13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Það er aðeins að gefnu tilefni, að ég segi nokkur orð. — Hv. 10. landsk. og hv. 2. þm. S.-M. voru sammála um, að þetta mál væri tekið skökkum tökum og mundi draga dilk á eftir sér. Hv. 10. landsk. sagði, að ríkisstj. væri í eins konar kapphlaupi við einstaklinga um byggingu gistihúss. Hann sagði, að hann væri að reyna að leysa ríkisstj. undan þeim vanda, sem hún hefði lagt á sig með þessu máli. Sama sagði hv. 2. þm. S.-M.

Ég hef oft tekið það fram, að það er reynsla fyrir því, að því meiri kröfur sem gerðar eru til gistihúsa, því meiri líkur eru til þess, að þau beri sig ekki. Það verða færri, sem fara út í það að reisa og reka gistihús. Ég hef átt tal við formann sambands gistihúsaeigenda, einnig tvo aðra prívatmenn, sem hafa fé og stað undir gistihús. Þeir hafa allir tekið það sem grundvallaratriði, að þeir mundu ekki leggja út í gistihúsbyggingu, svo stóra sem hér er um að ræða, nema fá fé annars staðar frá, því að engin trygging væri fyrir því, að slíkt gistihús bæri sig. Þetta er ástæðan fyrir því, að ríkisstj. hefur reynt að safna saman áhugamönnum og áhrifamönnum til að stuðla að þessum félagsskap, til þess í sameiningu að hrinda þessu máli í framkvæmd. Þetta er mergurinn málsins. Ég fullyrði við hv. 10. landsk. og 2. þm. S.-M., að þeir hafa enga ástæðu til að væna ríkisstj. um, að hún hafi farið skakkt að. Ég hef ekki farið inn á þessa braut fyrr en öll önnur sund voru lokuð.

Svona lá málið, er ríkisstj. ákvað að stofna félag, sem hún væri sjálf aðili í. — Ríkisstj. er einmitt að styrkja þá menn með þessu, menn, sem af eigin rammleik geta ekki komið upp gistihúsi, og það er rangt, að ríkisstj. hafi verið að taka fram fyrir hendurnar á einstaklingum, eins og hv. 10. landsk. sagði, — þvert á móti er verið að létta undir með þeim. — Það eru ýmis önnur hótel, sem hafa legið í loftinu hér, en ekki fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru til 1. flokks gistihúsa. — Það er blettur á íslenzku þjóðinni, hvernig ástandið er í hótelmálum okkar, og útlendingar, sem hingað koma, eru undrandi yfir því, að við skyldum una við þetta ástand, sem nú ríkir. — Það má e. t. v. deila um það, í hvaða röð á að framkvæma það, sem gera verður á næstunni, en þetta gistihús er eitt af því, sem er í fyrstu röð. Hv. 10. landsk. leyfði sér að halda því fram, að engin atvinna skaðaðist, þótt hótel kæmi fyrir útlendinga. Hve margir eru þeir í Rvík, sem hafa atvinnu af því að annast ferðamenn? spyr hann. — Hótel í Rvík er einmitt frumskilyrði fyrir því. Það er til heimild í lögum um að styrkja hótel úti á landi með fjárframlögum, og hefur sú heimild verið notuð og komið að góðu haldi og bætt úr brýnustu þörf. Með þessum fjárframlögum hafa verið styrktar smáhótelbyggingar úti á landi. En ég tel það mál út af fyrir sig og mál, sem einstaklingarnir ráða sjálfir. Þeir hafa reist smáhótel úti á landi af eigin rammleik, hótel, sem ekki eru gerðar of háar kröfur til. Ríkisstjórnin hefur farið þá einu réttu leið, sem hægt var að fara í þessu máli að mínu áliti. — Það er lögð einhver óskiljanleg áherzla á það af framsóknarmönnum og samherjum þeirra að koma þessu máli fyrir kattarnef. Ég hef nú upplýst, að ríkisstj. er ekki í neinu kapphlaupi við einstaklinga um þetta, heldur þvert á móti er hún að hjálpa þeim.