13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Síðan mál þetta var til umræðu í gær, hefur allshn. átt fund með hæstv. samgmrh. og rætt ágreining þann, er varð um 5. gr. frv. viðvíkjandi eignarnámsheimildinni. Hæstv. ráðh. skýrði svo frá, að í ráði væri að reisa gistihúsið á þríhyrningnum vestan tjarnarinnar, milli Skothúsvegar og Tjarnargötu, og féllst n. á að veita eignarnámsheimild fyrir lóð á þessum stað og ákvað að flytja brtt. þar að lútandi, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt að taka eignarnámi undir gistihúsið og því til afnota lóðir, hús og mannvirki á landsvæði í krika þeim vestan tjarnarinnar í Reykjavík, er takmarkast af tjörninni, Tjarnargötu og Skothúsvegi, ef samkomulag næst ekki um kaup. Fer þá um eignarnámið eftir lögum nr. 61 14. nóv. 1917.“

Hæstv. ráðh. skýrði einnig frá því, að hugsanlegt væri, að breyting yrði á staðarvali, þar eð von væri á sérfræðingi frá Ameríku til að gera tillögur um fyrirkomulag hússins. Ef annar staður yrði fyrir valinu og ekki næðist samkomulag um kaup á lóð, vill n. lýsa því yfir, að hún vill styðja að því, að eignarnámsheimild verði veitt á því landi, sem valið yrði. Ég vil svo vænta þess, að allar deilur um 5. gr. séu leystar með þessari brtt.