. n. hefur nú fallizt á, vildi ég — af því að svo virðist sem n. ætli að taka málið til meðferðar, þar sem frestað hefur verið atkvgr. um einstök atriði — beina, þeirri spurningu til n., hvort hún hafi ekki athugað það út af fyrir sig, því að það atriði áhrærir raunar merg málsins, hvort ríkið ætti að taka upp þann hátt, sem nú hefur verið rætt hér um, að ráðast í að byggja fyrir einstakan atvinnurekstur, eins og maður verður að kalla hótelrekstur, þar sem eðlilegra er, að hann sé á einstakra færi og rekinn á þann veg, að ekki þurfi að vera nein gustukaverk þar í kring.

Þá vil ég spyrja hv. allshn., hvort hún hafi athugað það, hvort hér sé ekki í bænum verið að undirbúa mikla gistihúsbyggingu. Hefur það einnig verið athugað, hvort þessi stóru fyrirtæki, Reykjavíkurbær, Eimskipafélag Íslands h. f. og ýmis önnur voldug fyrirtæki, sem hér eru, megni ekki að ráðast í þessar framkvæmdir sjálf? Hvers vegna leita þau til ríkisins um styrk? Það er svo, að Eimskipafélag Íslands hefur fengið heimild til þess að reisa gistihús, og var þar ekkert nefnt um það að fara fram á styrk ríkisins í því sambandi, og öllum er kunnugt um, að fjárhagur þess félags er þannig, að það á milljónir í sjóði. Reykjavíkurbær hefur og öll tök á því að sjá farborða í sínum sökum og hefur fengið slíkt álöguvald yfir almenningi í þessum bæ, sem mönnum er nógsamlega kunnugt um og þegar er algjörlega jafnoki álöguvalds hins opinbera. En hvers vegna er sú árátta orðin svo rík hjá Reykjavíkurbæ að fara ætíð til ríkisins og reyna að klúðra því inn í allt, sem hér á að framkvæma, sem hann treystir sér kannske ekki til í svip, en verður að sætta sig við, að er hans mál? Á þá ríkið alltaf að standa upp á gátt fyrir öllu slíku? Slík fordæmi eru mjög hættuleg. Nú er mér kunnugt um, að hafinn er undirbúningur að byggingu stærðar gistihúss hér í bæ, og er ráðgert, að sú bygging taki yfir lóðirnar við Aðalstræti, allt frá Uppsölum og að Aðalstræti 8 (öðru nafni „Fjalakötturinn“). Allt þetta svæði er á hendi einstaklings aðila og hefur verið gerður uppdráttur að þessari byggingu, þar sem gert er ráð fyrir hinum glæsilegustu verzlunum á neðstu hæðinni og 150 herbergjum á hinum hæðum byggingararinnar fyrir þá, sem að koma og ráð hafa á að borga. — Vill nú hv. allshn. ekki athuga þessi atriði hvor tveggja, hvort stórfyrirtæki eins og Reykjavíkurbær og Eimskipafélagið, sem hafa fengið leyfi út af fyrir sig til þess að fara út í þessar framkvæmdir, gætu ekki fengið önnur stórgróðafyrirtæki í lið með sér heldur en að leita til ríkisins um styrk í þessu skyni, svo og að athuga sérstaklega, hvað líður þessu stóra gistihúsi við Aðalstræti, sem þegar hefur verið gerð teikning af ?

Að öðru leyti get ég endurtekið það, sem ég sagði hér við 1. umr. þessa máls, að það er gott, að slíkt mál sem þetta komi fram, til þess að menn geti litið á það frá öllum hliðum, þar með er ekki sagt, að fara ætti út í þessa framkvæmd strax, sem hér er lagt til, en hins vegar er þetta verulegt atriði, sem í okkar þjóðfélagi kemur til mála.

Að lokum vil ég minnast örfáum orðum á, hvaða réttindi slíkt gistihús, sem hér um ræðir, ætti að hafa, hvort sem það yrði rekið af einstaklingum eða hinu opinbera. Í fyrsta lagi er það, að ef þessi aðili ætti að fá eignarnámsheimild, þá ættu sömuleiðis aðrir að fá hana, sem reistu slík þjóðþrifafyrirtæki. Þá kemur og það atriði til athugunar, að eins og nú standa sakir, er aðeins einu gistihúsi hér í bæ veitt almennt vínveitingaleyfi, en meðan áfengi er selt í landinu, er sjálfsagt að veita öllum gistihúsum vínveitingaleyfi. Mundi slíkt og forða því, að menn hefðu þar vín um hönd í óleyfi og öfluðu þess með kjörum, sem ekki eru æskileg, því að áfengi er nógu dýrt, þótt ekki sé á það bætt. Allt þetta kemur til greina fyrir þá aðila, sem með þetta mál eiga að fjalla, hvort heldur það verða einstaklingar eða stofnanir. Hins vegar hefur engin skýring fengizt á því, hvort tilgangurinn með þessu frv. sé aðeins að reisa þessa byggingu eða hvort ríkið eigi einnig að ábyrgjast reksturinn. Allt þetta kemur til athugunar hv. allshn., sem fjallar um málið, en skylt er henni að kynna sér allar hliðar þess.