13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég spurði hæstv. ráðh. að því í gær, hvað satt væri í því, sem almennt væri orðað í bænum, að beðið hefði verið um yfirfærslu á 45 þús. $ handa manni, sem hefði starfað að undirbúningi undir byggingu útvarpshallarinnar. Nú er sólarhringur síðan, og mig langar til að heyra, hvað hæstv. ráðh. veit um þetta, því að ég veit með sanni, að það hefur verið beðið um þetta. (Samgmrh.: Þá þarf hv. þm. ekki að spyrja.) Það er búið að teikna frumteikningarnar og steypa eitthvert líkan, og hvað á svo framhaldið að kosta?

Þá langar mig til að benda á, að nú er talað um ákveðið land, sem eigi að taka eignarnámi, og er búið að lýsa því, hvernig ástatt er um það land. Mér skilst, að það verði ekki byggt á því svæði nema rífa húsin, sem eru þar fyrir. Nú vil ég benda á, að í l. nr. 39 7. apríl 1943 er bannað að rífa hús nema sett séu upp í þeirra stað hús fyrir það fólk, þann atvinnurekstur og aðra starfsemi, sem hefur átt sér stað í þeim húsum, sem rifin eru. Mér skilst því, að um leið og hæstv. stj. verður gefin heimild til að rífa hús á þessum stað og byggja hótel, verði að gefa henni heimild til að byggja hús yfir það fólk, sem þarna býr, og yfir þann atvinnurekstur sem þarna á sér stað, annars eru l. ekki framkvæmanleg, því að það er gagnslaust fyrir stj. að fá samþ. l., sem brjóta í bág við önnur l. Ég hygg því, að allshn. þurfi enn að fá málinu frestað til þess að útvega hæstv. stj. heimild til að byggja sjúkrahús, barnaheimili og íbúðarhús í staðinn fyrir þessi hús, sem þarna eru, þar sem hótelið á að rísa upp.

Þá vil ég enn fremur benda á það, sem þarf ekki að benda á, en komið hefur fram í umr., að svo fast hefur hæstv. stj. sótt að fá að verða þátttakandi í þessum rekstri eftir ræðu hv. frsm., að hún hefur reynt að innbyrða félagsskap, sem ætlaði að stofna til gistihússrekstrar, af því að hana langaði sjálfa svo mikið til að reisa gistihúsið, og nú ætlar hún að ganga að einhverjum skilyrðum til þess að fá þá inn í félagsskap með stj. Öðruvísi mér áður brá með suma menn í stj. hvað snertir ríkisrekstur, það hefði einhvern tíma þótt skrýtið, að þeir skuli nú leyfa sér að stíga á framtak einstaklinga til að byggja gistihús, til þess að hægt sé að koma þar á ríkisrekstri.