11.03.1946
Neðri deild: 84. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt út í þetta mál. — Það er sjálfsagt þarft mál að koma upp gistihúsi í Reykjavík og mun hafa hlotið nokkurn undirbúning, eins og lýst er í grg. og heyra mátti á ræðu hæstv. samgmrh. Það, sem ég hef við þetta frv. að athuga, er ákvæði í 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður einn takist á hendur rekstur þessa gistihúss. Að vísu eru opnar fleiri leiðir samkv. gr., eða að það verði rekið í félagi við þá aðila, sem verða þátttakendur í að reisa húsið, og enn fremur er sú leið opin að leigja húsið, ef það þykir hentugra. Ég hefði kunnað því betur, að þetta gistihús yrði rekið af þeim aðilum, sem standa að byggingu þess, en jafnframt væri gerð sú undantekning, að leigja mætti húsið, ef sá aðili fyndist, sem vildi taka að sér rekstur þess og treysta mætti til slíks verks. Ég hef hugsað mér að bera fram skriflega brtt. hér að lútandi. Er hún umorðun á 3. gr. frv. og hljóðar svo:

„Gistihúsið skal rekið fyrir reikning þeirra aðila, sem verða þátttakendur í því að reisa það. Ef hentugra þykir, má þó leigja húsið til gistihúshalds.“

Þannig tel ég, að eðlilegt sé, að þessi grein sé orðuð. Ég álít, að æskilegast hefði verið, að ríkissjóður hefði ekki þurft að skipta sér af byggingu slíks gistihúss, heldur að einstaklingar hefðu tekizt slíkt á hendur. En úr því sú leið virðist ekki fær, tel ég sjálfsagt, að þeir aðilar, sem reisa húsið, reki það einnig. — Ég leyfi mér svo að leggja þessa skrifl. brtt. fyrir hæstv. forseta.