13.03.1946
Neðri deild: 86. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

168. mál, gistihúsbygging í Reykjavík

Gísli Sveinsson:

Orð hæstv. samgmrh. voru að vísu ekki alveg í samræmi við efni máls hans. Það eru tvö atriði í ræðu hans, sem ástæða er til að segja eitt orð um. Ráðh. sagði, að sótt væri af ofurkappi af mér og framsóknarmönnum að fella málið. Ég hef þó lýst því yfir, að þrátt fyrir þær rökstuddu athugasemdir, sem ég hef gert, þá mundi ég ekki greiða atkv. á móti frv., heldur sitja hjá við atkvgr. Þetta er því að því er mig snertir hrein villa. Ég hef ekki reynt að fella málið, heldur skýrt afstöðu mína, sem er þingmannsskylda mín. Annað atriði í ræðu hæstv. ráðh. var — (Ég ætla að bíða á meðan ráðh. víkur af fundi, ég ætla að sjá, hvort hann er vikinn af fundi undan ummælum mínum.) — að hann gæti séð og vissi, að hér væri þetta haft að yfirvarpi og að annað lægi á bak við. Þetta sýnir nú bezt, hvar ofsinn er og kappið, og sýnir ófyrirleitni hæstv. ráðh. að halda því fram, að þingmenn, tali af yfirvarpi, og leyfi ég mér að mótmæla þessu sem markleysu og órökstuddu fleipri. (Samgmrh.: Af hverju talaði hv. þm. um kapphlaup við einstaklinga?) Ég talaði af minni sannfæringu, og ég tel það kapphlaup, ef einstaklingum er ekki leyft að byggja gistihús, ef það nær tilganginum, og ég er enn ekki kominn á þá skoðun, að ríkið eigi að hafa afskipti af þessu, því að ef menn telja, að ríkið eigi að gera þessar framkvæmdir, þá draga þeir sig til baka.

Ég hef að vísu ekki aflað mér upplýsinga öðruvísi en að ég hef talað við menn, og þeir óspurðir hafa látið mér í té upplýsingar um teikningar o. fl. — Þetta er nú allt og sumt, og ætti að vera hægt að ræða þetta án þess að vera með dylgjur, eins og hæstv. ráðh. lét sér sæma, og niðurstaðan ætti að verða eftir því, sem sannara reynist.

Ég mun nú láta máli mínu lokið, en ég vil endurtaka það — og ráðh. hefði getað sagt sér það sjálfur — að ég hef ekkert með hótelbyggingar að gera, en ég er nú enn þm. á þessum stað og hef leyfi til og það er mér skylt að ræða þetta og halda fram því, sem mér þykir réttast.