07.03.1946
Neðri deild: 82. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson) :

Það er varla hægt að ætlast til þess, að svara eigi hv. 2. þm. N.-M. En af því, að hann er með rangar ályktanir, þá ítreka ég, að það er ákaflega fjarri lagi, að hægt sé að krefjast þess af nýbyggingarráði, sem hann talaði um. Vitanlega er hægt að semja áætlun um, hvað æskilegt sé, en ég held, að engum detti hitt í hug nema hv. 2. þm. N.-M.

Þá sagði þessi hv. þm., að verið væri að flytja þetta frv. sem einhverja dulu til að flagga með, þannig að fresta yrði einhverjum opinberum byggingum, ef skortur yrði á byggingarefni og verkafólki. Hins vegar — auk þess að ekkert er líklegra en hið opinbera verði að fresta ýmsum byggingum, — er vitanlega um hreinar getsakir gersamlega að tilefnislausu að ræða hjá hv. 2. þm. N.-M., þar eð ekkert verður um þessi mál sagt þegar í stað. Bygging slíks hótels sem þess, er hér um ræðir, þarf langan undirbúning. Sennilega mundi taka tíma allt til áramóta að útvega uppdrætti og þess háttar. Eru því litlar líkur til, að hægt verði að byrja á verkinu fyrr en eftir áramót. Mér hefur verið tjáð af þeim manni, sem teiknað hefur flestar af opinberum stórbyggingum okkar, að ársverk væri það a. m. k. að undirbúa teikningar og uppdrætti að slíku húsi sem Akureyrarspítala, og þó verður þetta hótel líklega enn stærra. Mér þykir líklegt, að undirbúningnum verði eigi lokið fyrr en um áramót, jafnvel þótt málið fái stuðning ekki alllítinn.