13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tek hér til máls aðeins vegna þess, að hæstv. atvmrh. minntist á það, að það væri þörf á hóteli víðar en í Rvík, t. d. á Þingvöllum. Mér fannst, að það yrði misskilið, ef ég léti eins og ég heyrði það ekki, þar sem ég er einn af nm. Þingvallanefndarinnar. N. hefur lengi haft í huga að reyna að koma upp hóteli á Þingvöllum. Þess vegna sneri hún sér fyrir 3 árum til Alþingis til lausnar þessu vandamáli. Hún fékk heimild til þess að kaupa gistihúsið á Þingvöllum. En þegar til átti að taka, þá var okkur synjað um kaup á því, og þar við situr. En n. er ljóst í fyrsta lagi, að þarna er lítil von um ágóða á gistihúsrekstri, ef fyllstu kröfum er framfylgt, — og í öðru lagi, að þarna er mesti vandi að gæta sóma þjóðarinnar. Það er síður en svo, að n. hafi sofið á málinu, því að hún hefur einmitt haft það ríkt í huga og hefur reynt að fá aðila til að taka þátt í hótelkostnaði, t. d. ríkisstjórnina, bæjarstjórn Rvíkur og stjórn Eimskipafélagsins, og hvort ekki væri þá hægt að auka heimildina þannig, að hún næði einnig til Þingvalla. Ég skal játa það, að við getum ekki ætlað okkur svo stóra hluti að greiða úr allri gistihúsaþörf í landinu í einu. Þetta yrði því öllu fremur stefnan, sem mörkuð yrði. En við verðum að minnast þess, að Þingvellir eru sá staður, sem erlendir menn sækja fyrst til utan Reykjavíkur. En til þess að tefja ekki þetta mál, þá kom okkur nm. saman um að flytja ekki brtt., heldur að mælast til þess, að áðurnefndir aðilar athuguðu vinsamlega, hvað bezt verði að gera. Ef til mála kæmi að auka einhverju við með hliðsjón af því, sem ég hef nú sagt, mætti þá koma því inn í frv. við umr. í Ed.

Ég ætla ekki að blanda mér frekar inn í umr. um þetta mál, en ætlast til, að þessi orð mín séu skoðuð sem greinargerð af hálfu Þingvallanefndarmanns.